15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

13. mál, barnalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa uppi langt mál. Við höfum verið að reyna að koma þessu frv. áleiðis. Mig minnir að upphaflega hafi það verið svo að við vorum með sína tillöguna hvor, síðan ákváðum við að slá tillögum okkar saman, en báðar gengu þær einmitt út á það sem hv. fyrri flm. hefur verið að gera grein fyrir hér.

Ég held að menn geri sér ekki alveg grein fyrir tvennu í þessu máli og það kom berlega fram í allri umfjöllun um málið í hv. allshn. á síðasta þingi. Hér er, og það er mikilvægt, um heimildarákvæði að ræða sem verður að úrskurða um í hvert skipti. Það eru því áreiðanlega fæstir einstæðra foreldra sem leita eftir þessu. En það undarlega er að helst voru það hv. þm. utan Reykjavíkur sem voru andvígir þessu frv. og það á ég erfitt með að skilja. Sannleikurinn er sá að það fólk sem er í verulegum vandræðum að kosta börn sín til náms er fólkið sem býr utan þéttbýlissvæðisins og ég satt að segja undrast endalaust hvað þm. utan Reykjavíkur ræða það sjaldan hver handleggur það er að halda börnum úti fjarri heimilum sínum í námi. Vita hv. þm. t.d. að það kostar núna 150 þús. kr. yfir veturinn að hafa barn í heimavist Menntaskólans á Akureyri? Geta menn svarað mér því hvernig einstætt foreldri fer að því að halda þeirri útgerð úti, ég tala nú ekki um ef börnin skyldu vera fleiri en eitt? Og það er þess vegna sem við erum að þrástaglast á að þessi leiðrétting verði gerð, að þeir sem misst hafa maka sína eða eru orðnir ellilífeyrisþegar eða öryrkjar eigi þann möguleika að fá aðstoð eins og þeir sem eiga fyrrverandi maka eða barnsföður eða -móður á lífi.

Ég held að það sé satt að segja Alþingi til skammar, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á áðan, ef þetta er hér í meðhöndlun í fjórða skiptið í röð án þess að Alþingi treysti sér til að veita þessu máli brautargengi því að hér er sannarlega ekki um stórar fjárhæðir að ræða. En þær eru svo stórar fyrir nokkrar fjölskyldur í landinu að þær geta skipt sköpum um hvort einstaklingur kemst í skóla eða ekki. Og ég held að það sé margyfirlýst í ótal lögum að allir Íslendingar, öll börn á Íslandi, eigi að hafa jafnan rétt til náms. Það er auðvitað fjarstæða að tala um að svo sé þegar það kostar foreldri 150 þús. kr. að eiga barn í heimavist í Menntaskólanum á Akureyri og dreifbýlisstyrkurinn er að mig minnir 13 000 eða 17 000 kr. sem kemur þar á móti.

Ég skora á þm. landsbyggðarinnar að taka sig saman og reyna að skilja um hvað þetta frv. er því að ég hef alltaf haft, öll þessi ár, einhverja tilfinningu fyrir því, að menn gerðu sér ekki grein fyrir um hvað þetta snerist, menn hreinlega skildu það ekki. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu að við erum ekki að biðja um að þessi aðstoð nái til allra. Hér er um heimildarákvæði að ræða. Og ég treysti því nú að hv. þm. landsbyggðarinnar setjist nú niður og skoði hvort virkilega sé ástæða til að láta þetta mál sofna út af einu sinni enn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.