12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

137. mál, verðlag, samkeppnishömlur og órettmætir viðskiptahættir

Jón Magnússon:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir stuðningi við þær hugmyndir sem fram koma í frv. sem síðasti ræðumaður mælti fyrir áðan. Um leið og ég segi þetta er ekki þar með sagt að ég taki undir að það sem hér er lagt til sé endilega það allra besta hvað þetta snertir, en hér er hreyft ákaflega mikilsverðu máli. Ég leyfi mér að benda á að samkvæmt könnunum liggur fyrir að ekki er framfylgt ákvæðum sem gilda um verðmerkingar almennt í verslunum. Þar er pottur brotinn. Komið hefur í ljós að í sumum tilvikum hjá einstaka verslun eru yfir 70% af þeim vörum sem eiga að vera með verðmerkingu ekki verðmerktar.

Spurning er með hvaða hætti hægt er að miðla upplýsingum um verð til neytenda með sem einföldustum hætti og þannig að það skili sér beint til þeirra. Ég hygg að ein aðferðin sé sú að efla starfsemi Verðlagsstofnunar enn frá því sem nú er. Önnur aðferðin væri sú að efla starfsemi þeirra samtaka sem vinna að neytendamálum. Ég held að þetta tvennt væri út af fyrir sig virkasta leiðin, en sjálfsagt að leggja auknar kröfur á seljendur vara og þjónustu þó að spurning geti verið um hvort það sé í raun framkvæmanlegt að gera það með jafnítarlegum hætti og lagt er til í þessu frv.

Í framhaldi af því held ég að það væri vel þess virði að velta fyrir sér hvaða þýðingu samkeppnishömlur hafa almennt á verðlagsþróun í landinu. Það hefur komið í ljós þegar verðlag í einstökum greinum hefur verið gefið frjálst þar sem samkeppni er takmörkuð að um er að ræða verðhækkun á stuttu tímabili um marga tugi prósenta. Þetta mætti taka til athugunar og að gefnu tilefni, þar sem þetta frv. er komið fram með tilliti til þess sem fram kemur í greinargerð, væri e.t.v. full ástæða fyrir þá nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, að athuga vel hvernig háttað er verðlagningu og verðmerkingum hjá aðilum sem falla undir ákvæði umræddra laga hvað snertir samkeppnishamlandi fyrirtæki eða jaðra við að falla undir slíka starfsemi.