12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

137. mál, verðlag, samkeppnishömlur og órettmætir viðskiptahættir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég efast ekki um að hv. flm. þessa frv. gangi gott eitt til með flutningi þess, en efni þess er í stuttu máli að seljendum hvers kyns vöru eða þjónustu sé óheimilt að hækka vöruverð eða gjaldtöku fyrir þjónustu nema það sé sérstaklega tilkynnt. Í fljótu bragði virðist manni þessi regla munu hafa þau áhrif, a.m.k. fyrst í stað, að seljendur muni reyna að hafa vaðið fyrir neðan sig. Þess vegna er það íhugunarefni hvort frv. af þessu tagi muni ekki hafa þveröfug áhrif við það sem ætlast er til og einmitt verka til hækkunar á vöruverði fremur en lækkunar.

Hins vegar vil ég taka undir það, sem hv. þm. sagði, að sá stöðugleiki sem nú er í verðlagi og efnahagslífi veldur því mjög fljótt að verðskyn almennings mun glæðast og þannig kemur sjálfkrafa eftirlit með vöruverði inn í verslanir og tíðar auglýsingar Verðlagsstofnunar um verðkannanir, sem fram fara á ýmsum svæðum á landinu, eru líka til þess fallnar að auka það eftirlit sem felst í því að almenningur sé upplýstur um vöruverð á einstökum stöðum.

Við þm. fengum í dag 16. tbl. verðkönnunar Verðlagsstofnunar í okkar bréfhólf og það eru mjög athyglisverðar upplýsingar sem þar koma fram, sem sé þær að á sumum stöðum virðist það geta fest í sessi að álagning almennt sé óeðlilega há, eins og t.d. á Ísafirði. Á öðrum stöðum er vöruverð tiltölulega mjög lágt og það er engin tilviljun að það eru þeir staðir þar sem samkeppni er hörðust og stórmarkaðir hafa komið til sögunnar. Getum við tekið sem dæmi að verðlag á Húsavík er einungis 0,6% hærra en á Akureyri og enginn vafi á því að þessi litli munur á rætur sínar að rekja til þess að nýr stórmarkaður hefur risið þar, Kjarabót, sem veitir kaupfélaginu á staðnum mjög harða samkeppni.

Á hinn bóginn kemur fram að verðlag á Melrakkasléttu, það er svo orðað og mun átt við Kaupfélag Norður-Þingeyinga, var 3,3% hærra en á Húsavík. Verðlag á Þórshöfn var 1% hærra en á Raufarhöfn. Og verðlag á Vopnafirði var 2,4% hærra en á Melrakkasléttu. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar og lýsa tvennu: Í fyrsta lagi því að kaupfélagsverslunin er ekki nú og hefur kannske aldrei verið sú trygging fyrir lágu vöruverði sem helstu talsmenn samvinnufélaganna vilja vera láta og hins vegar sýnir þetta okkur hversu mikill verðmunur er á ýmsum stöðum í strjálbýli borið saman við það sem er á þéttbýlli svæðum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en aðeins lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að efni þessa frv., ef að lögum verður, geti verið tvíeggjað. Ég er ekki jafnsannfærður við fyrstu sýn og hv. flm. og sá sem talaði á undan mér um að svo strangar reglur, sem hér er gert ráð fyrir, muni verka til lækkunar á vöruverði og í öðru lagi hygg ég að mjög erfitt verði að fylgja því eftir að seljendur fari eftir þeim bókstaf sem hér er lagt til að að lögum verði.