12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

Skýrsla um viðskipti Útvegsbankans og Hafskips hf.

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að trúnaðarleki, hvort sem það er frá ríkisstjórn, þingmönnum eða öðrum sem trúnað hafa, er vitanlega ákaflega alvarlegt mál og ef þessi umræða gæti orðið til þess að lagfæra það væri hún góð.

Ég tek undir það sem sagt var hér áðan um stefnuræðu forsætisráðherra. Ég tók ekki eftir neinu núna, ég held að menn hafi verið of uppteknir af leiðtogafundi eða einhverju slíku, en ég var ákveðinn í því ef ég sæi það enn einu sinni í blöðum að leggja til að hætt yrði að dreifa stefnuræðu forsætisráðherra áður en hún er flutt. Mér finnst það mjög til athugunar ef slíkt heldur áfram.

Hins vegar verð ég að segja að því miður eða kannske á að segja sem betur fer er þetta ekkert nýtt nú. Þetta hefur verið svo í gegnum árin eftir því sem ég hef kynnst. Ég man eftir því í ríkisstjórninni 1978–1979 að stundum komu fréttir af ríkisstjórnarfundum í Dagblaðinu um líkt leyti og ríkisstjórnarfundi lauk. Mér var það satt að segja oft hulin raðgáta hvernig fréttir komust þangað, en mér sýndist að það hlyti að koma af ríkisstjórnarfundi.

En ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta er algerlega ófært og vonandi verður þessi umræða til að menn gæta sín betur.