13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í árslok 1985 varð Hafskip hf. gjaldþrota og að hér væri um að ræða eitt mesta gjaldþrot fyrirtækis í sögu íslenska lýðveldisins. Er talið ósennilegt að heildartap ýmissa aðila af gjaldþrotinu verði undir 1 milljarði kr. Þar af áætlar bankaeftirlit Seðlabanka Íslands að einn ríkisbankanna, Útvegsbanki Íslands, muni tapa um það bil 600 millj. kr., en Hafskip hf. var um langt skeið einn helsti viðskiptaaðili bankans.

Það fer ekki hjá því að svo mikið gjaldþrot leiði til margháttaðra rannsókna. Ítarleg rannsókn á gjaldþrotinu hefur farið fram hjá skiptaráðendum og Rannsóknarlögreglu ríkisins. Eru rannsóknargögn nú hjá ríkissaksóknara og er beðið ákvörðunar hans um ákæru. Ég mun ekki fjalla hér um rannsókn þessara aðila heldur rannsókn á grundvelli laga um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Lög þessi voru sett í desember 1985 eða skömmu eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Samkvæmt lögunum var Hæstarétti falið að tilnefna þrjá menn til að kanna viðskipti bankans og skipafélagsins. Í rannsóknarnefnd þessari áttu sæti Jón Þorsteinsson hrl. sem var formaður nefndarinnar, Brynjólfur I. Sigurðsson dósent og Sigurður Tómasson löggiltur endurskoðandi. Nefndinni var falið að hraða störfum sínum og skila skýrslu til viðskrh. sem skyldi síðan gera Alþingi grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.

Nefndin hefur nú lokið störfum og skilaði mér skýrslu sinni s.l. mánudag. Nefndin hefur unnið þetta starf á tiltölulega skömmum tíma og vil ég hér með gera Alþingi grein fyrir niðurstöðum í skýrslu hennar. Ég vil undirstrika að einungis er unnt að gera grein fyrir nokkrum helstu atriðum í skýrslunni, en að öðru leyti vísast til einstakra kafla hennar um nánari skýringar.

Í áðurnefndum lögum um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. nr. 119 frá 1985 var lagt fyrir rannsóknarnefndina að athuga hvort lánafyrirgreiðsla Útvegsbankans til Hafskips hafi verið í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins, eiginfjárstöðu þess og tryggingar fyrir skuldum. Athuganir þessar og niðurstöður liggja fyrir í einstökum köflum skýrslunnar, en niðurstöður hennar eru í stuttu máli þær, eins og segir í skýrslunni, að lánafyrirgreiðslan við Hafskip hafi hvorki verið í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins né eiginfjárstöðu þess og að tryggingum fyrir skuldum hafi verið mjög ábótavant.

Nefndin bætti því við að lánafyrirgreiðslan hafi heldur ekki verið í eðlilegu samræmi við eiginfjárstöðu Útvegsbankans. Nefndin rekur þróun viðskiptanna og segir á bls. 108:

„Meginástæðan fyrir því að viðskiptin fóru svo mjög úr skorðum var tvíþætt. Annars vegar var það mikill aðgæsluskortur af hálfu Útvegsbankans ásamt veilum í ríkisbankakerfinu. Hins vegar var það mikil og vaxandi lánsfjárþörf Hafskips. Félagið jók sífellt umsvifin þrátt fyrir ört versnandi efnahag. Með þessum umsvifum sýndu ráðamenn félagsins óraunsæja bjartsýni, en þeim tókst lengi vel að dylja raunverulega afkomu félagsins með vinnubrögðum sem ekki voru í samræmi við eðlilega viðskiptahætti. Síðustu árin voru þessi viðskipti orðin bankanum ofviða.“

Ég mun víkja nánar að þessum atriðum síðar í ræðu minni.

Með lögunum var nefndinni enn fremur falið að kanna alla viðskiptalega þætti málsins sem henni þættu þurfa athugunar við, þó ekki þau atriði sem unnin væru af opinberum rannsóknaraðilum lögum samkvæmt. Ég mun víkja einnig að þessu síðar.

Að því er varðar aðgæsluskort af hálfu Útvegsbankans og veilur í ríkisbankakerfinu drepur nefndin á nokkur atriði. Á bls. 72 segir þannig:

„Að dómi nefndarinnar er það engum vafa undirorpið að bankastjórar Útvegsbankans bera meginábyrgð á þeim áföllum sem bankinn varð fyrir við gjaldþrot Hafskips, enda þótt bankastjórarnir eigi sér líka nokkrar málsbætur.“

Þá segir á bls. 74:

„Stærsta yfirsjón bankastjóranna var að hafa tryggingar ekki í lagi og á þetta við um allt rannsóknartímabilið þótt síðustu árin ráði úrslitum í því efni. Hlutdeild í þessari yfirsjón verður að skrifa á reikning forstöðumanns lögfræðideildar bankans sem á árunum 1978–1985 fylgdist með tryggingunum og samdi yfirlit yfir stöðu þeirra með tilliti til skuldbindinga félagsins. Mikil verðlækkun kaupskipa eftir 1981 virðist að mestu hafa farið fram hjá bankastjórunum og forstöðumanni lögfræðingadeildarinnar. Það var fyrst í ágúst 1985 að bankinn leitaði eftir sjálfstæðum upplýsingum erlendis frá um markaðsverð skipa.“

Síðar á sömu síðu segir:

„Það er augljóst að bankastjórar Útvegsbankans fylgdust ekki nægjanlega vel með rekstri og fjárhag Hafskips, einkanlega eftir 1981.“

Nefndin greinir frá ítrekuðum erfiðleikum Hafskips í viðskiptum sínum við Útvegsbankann þar sem félagið stóð jafnvel á barmi gjaldþrots, en greinir frá því að bankanum hafi tekist að styðja félagið yfir erfiðustu hjallana, m.a. í kjölfar athugana og viðvarana bankaeftirlitsins. Í skýrslunni er tekið fram að slakað hafi á öllu eftirliti bankans með viðskiptunum við Hafskip eftir árið 1980, sbr. bls. 46 í nál. Segir að bankinn hafi ekki fylgst með fjárhag Hafskips á þann hátt að unnt hefði verið að gera ráðstafanir í tæka tíð til að tryggja hagsmuni hans, eins og segir á bls. 26, og á bls. 73 í skýrslunni eru helstu mistök bankastjóranna í viðskiptum við skipafélagið rakin lið fyrir lið, en þau eru orðrétt talin:

„1. Að gæta þess ekki að hafa nægar tryggingar fyrir skuldbindingum Hafskips.

2. Að fylgjast ekki nægjanlega vel með rekstri og fjárhag Hafskips, einkum eftir 1981.

3. Að gera ekki ráðstafanir til að knýja fram gjaldþrot eða sölu á eignum fyrirtækisins löngu fyrr en raun varð á.

4. Að gjalda ekki varhug við Atlantshafssiglingunum sem hófust haustið 1984.“

Síðan segir að þessi mistök ásamt alvarlegum mistökum og óhöppum í rekstri Hafskips hafi runnið saman í einn óheillafarveg. Nefndin telur að eðlilegt hefði verið að nýkjörið bankaráð sem tók til starfa í ársbyrjun 1986, hefði vikið öllum bankastjórum Útvegsbankans úr starfi um stundarsakir meðan rannsóknaaðilar væru að störfum.

Í þessu sambandi var m.a. tekið fram að miklar líkur hefðu þegar í upphafi bent til aðgæsluskorts og mistaka af hálfu bankastjórnarinnar. Bankaráðsmenn lýstu því þó yfir við nefndina að af þeirra hálfu hefði ekki komið til álita að víkja bankastjórunum frá um stundarsakir. Bankinn hefði ekki mátt við því að missa af reynslu þeirra og þekkingu á málefnum bankans., sbr. bls. 70. Eflaust hafa aðrar ástæður einnig haft einhver áhrif, t.d. það að verðlækkanir á skipum virtust hafa verið óvenjumiklar undir hið síðasta, en slíkar verðlækkanir gerðu veð bankans í þeim mun minna virði en áætlað hafði verið.

Því má bæta hér við til fróðleiks að verðlækkanir og jafnvel verðhrun á skipum átti sinn þátt í því að a.m.k. tvö stór norsk skipafélög, Augustsson og Rigsten, urðu gjaldþrota og fengu jafnvel heimsþekktir bankar, eins og City Bank og Hambrosbanki, talsvert mikla skelli þótt þessir bankar hafi mikla reynslu af alþjóðaviðskiptum og hafi miklu sérfræðingaliði á að skipa. Nefndin telur að bankaráð Útvegsbankans hafi einkum látið tvennt undir höfuð leggjast og vitna ég þá í bls. 66:

„1. Að marka almenna útlánastefnu fyrir bankann. M.a. þurfti að kveða á um hámark útlána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna með hliðsjón af stöðu bankans á hverjum tíma.

2. Að fylgjast vel með stærstu lánþegum bankans, skuldbindingum þeirra og tryggingum.“

Á bls. 67 kemur fram að samkvæmt fundargerðabók hafi málefni Hafskips aldrei verið rædd í bankaráðinu frá því í nóvember 1977 þar til í mars 1985. Það vakti eftirtekt nefndarinnar að bankaeftirlitið, sem hafði haft margháttuð afskipti af stöðu Hafskips gagnvart Útvegsbankanum, hafði engin afskipti af viðskiptum bankans og félagsins á tímabilinu frá mars 1980 til júlí 1985. Ef bankaeftirlitið hefði látið til skarar skríða haustið 1984 taldi nefndin að slíkt hefði að öllum líkindum getað orðið til þess að draga úr þeim áföllum er síðar komu fram eins og ljóst er ef við lesum álitið á bls. 83. Var bankaeftirlitið gagnrýnt fyrir að hafa ekki skoðað skuldastöðu Hafskips við Útvegsbankann á þessu fimm ára tímabili þótt tekið væri fram að bankaeftirlitið hefði þegar á heildina væri litið sýnt bæði skarpskyggni og vandvirkni í þeim athugunum sem það hefði áður gert og hvað eftir annað varað sérstaklega við þróun mála í samskiptum aðilanna.

Eins og ég sagði fyrr vék nefndin að óraunsærri bjartsýni ráðamanna Hafskips er þeir juku sífellt umsvifin þrátt fyrir ört versnandi efnahag. Helstu orsakir gjaldþrotsins voru raktar til langvarandi tapreksturs félagsins, missis varnarliðsflutninganna vorið 1984 og Atlantshafssiglinganna sem hófust haustið 1984. Eflaust hafa þessir menn einhverjar málsbætur, enda verður ekki séð fyrir öllu í áhætturekstri, til dæmis missi varnarliðsflutninganna auk óvenjumikilla og snöggra verðlækkana á skipum.

Eins og áður sagði greindi nefndin frá því í niðurstöðum sínum að ráðamönnum félagsins hefði tekist lengi vel að dylja raunverulega afkomu félagsins með vinnubrögðum sem voru ekki í samræmi við eðlilega viðskiptahætti. Nánar segir frá því á bls. 49 í skýrslu nefndarinnar að niðurstaða endurreiknings og samanburðar á hennar vegum sé sú að reiknaðar tekjur vegna verðlagsbreytinga samkvæmt ársreikningum Hafskips séu ekki í samræmi við viðurkenndar reikningsskilavenjur og rekstrarreikningar hafi gefið verulega ranga mynd af rekstrarafkomu félagsins á árunum 1982 og 1983. Í reynd hafi verið um taprekstur að ræða þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður samkvæmt framlögðum rekstrarreikningum félagsins.

Á bls. 53 segir um sama atriði að ársreikningagerð árin 1982 og 1983 hafi verið ábótavant. Ónákvæm aðferð við útreikning á reiknuðum tekjum vegna verðbreytinga hafi gefið notanda ársreikninga félagsins 1982 og 1983 allt aðra mynd af rekstrarafkomu félagsins en hún var í raun. Þrátt fyrir ágalla hafi þó mátt lesa um hættumerki í skýringum og öðrum upplýsingum sem í ársreikningunum voru.

Jafnframt segir að í skýrslunni hafi áður verið lýst að bankinn hafi ekki látið framkvæma neina úttekt eða skoðun á ársreikningum félagsins árin 1981–1983. Af þeim sökum m.a. hafi ráðamenn bankans aldrei gert sér grein fyrir raunverulegri stöðu félagsins. Jafnvel þótt tekjufærsla vegna verðlagsbreytinga hafi verið misreiknuð og rekstrarreikningar áranna 1982 og 1983 þannig sýnt þóknanlegri niðurstöðu átti sú niðurstaða ekki að afvegaleiða notanda þegar öll önnur atriði voru tekin inn í myndina, hvort sem þau voru sérstaklega skýrð í ársreikningunum eða ekki. Þá segir á bls. 75 að fjárhagsstaðan í árslok 1983, sem öllum virtist ókunn þá, hafi í raun falið í sér gjaldþrot.

Að því er varðar önnur rannsóknarefni vil ég nefna að á sínum tíma var Albert Guðmundsson núv. iðnrh. sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína sem formaður bankaráðs Útvegsbankans til að greiða fyrir viðskiptum Hafskips hf. við bankann. Albert var um tíma nokkrum árum fyrir gjaldþrotið samtímis stjórnarformaður Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans, nánar tiltekið á tímabilinu frá janúar 1981 til júní 1983. 1 skýrslu nefndarinnar segir m.a. á bls. 96:

„Þegar litið er til lánveitinga Útvegsbankans til Hafskips verður ekki séð að fyrirgreiðsla bankans við félagið aukist miðað við starfsumfang þess á bankaráðsárum Alberts Guðmundssonar. Á þessum árum var hins vegar slakað á hagsmunagæslu bankans, t.d. kröfum um raungildi veða.“

Á sömu síðu segir:

„Ekkert hefur komið á daginn sem bendir til þess að Albert Guðmundsson hafi beitt áhrifum sínum í Útvegsbankanum til hagsbóta fyrir Hafskip. Bankastjórarnir, sem á umræddu tímabili störfuðu í Útvegsbankanum, hafa allir lýst því yfir að Albert Guðmundsson hafi aldrei farið þess á leit við þá að þeir veittu félaginu fyrirgreiðslu.“

Þá segir á bls. 97:

„Á hitt ber að líta að staða Alberts Guðmundssonar sem bankaráðsformanns og stjórnarformanns var almennt til þess fallin að styrkja stöðu Hafskips hjá Útvegsbankanum með óbeinum áhrifum án þess að hann, sem þar að auki var áhrifamikill maður í þjóðfélaginu, þyrfti að beita sér persónulega.“

Eins og áður segir slaknaði ekki aðeins á eftirliti bankans með skipafélaginu eftir 1980 heldur og eftirliti af hálfu bankaeftirlitsins. E.t.v. hefur hin ranga mynd sem ársreikningar fyrirtækisins fyrir árið 1982 og 1983 gáfu leitt til meira andvaraleysis en ella hefði orðið.

Það er of snemmt að draga nú þegar endanlegar ályktanir af öllu því sem snertir Hafskipsmálið og skýrslu rannsóknarnefndarinnar, en menn hljóta að velta vöngum yfir ýmsu og ég vil drepa á nokkur atriði. Ein mikilvægasta spurningin sem hugleiða þarf er hvort ástæða sé til að setja í lög hér á landi ákvæði um hámark lánveitinga innlánsstofnana til einstakra fyrirtækja eins og gert er samkvæmt upplýsingum nefndarinnar í flestum nágrannalandanna. Þannig er miðað við 35% af eigin fé í Danmörku, 50% í undantekningartilfellum. Einhverjir erfiðleikar kunna að vera á orðalagi slíkra ákvæða hér á landi vegna sérstakra aðstæðna, t.d. stærðar fyrirtækja í litlum byggðarlögum, en hugsanlega mætti leysa úr því með eðlilegum undanþágumöguleikum í lögunum. Að vísu eru til lagaákvæði sem hníga í þessa átt hér á landi. Í 15. gr. nýju laganna um Seðlabanka Íslands, þar sem vikið er að hlutverki bankaeftirlitsins, segir að bankaeftirlitið skuli fylgjast með því að útlán og aðrar skuldbindingar viðskiptaaðila við innlánsstofnun séu í samræmi við þá áhættu sem í viðskiptunum felst með hliðsjón af greiðslutryggingu, fjárhagslegum styrkleika innlánsstofnunar og eigin fé stofnunarinnar. Engin prósentutala er nefnd í þeirri grein, en menn þurfa að hugleiða hvort nokkuð minna dugi en skýr viðmiðun. Engin prósentutala er heldur í 21. gr. laga um viðskiptabanka og 24. gr. laga um sparisjóði sem kveða á um að bankaráð eða sparisjóðsstjórnir setji almennar reglur um lánveitingar sem senda skuli bankaeftirlitinu.

Í grg. með frumvörpunum til laganna er m.a. vikið að því að unnt væri á þessum grundvelli að leggja bann við lánum til einstakra viðskiptaaðila umfram tiltekið hlutfall af eigin fé banka eða sparisjóða. Ég endurtek að engin prósentutala er nefnd í þessum tilteknu lagaákvæðum. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að slíkar hugmyndir hafi ekki fundið náð fyrir augum þeirrar nefndar sem samdi frv. til l. um viðskiptabanka. Gjaldþrot Hafskips kom hins vegar til eftir að nefndin starfaði og verður að vega og meta hvort slíkt eigi ekki að hafa einhver áhrif. Nefndin sagði að slíkt ákvæði gæti hvatt til sameiningar banka. Ákvæðið gæti einnig leitt til þess að stór fyrirtæki yrðu að leita til fleiri en einnar bankastofnunar. Áhættunni yrði þannig dreift. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að bankaslys sem þetta endurtaki sig í íslenskum innlánsstofnunum.

Það er athyglisvert að bankaráð Útvegsbanka Íslands tók samkvæmt fundargerðabók ekki fyrir málefni Hafskips sem viðskiptavinar bankans um fjölmargra ára skeið frá því í nóvember 1977 þar til í mars 1985. Hér hljóta menn að hugleiða hvort ekki væri til bóta að setja lög um viðskiptabanka, ákvæði um sérstaka skyldu bankaráða til að fjalla um stöðu helstu viðskiptavina bankanna gagnvart viðkomandi bönkum. Svipað ákvæði kæmi þá væntanlega líka til álita varðandi sparisjóðina.

Eins og ég vék að tók nefndin til meðferðar hugsanlegan hagsmunaárekstur, þ.e. formaður bankaráðs Útvegsbankans var um skeið stjórnarformaður Hafskips nokkrum árum áður en til gjaldþrots kom eins og ég sagði áðan. Ekki var sýnt fram á að tjón hefði hlotist af í tilviki því sem hér um ræðir. Bent var á að þetta væri ekkert einsdæmi. Komið hefði fyrir að fyrirsvarsmenn mestu skuldunautanna hefðu átt sæti í bankaráðum ríkisbankanna. Þessi spurning er þó víðtækari en svo að hún sé bundin við starfsemi innlánsstofnana.

Hugleiða má út frá almennum sjónarmiðum hvort setja ætti í lög að menn gætu t.d. ekki samtímis verið formenn bankaráða og stjórna sparisjóða og formenn í stjórnum stærstu viðskiptavina þessara innlánsstofnana. Má jafnvel halda því fram að öruggara sýnist að hafa lagaákvæði um þessi atriði en styðjast við frjálsar ákvarðanir hverju sinni. Þá kemur til athugunar að setja skýrari ákvæði í lög til að tryggja betur að innra eftirlit banka eða annarra innlánsstofnana með helstu viðskiptavinum sé raunhæft. Slíkt kostar auðvitað aukið fé og fyrirhöfn, en ekki virðist vanþörf á því þegar litið er til þess hversu stórir skellir geta ella hlotist af.

Hér er m.a. átt við eftirlit með rekstri stærstu viðskiptavina innlánsstofnana, t.d. þegar viðkomandi fyrirtæki leggja út í áhættusamari tegund rekstrar en áður, sbr. Atlantshafssiglingar Hafskips svo að ég nefni eitt dæmi. Þá þarf að leggja í meiri vinnu þannig að tryggingar séu í sem bestu lagi og sjá verður í því sambandi til þess að of miklum margháttuðum skyldum sé ekki hlaðið á einstaka starfsmenn eins og ég hef grun um að hafi gerst í þessu tilfelli.

Með tilliti til þess að fram kom í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að bankaeftirlitið hefði ekki um nokkurra ára skeið gert neina sérstaka könnun á stöðu Hafskips gagnvart Útvegsbankanum kemur til álita að skerpa þurfi ákvæði í lögum um Seðlabanka Íslands þannig að bankaeftirlitið leggi sérstaka áherslu á að athuga stöðu stærstu viðskiptavina a.m.k. gagnvart helstu innlánsstofnunum.

Ég vek athygli á því að ég sagði í samtali við fréttamenn í gærkvöld að ég væri andvígur þeirri skoðun nefndarinnar að það hefði átt að víkja núverandi bankastjórum Útvegsbankans frá starfi. Það hefur ekkert komið fram sem hefur sannað að það hafi átt að víkja þeim frá starfi. Ég vil líka minna á að nefndin fer nokkuð út fyrir sitt starfssvið þegar hún tekur sig til að dæma Alþingi fyrir kjör á mönnum í bankaráð Útvegsbankans, en það kjör fór fram ef ég man rétt 21. des. 1985.

Við það kjör verður aðeins ein breyting á bankaráðinu. Þrír stjórnmálaflokkar velja sömu menn í bankaráðin og voru áður. Aðeins einn flokkur breytir um mann, tekur mann sem var í bankaráði Landsbankans og færir hann yfir í Útvegsbankann en bankarnir eru við sömu götu. Ég held að þessi breyting hafi verið afar lítil og í raun og veru sá Alþingi ekki ástæðu til að skipta um menn í bankaráðum með þessum hætti nema að þessu eina leyti og hví átti þá að veita mönnum lausn sem voru ekki nema lítinn hluta af því tímabili sem þessi rannsókn og aðfinnslur ná yfir? Ég tel að það eigi engan mann að dæma fyrir fram. Það verði að bíða eftir dómsvaldinu í þeim efnum. Það á heldur engan að sýkna fyrir fram. Og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar eru þessi mál í höndum dómsvaldsins, í höndum skiptaráðanda, hafa verið hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins að hluta til og eru nú hjá ríkissaksóknara. Hann tekur ákvörðun um hvort eigi að ákæra einhverja tiltekna aðila eða ekki og þá verður það mál tekið fyrir hjá réttum aðilum. Þess vegna verðum við að bíða eftir þeirri niðurstöðu.

Í þessari ræðu minni hef ég ekki fjallað um endurskipulagningu bankakerfisins og lausn á fjárhagsvanda Útvegsbankans. Það er annað mál. Fyrstu tillögum var dreift til þm. í gær. En það er mál sem er orðið mjög aðkallandi og þarf að fara að nást samkomulag um. En það eru flókin mál og erfið sem gæti tekið langan tíma að ræða hér. Ég hygg að það sé skynsamlegra að ræða þau mál bæði á milli flokka og á milli þm., hvaða leið er markvissast að fara til að sjá að mikilvægar breytingar geti þar átt sér stað.

Út af þeim hugleiðingum, sem ég hef komið fram með um nauðsyn þess að breyta lögum eða setja skýrari ákvæði, bæði viðskiptabankalög og seðlabankalög, þá hef ég ekki endanlega tekið ákvörðun um en mér þætti mjög líklegt að ég hallaðist að þeirri skoðun að það væri nauðsynlegt að skipa nefnd, sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna hér á þingi ættu aðild að, til þess að fjalla um það atriði en það væri ekki eingöngu á vegum ríkisstjórnarinnar, því hér er um mjög stórt og mikið mál að ræða sem ég held að sé fengur að að fulltrúar allra flokka eigi kost á að fjalla um.