12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil endurtaka að strax á mánudag sendi ég þinginu skýrslu. Ég sendi skýrsluna á mánudag, um leið og sent er til ráðherra, forseta Sþ. með bréfi um að skýrslan verði birt Alþingi. Ég gat ekki sent það bréf fyrr en sama daginn, nokkrum klukkutímum eftir að ég á fund með nefndinni. Það eru því 16 aðilar sem hafa fengið þessa skýrslu. Það hljóta að vera fjögur eintök eftir uppi í skáp hjá mér uppi í viðskrn. Þessir 16 aðilar eru 10 ráðherrar og ein skýrsla fyrir forsrn., fyrir „fælinn“ þar, fyrir viðskrn. sem fór ekki fyrr en í gær inn í ráðuneyti frá mér, bankastjórn Seðlabanka og bankastjórn Útvegsbanka og forseti Sþ.

Ég hélt að ég mundi fá hól og þakklæti frá stjórnarandstöðunni fyrir það að hún fékk ekki skýrsluna í hendur fyrr en núna þannig að hún er ekki undir grun. Ef hún hefði fengið skýrsluna lægi hún undir grun alveg eins og hinir.

Ég verð að segja að oft hefur tekið lengri tíma að veita upplýsingastreymi til hins háa Alþingis en þetta. Það er komið í reynd í hendur forseta Sþ. sama daginn og skýrslan berst viðskrh. í hendur, en það tekur þennan tíma að ganga frá prentuninni og nú er allur trúnaður úti. Nú getur hver og einn talað um þessa skýrslu eins og hann vill.

Ég er með pakka á borðinu, sem ég er ekki búinn að taka upp, sem í eru tillögur bankastjórnar Seðlabankans. Mér er mjög kærkomið að afhenda formönnum flokka eintak af þessum tillögum þannig að þeir verði búnir að fá þær í hendur áður en verður kannske farið að veifa þeim framan í okkur í kvöld í sjónvarpi eða lesa upp úr því í útvarpi.

Ég veit eiginlega ekki hvenær má orðið treysta mönnum fyrir því sem kallað er „trúnaðarmál“. Ég tek alveg undir að það þarf að fara að setja ákveðnari reglur, en ég frábið mér að ég fari að hafa réttarhöld yfir öllum mönnum sem hafa fengið þetta. Auk þeirra sem ég nefndi eru auðvitað nefndarmennirnir sjálfir sem hljóta að hafa skýrsluna í sínum höndum. Einhverjir hafa unnið að prentun þessarar skýrslu. Ég veit ekkert um það. Ég ætla ekki að væna neinn af þessum um trúnaðarbrot, en ég veit að einhver, sem hefur fjallað um skýrsluna, annaðhvort við prentun hennar eða þeir sem fengu hana senda, hefur brugðist trúnaði. En Alþingi fer með löggjafarvald. Væri ekki rétta leiðin að setja lög um að þeim sem fara með efni trúnaðarmála sé skylt að segja frá því hverjir hafi fengið slík trúnaðarmál í hendur? Er ekki hægt að skylda þá fjölmiðlamenn að segja til um það hvar þeir fái það sem þeir mega ekki komast yfir? Ég skal standa að því að greiða atkvæði með löggjöf með líkum hætti og ég vona að hv. stjórnarandstaða sé mér sammála í þessum efnum.