12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mér finnst vera allmikið óðagot á mönnum. Skýrslu sem birtist á mánudagsmorgun í 20 eintökum er ekki hægt að senda alþm., því hér eiga 60 þm. sæti, nema fjölfalda hana. Það er búið að taka allan þennan tíma. Ég held að það sé engin ástæða til að krefjast umræðu um þessa skýrslu. Hún verður rædd í Sþ. og tekin á dagskrá. Ég sé ekki að það þurfi að vera neinn taugatitringur í mönnum út af því.

Ég tel eðlilegt, og það hefur verið gert í öllum ríkisstjórnum, að mál séu lögð fyrir ríkisstjórn og fyrir ráðherra. Frv. sem flutt var um þetta mál var stjfrv. Var það ekki eðlilegt eins og alltaf er, sama hvaða ríkisstjórn er við völd, að ráðherrar í ríkisstjórn fái fyrst að sjá málið? Voru það ekki eðlileg viðbrögð frá minni hendi að segja við fjölmiðla: Þið fáið ekki þessa skýrslu fyrr en hún verður lögð fram á Alþingi og þá fær öll þjóðin að vita um hana. Það var það sem var verið að reyna að gera, hraða því að skýrslan yrði lögð fram þannig að þm. fengju hana á undan fjölmiðlum og undan almenningi.

Þeir sem var send skýrslan hafa ekki allir fengið hana í hendur því sumir ráðherrar hafa verið erlendis. Ég óskaði eftir því við ráðuneytisstjóra viðskrn. að hann sendi skýrsluna strax á mánudaginn til allra ráðherra og nokkurra annarra. Ég man ekki alveg hverjir það voru. Ég held að það séu sex eða sjö eintök eftir. Ráðherrarnir eru tíu, ein skýrsla fór inn í forsrn. og ég lét varaformann Sjálfstfl. hafa skýrsluna þó að hann eigi ekki sæti í ríkisstjórn vegna fjarveru formanns flokksins. Bankastjórn Seðlabankans, sem hefur fylgst náið með þessum málum, fékk skýrsluna og bankastjórn Útvegsbankans fékk skýrsluna. Þar með held ég að allir séu upptaldir sem skýrsluna hafa fengið, nema ég lét eitt eintak, mitt eigið eintak, af hendi núna rétt fyrir kl. 2. við mann vegna þess að ég vissi að skýrslan var komin á Alþingi og þess vegna var hún ekki lengur trúnaðarmál.

Ég harma hversu oft hefur lekið málum, sem ekki hafa farið út fyrir ríkisstjórnina, í fjölmiðla. Í þó nokkuð mörgum tilfellum gat ekki verið um neina aðra að ræða en menn sem sitja ríkisstjórnarfundi. Ég ætlaði svo sannarlega að standa við það og hélt að það væri auðvelt að geta beðið með opinbera umræðu í þennan stutta tíma á meðan verið væri að prenta skýrsluna. Ég veit ekkert hvort það hefði tekist, þó ég hefði staðið nótt og dag vörð um þessi 20 eintök, að prenta skýrsluna án þess að hún hefði lekið út. Það hefur verið sótt jafnvel í prentsmiðju trúnaðarmál.

En ég ætla að taka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði að ég þarf alls ekki að saka stjórnarandstöðuna um trúnaðarbrot þegar henni hefur verið sent eitthvað. Ég er alveg staðráðinn í því að senda stjórnarandstöðunni núna á eftir eða færa henni tillögur bankastjórnar Seðlabankans um bankamál sem ég fékk á mánudagskvöld og var að láta ljósrita þau plögg. Þau hafa ekki verið send og ég hef sagt fjölmiðlum það. Eftir daginn í dag, eftir að þm. fá vitneskju um þær tillögur, verður ekki litið á þær tillögur sem neitt trúnaðarmál, en svo verður þangað til þm. fá að sjá það, bæði formenn flokka í stjórnarandstöðu og stjórnarþingmennirnir sem auðvitað tóku ákvörðun um þessa tillögugerð í bankamálunum.

Ég tek fram að ég tel langæskilegast að reyna að ná miklu víðtækara samstarfi um bankamálin en bara a milli stjórnarflokkanna. Stjórnir koma og stjórnir fara og getur verið bæði gagnlegt og nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar reyni að koma sínum sjónarmiðum fram og gera sínar athugasemdir. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst því yfir að þeir telji nauðsynlega uppstokkun bankakerfisins með því að fækka bönkum og gera einingarnar stærri. Þess vegna hljótum við að eiga frekar samleið en að vera sundraðir.