15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

13. mál, barnalög

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir er ekki nýtt í sölum hv. deildar. Þetta er í þriðja skiptið sem ég mæli fyrir þessu frv. sem er frv. til l. um breyting á barnalögum.

Ég teldi æskilegt, herra forseti, að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur þessa umræðu um barnalögin. Ég tel að það sé brýnt þegar frv. þetta hefur verið í þrjú þing hér til meðferðar á hv. Alþingi án þess að fá neina endanlega niðurstöðu í málið og þá sé kominn tími til að Alþingi fái að vita afstöðu hæstv. dómsmrh. til þessa frv. sem ég nú mæli fyrir. (Forseti: Forseti hefur gert reka að því að ná sambandi við hæstv. dómsmrh., en það hefur ekki tekist. Hann er farinn úr húsinu og það náðist ekki til hans nú fyrir 3-4 mínútum.) Ég verð þá að vona, herra forseti, að frv. þetta komist svo langt áfram á þessu þingi að það verði tekið til 2. umr. og mun ég þá bíða með að bera fram fsp., sem ég hafði ætlað mér að gera, til hæstv. dómsmrh.

Það frv. sem ég mæli fyrir hefur það að markmiði að tryggja börnum, sem aðeins eiga annað foreldri á lífi, sama rétt og löggjafinn hefur þegar veitt börnum einstæðra foreldra sem leitað geta til meðlagsskylds aðila með framlög vegna menntunar barna sinna.

Í fimm ár hafa verið í gildi þessi ákvæði barnalaganna sem eru heimildarákvæði þess efnis að hægt er að ákveða framlag frá meðlagsskyldum aðila til menntunar og starfsþjálfunar barna til 20 ára aldurs. Hér er vissulega um mikilvægt ákvæði í barnalögunum að ræða sem getur haft verulega þýðingu og kannske oft ráðið úrslitum um það hvort börn einstæðra foreldra geta lagt stund á framhaldsnám. En þegar þetta ákvæði barnalaganna var samþykkt fyrir fimm árum var ekki hugað að því að tryggja börnum einstæðra foreldra, sem ekki geta leitað til meðlagsskylds aðila, sama rétt og barnalögin veittu öðrum börnum einstæðra foreldra.

Fjöldi þeirra einstæðu foreldra, sem ekki geta nýtt sér ákvæði barnalaganna, er mikill. Það er stór hópur, 1073 einstæðir foreldrar með 1564 börn á framfæri sínu, sem ekki getur leitað eftir þessu framlagi vegna menntunar barna sinna til 20 ára aldurs. Hér er því um mjög stóran hóp að ræða og augljóst ranglæti og mismunun í aðbúnaði og kjörum einstæðra foreldra sem með þessu frv. er leitast við að leiðrétta.

Í frv. er einnig lagt til að börn öryrkja og ellilífeyrisþega, sem ekki hafa annan framfærslueyri en bætur almannatrygginga, fái sama rétt. Þar er einnig um stóran hóp að ræða. Þar er samtals um að ræða 617 öryrkja og ellilífeyrisþega með 967 börn á framfæri sínu.

Þegar á heildina er litið gæfu ákvæði þessa frv. 1690 einstæðum foreldrum, öryrkjum og ellilífeyrisþegum með samtals 2531 barn á framfæri sínu möguleika á að leita eftir framlagi til menntunar barna sinna 18-20 ára. Það ber þó að taka fram að því er varðar þau heimildarákvæði, sem fyrir hendi eru nú í barnalögum, getur valdsmaður metið í hverju tilfelli aðstæður hins meðlagsskylda aðila, þar sem m.a. er tekið mið af efnahag og öðrum aðstæðum hans og þess foreldris sem forsjá barns hefur, þannig að ekki yrði í reynd um að ræða eins stóran hóp og ég hef hér nefnt sem fengi slík framlög sem hér um ræðir.

Þegar til þess er litið, herra forseti, að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður þessara einstæðu foreldra, sem ekki geta leitað til meðlagsskylds aðila og fá þess vegna ekki þessi framlög vegna menntunar barna sinna, geta verið eins, svipaðar eða jafnvel verri en foreldra þeirra barna sem nú geta leitað eftir framlögum vegna menntunar barna sinna, þá er furðulegt að Alþingi skuli ekki hafa tekið af skarið í þessu máli og veitt börnum þessara einstæðu foreldra sama rétt og börn annarra einstæðra foreldra hafa. Og ég trúi því ekki að þriðja þingið líði frá því að þetta frv. var fyrst lagt fram án þess að Alþingi samþykki það frv. sem hér liggur fyrir. Ef það verður ekki gert er ástæðan ekki sú að hér sé um stóran útgjaldaauka fyrir ríkissjóð að ræða ef þetta frv. verður að lögum.

Í fskj. með frv. liggur fyrir umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um þetta frv. sem allshn. Nd. fékk á síðasta þingi. Það er mat Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að eingöngu sé um að ræða útgjaldaauka upp á 4-5 millj. á ári verði frv. þetta að lögum. Því tel ég, ef hv. þm. þessarar deildar íhuga þetta mál og velta fyrir sér í alvöru hvað mikið óréttlæti felst í því að skilja eftir stóran hóp barna einstæðra foreldra án þess réttar sem löggjafinn hefur þegar tryggt öðrum börnum einstæðra foreldra, þá hljóti Alþingi að geta fallist á að samþykkja frv. sem ekki hefur meiri útgjaldaauka í för sér en ég hef hér lýst.

Herra forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frv., en vil mega vænta þess, og ég veit að ég tala fyrir munn beggja flm. frv., en flm. ásamt mér er hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að hv. Alþingi taki nú á sig rögg og samþykki það frv. sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.