13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að ég tel að sú hugmynd, sem hæstv. viðskrh. nefndi hér í lok máls síns áðan, að skipa nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem fulltrúa eiga á Alþingi til að fara yfir þessi bankamál, m.a. skipulagsmál bankanna, sé skynsamleg, sérstaklega ef takast á að leysa úr þessum vandamálum nú í vetur, sem er brýnt að verði. Það má að mínu mati ekki dragast stundinni lengur að tekið verði á þeim vandamálum sem við erum hér aðeins að fjalla um í dag í tengslum við Útvegsbanka Íslands. En það er alveg ljóst af þeirri skýrslu sem við höfum fyrir framan okkur um Útvegsbanka Íslands að hér getur verið um að ræða vandamál sem snerta alla banka í landinu, ekki bara ríkisbanka heldur líka einkabanka. Það getur verið um það að ræða í öðrum bönkum að hlutir séu ekki nægilega vel tryggðir, að veð séu ekki nægilega glöggt metin, að upplýsingar séu ekki yfirfarnar með nægilegri gagnrýni í huga. Mér sýnist að þetta Útvegsbankamál og þessi skýrsla setji bankamálin í heild á dagskrá Alþingis og stjórnmálaflokkanna.

Ég vil að öðru leyti segja það um skýrsluna að hún er allskýr. Hún er skrifuð á mannamáli, sem er ekki mjög algengt með opinberar skýrslur. Og það er ástæða til að þakka það sérstaklega þegar slíkt gerist. Textinn er skýr og aðgengilegur og nokkuð glöggt hvað nefndin er að fara með þeim texta sem lagður hefur verið fyrir okkur.

Efnisatriði skýrslunnar eru sum ógnvekjandi, að ekki sé meira sagt. Sumt er þannig í þessari skýrslu að ástæða er til að gera við það athugasemdir og hreyfa alvarlegri gagnrýni. M.a. tel ég að það hafi ekki verið hlutverk nefndarinnar að fjalla um þátt Alþingis sérstaklega, eins og hún gerir í þessari skýrslu, en að öðru leyti er skýrslan glögg og nauðsynlegt gagn til að hafa við hendina þegar við ræðum þessi mál á komandi mánuðum.

Ég vil hins vegar taka undir það, sem kom hér fram hjá hæstv. viðskrh., að það er hætt við því að þetta sé aðeins fyrsta vers, fleira eigi eftir að koma fram úr samskiptum Útvegsbankans og Hafskips á komandi mánuðum sem skýri myndina enn þá frekar, og þess vegna sé ekki ástæða til þess að líta svo á að með þessari skýrslu sé þetta vandamál tæmt, heldur þvert á móti að við höfum með þessari skýrslu séð aðeins í upphaf málsins.

Ég vil í tilefni af orðum viðskrh. einnig minna á það að hann gat um að gera þyrfti breytingar á bankalögum. Það er athyglisvert að ráðherrann skuli flytja þær hugmyndir núna vegna þess að hann tók þátt í því vorið 1985 að fella brtt. við viðskiptabankalögin, brtt. sem ég flutti, þar sem gert var ráð fyrir heimild til ráðherra til að setja reglur um hámark lánveitinga til einstakra viðskiptamanna bankanna. Í tillögu minni var gert ráð fyrir því að bankaeftirlitið gerði tillögur til ráðherra um þessa takmörkun og eins og ég sagði áðan þá var þessi tillaga felld. Ég held að það hafi verið mikil mistök að fella þessa tillögu. Ég held að það væru líka mikil mistök að setja inn í bankalögin fastbundna prósentu í þessu efni. Ég held að það væri mikið skynsamlegra að um væri að ræða reglugerðarheimild handa ráðherra. Ég tel að þessar prósentuviðmiðanir gætu jafnvel verið mismunandi eftir bönkum og aðstæðum þeirra. Í þeim efnum þyrfti kannske að setja strangari reglur um veika eiginfjárstöðu banka eins og Útvegsbankans, heldur en t.d. er um að ræða í Búnaðarbankanum eða Landsbankanum. Ég held að það hafi verið mikil mistök að fella þessa tillögu, en ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir efni hennar og opnar fyrir það að slík breyting verði samþykkt og gerð að lögum í vetur. Þá vil ég einnig minna á till. sem ég flutti á þinginu vorið 1985, sem var á þessa leið:

„Bankarnir skulu birta opinberlega lista yfir öll útlán sem veitt hafa verið sama aðila á liðnu ári er nema hærri fjárhæð en 20 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára, ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir sem skulda við áramót meira en 40 millj. í viðkomandi stofnun.“

Ég tel að birting slíkra upplýsinga mundi vekja umræðu reglulega um stöðu bankanna gagnvart einstökum skuldurum og viðskiptamönnum bankanna, umræðu sem yrði með þeim hætti að útilokað væri fyrir bankastjóra að koma eftir á og segja: Þetta eru hlutir sem við vissum ekki um. Vegna þess að umræða mundi opna málið og leiða til þess að menn yrðu dæmdir til að taka á málinu.

Þegar Alþingi fjallaði um þetta mál fyrir réttu einu ári þá fluttum við Alþýðubandalagsmenn tillögur um það að Alþingi fengi að fylgjast með þessari rannsókn. Því miður voru þær tillögur felldar. Alþingi mátti ekki koma nálægt málinu fyrr en skýrslan væri tilbúin. Nú liggur hún hér fyrir.

Það voru fjögur atriði eða kannske fimm sem nefndinni var falið að fjalla um.

Í fyrsta lagi var hlutverk hennar að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka og Hafskips hf. á undanförnum árum. Svar nefndarinnar er: Já. Það hefur verið um að ræða óeðlilega viðskiptahætti.

Í öðru lagi átti nefndin að fjalla um það hvort um óeðlilega viðskiptahætti hefði verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. eða í viðskiptum Hafskips við aðra aðila. Ég tel að þetta sé einn veikasti þáttur skýrslunnar, hvað skýrslan tekur lítið á viðskiptum Hafskips við aðra aðila en Reykvíska endurtryggingu og Íslenska skipafélagið, sem svo var kallað, sem ég kem hér aðeins að á eftir. Ég tel að þarna hefði nefndin þurft að fara mikið rækilegar ofan í saumana á fyrirtækjatengslum Hafskips vegna þess að það er vitað að fjöldi fyrirtækja tengdist Hafskip með ýmsum hætti, m.a. þeim að forráðamenn margra stórfyrirtækja áttu aðild að Hafskipi sem hluthafar eða jafnvel sem stjórnarmenn.

Síðan segir: Nefndin á að athuga hvort lánafyrirgreiðsla Útvegsbankans til fyrirtækisins hafi verið í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins. Nefndin svarar: Nei. Lánafyrirgreiðslan var of mikil miðað við starfsumfang fyrirtækisins.

Nefndin átti líka að kanna hvort lánafyrirgreiðslan hefði verið í samræmi við eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Svar nefndarinnar er: Nei. Fyrirgreiðslan var of mikil miðað við eiginfjárstöðu fyrirtækisins.

Og það er líka spurt: Var fyrirgreiðslan eðlileg miðað við þær tryggingar sem lagðar voru fram fyrir skuldum? Svar nefndarinnar er: Nei.

Hér er sem sagt um að ræða, að mínu mati, mjög afdráttarlausa niðurstöðu í þessum efnum af hálfu nefndarinnar.

En hvernig stendur á því að þetta gerist? Hvað er það sem hefur gerst? Eru það bankastjórar, eru það bankaráðsmenn, eru það forstöðumenn hagdeilda, lögfræðideilda, Seðlabankans, bankaeftirlitsins, eða hvað? Hverjir eru það sem hérna bera ábyrgð? Og hvernig stendur á því að þessi ósköp gerast? Svar við þeirri spurningu er að finna á bls. 44 í skýrslunni. Þar er birtur orðréttur kafli í skýrslu forstöðumanns hagdeildar Útvegsbankans sem hann sendi bankastjórn um úttekt á félaginu 1. apríl — en á þeim dögum gerist ýmislegt eins og menn vita — 1981. Orðrétt segir í þessari skýrslu:

Í fyrsta lagi. „Stuðningur Útvegsbankans við Hafskip kemur í veg fyrir einokun og stuðlar að heilbrigðri samkeppni ...“ Með öðrum orðum, það var litið svo á af Útvegsbankanum, eða a.m.k. ákveðnum aðilum þar, að það væri nauðsynlegt að taka áhættu fyrir hönd bankans til þess að halda uppi því sem kallað hefur verið „heilbrigð samkeppni“, m.ö.o. pólitískt markmið sem þarna er sett, burtséð frá í rauninni afkomu bankans.

Í öðru lagi segir: „Forsvarsmenn fyrirtækisins eru duglegir og hæfir stjórnendur sem hafa sterkt afl á bak við sig.“ Hvaða sterka afl er það sem forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu á bak við sig? Hið sterka afl er Sjálfstæðisflokkurinn. Forráðamenn Sjálfstfl., ráðherrar Sjálfstfl., bankaráðsmenn Sjálfstfl., bankastjórar Sjálfstfl. og fjölmiðlar Sjálfstfl. eins og DV, svo dæmi sé tekið. Með öðrum orðum: Þegar verið var að lána Hafskipi hf. þá var ekki bara spurt um veð og tryggingar eignanna lausafjármuna, skipa, aðstöðu. A bak við allt var hið pólitíska veð. Hið pólitíska veð í hinu sterka afli sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Það er hins vegar ástæða til að benda á það til viðbótar í þessu efni að Hafskip og Útvegsbankinn hafa orðið pólitískt bitbein innanflokksátaka í Sjálfstfl. vegna þess að á milli Hafskipsmanna og Eimskipafélagsmanna lágu línur, átakalínur innan Sjálfstfl. um margra ára skeið. Útvegsbankinn og Hafskip líka guldu fyrir þetta pólitíska innanflokksstríð sem stóð yfir í Sjálfstfl. um margra ára skeið.

Þriðja skýring hagdeildarinnar 1981, og ég endurtek að þetta var skrifað 1. apríl það ár, um viðskiptin er þessi: „Ekki er beinlínis um áhættusaman atvinnurekstur að ræða.“ Þetta var stefnan.

Og í fjórða lagi: „Vel er fylgst með rekstrinum og ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir bankann að grípa í taumana ef hætta er á ferðum.“ Þetta var síðasta orðið sem kom frá hagdeild bankans, samkvæmt þessari skýrslu, frá 1981 til 1985. Á tímabilinu þar á milli er samkvæmt þessari skýrslu ekki um það að ræða að hagdeildin hafi lagt mat á hlutina.

Ég vil í tilefni af þessu sérstaklega spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann kannað þetta atriði? Getur það verið að hagdeildin hafi ekki verið spurð um stöðu þessa fyrirtækis í fjögur ár? Það er með ólíkindum. Það er blátt áfram ótrúlegt að svo hafi verið. Skýringin á þessum slappleika og mistökum, sem þarna er um að ræða, liggur m.ö.o. í hinu sterka afli, hinu sterka pólitíska afli. Það er þess vegna rangt sem segir í skýrslunni að það sé hið pólitíska kerfi, hið pólitíska eftirlitskerfi bankanna sem þarna beri sök fyrst og fremst í þessu efni. Niðurstaðan er sú að það er hin flokkspólitíska einokun Sjálfstfl. á þessu máli, öllum endum þess, sem ræður úrslitum og ber að skoða sérstaklega.

Það er ekki viðeigandi, herra forseti, að ég fari í þessari ræðu minni núna að setja á mjög langar umræður um einstök atriði í skýrslunni vegna þess að hér þurfa fulltrúar fleiri þingflokka að komast að. Það hefði verið freistandi að fara hér yfir fyrirtækjatengsl Hafskips við fyrirtæki eins og Frjálsa fjölmiðlun, við fyrirtæki eins og Íslenska skipafélagið, við fyrirtæki eins og Arnarflug, sem var veitt syndakvittun hér á s.l. vori með sérstakri ríkisábyrgð. Það væri fróðlegt að rifja hér upp upplýsingar sem komu fram í fyrra um sukkið í rekstri þessa fyrirtækis, m.a. í ræðum sem voru fluttar þá úr þessum stól af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, svimandi há laun forráðamanna þessa fyrirtækis, lúxuslifnað á kostnað fyrirtækisins, bæði hérlendis og erlendis, en tíminn leyfir ekki að farið verði út í það hér.

Hitt verð ég aðeins að nefna að í skýrslunni er þáttur sem heitir Alberts þáttur Guðmundssonar, og þar er átt við hæstv. iðnrh., minnir á kaflafyrirsagnir í Íslendingasögum um Sneglu-Halla þátt og fleiri góða þætti. Þar er Alþingi gagnrýnt sérstaklega fyrir það að hafa kosið hæstv. iðnrh. í bankaráð Útvegsbankans. Og síðan er það gagnrýnt sérstaklega að viðskrh. skuli hafa hnykkt á þeirri andvaralausu kosningu með því að skipa þann mann. Nú er það svo á vissum fréttamiðlum hér í landinu að í hvert sinn sem þeir heyra góðs manns getið og gott verk unnið þá telja þeir jafnan að ég hafi unnið það verk. Þess vegna var mér á ákveðinni sjónvarpsstöð hér eignað það verk að hafa skipað Albert Guðmundsson formann bankaráðs Útvegsbankans. En svona til að hafa hlutina rétta í sögulegu samhengi þá var það nú ekki, heldur var það maður sem heitir Tómas Arnason, og situr nú í Seðlabanka, hefur forframast í peningakerfinu. Auðvitað er það þannig að Alþingi ber þarna ábyrgð. Sá flokkur sem tilnefnir viðkomandi mann ber þarna ábyrgð. Ráðherrann og ríkisstjórnin bera þarna ábyrgð. Það er engu að síður útilokað að sakfella á grundvelli þessara plagga einn eða neinn, eins og þau liggja hér fyrir, það er verkefni annarra að kveða upp dóma. En það segir í skýrslunni þó fullum fetum: Málið var aldrei lagt fyrir bankaráðið frá 1981 fyrr en allt var komið í óefni — á bls. 95 í þessu plaggi. Af hverju skyldi það vera? Getur verið að það hafi stafað af því að bankastjórarnir hafi viljað sýna hæstv. iðnrh., sem þá sat í bankaráðinu, þá tillitsemi að taka ekki upp í bankaráðinu verkefni og vanda þess stóra fyrirtækis sem hann á sama tíma veitti forstöðu? Ég orða þetta svona til að undirstrika að það að fulltrúi þessa stóra fyrirtækis er þarna inni, það veikir í raun bankastjórana í þessu efni. Þess vegna er baktryggingin í hinu sterka afli í rauninni engin trygging, og hún veikir bankana á þessum tíma, þegar allt kemur til alls. Því nefndin segir meira. Hún segir hvorki meira né minna en þetta: „Á þessum árum var hins vegar“ eins og það sé eitthvert minna mál — „slakað á hagsmunagæslu bankans [gagnvart félaginu].“ Og það eru aldeilis upplýsingar um það sem birtast okkur hér í þessari skýrslu á mörgum síðum hennar. Ég kem hér á eftir aðeins nánar að hlutverki bankans, bankaeftirlitsins, bankastjóra og bankaráða. En ég get ekki sagt að mér finnist þessi kafli, um Alberts þátt Guðmundssonar, sterkasti hluti skýrslunnar.

Í plagginu er rakinn vandi Hafskips, af hverju hann stafar. Þar kemur fram að menn telja að hermangstekjur fyrirtækisins hafi verið verulegur þáttur í tekjum þess af Íslandssiglingum, eins og það er orðað. Það er talað um að það hafi verið 30–35% af tekjum af flutningum fyrir herinn yfirleitt. Síðan segir um forráðamenn Hafskips, þegar menn velta því fyrir sér: Af hverju hættu þeir ekki þessum hernámsflutningum, af hverju hættu þeir ekki?“ Og því er svarað, þar kemur enn sterka aflið inn í: „Þeir treystu á mátt stjórnvalda til þess að endurheimta þessa flutninga skjótlega og héldu því uppi kostnaðarsömum áætlunarferðum til Bandaríkjanna næstu mánuðina. Þegar sú von brást var tapið orðið mikið.“ Með öðrum orðum, enn og aftur komum við að því að það er hið pólitíska mat forráðamannanna og hinar pólitísku tryggingar sem þeir ætlast til að dugi fyrirtækinu og tengslum þess við Útvegsbankann í þessu máli.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara hér ítarlega yfir þær hroðalegu lýsingar sem eru í skýrslunni á tryggingatöku hjá fyrirtækinu á undanförnum árum. Tryggingarvíxill upp á nærri milljón þýsk mörk, metinn ónýtur 1978, liggur sem fullgild trygging enn þá 1985 þegar bankaeftirlitið fer aftur að sinna málinu. Tryggingargildi skipanna í eigu Hafskips er ekki lækkað a þeim tímum þegar skipaverð fer hraðlækkandi, það er hækkað. Það er hækkað úr 70% upp í 85% af markaðsverði skipanna. Og það kemur fram í skýrslunni að veð eru tvítekin, upp á hálfa milljón dollara er það tiltekið í einu tilviki að veð eru tvínotuð. Ja, þvílíkt og annað eins! Og þó lá þetta fyrir í veðbókarskjölum sem lögfræðingar og aðrir aðilar í bankanum höfðu átt að hafa aðgang að. Athugasemdin er þinglýst, að þetta veð hafi verið tekið annars staðar. Þetta sjá menn, en samt er haldið áfram. Og það kemur fram að á heilum 14 mánuðum, það er fullyrt í þessari skýrslu að á heilum 14 mánuðum hafi aldrei sést hjá bankastjórum yfirlitsblöð um tryggingar fyrirtækisins, en venjulega eru slík yfirlitsblöð framleidd í hagdeildum mánaðarlega eða svo þegar um stærri viðskiptaaðila er að ræða. Það kemur líka fram að upplýsingar um veðmat skipanna koma bara frá Hafskip og eru aldrei sannreyndar í bankanum, fyrr en á árinu 1985.

Ég sagði það hér áðan, herra forseti, að þessi skýrsla gæfi tilefni til að athuga fleiri banka. Ég vil endurtaka það í tilefni af þessu. Ætli þetta sé svona víðar? Ætli það geti verið að ríkisbankarnir, eða bankar hér yfirleitt, taki bara við upplýsingum frá fyrirtækjunum sem góðri og gildri vöru og athugi ekki málið? Getur það verið? Mér finnst þetta mál setja í raun og veru ekki bara Hafskip og Útvegsbankann hér á dagskrá, heldur bankakerfið yfirleitt.

Það er makalaust líka að sjá það, sem kemur fram á bls. 53 og 58, 48 og 50 í skýrslunni, að það er ekki notuð sama vísitala til að mæla hækkun fastafjármuna annars vegar og verðbreytinga í rekstri hins vegar. Það er ekki notuð sama vísitalan, heldur mismunandi vísitölur við framreikning á niðurstöðum. Þetta er þó svo einfalt mál að hver sæmilega þjálfaður maður ætti að geta séð þessa hluti. Svo segir stjórnarformaður Hafskips á árinu 1982, með leyfi forseta, samkvæmt skýrslunni: „Ég leyfi mér fyrir hönd félagsins að lýsa því afdráttarlaust yfir að endurreisn Hafskips hf. hefur tekist.“

Um afskipti stjórnvalda af þessu máli er farið nokkrum orðum í skýrslunni, t.d. um afskipti viðskrh. á bls. 64 og 65, um bankaráðið á bls. 66, og það er fundið að því að Alþingi skuli ekki hafa viljað sinna þessum málum betur, m.a. sérstaklega með því að skipta um menn í bankaráðum, bankaráði Útvegsbankans. Niðurstaðan í þessu máli, að Útvegsbankinn væri í raun og veru mjög illa staddur, hún lá fyrir fyrir u.þ.b. einu ári. Þá þegar var ljóst að það yrði á komandi misserum að gera ráðstafanir til þess að bæta stöðu Útvegsbankans og endurskipuleggja bankakerfið í heild. Þá þegar lá það fyrir að samstaða var um þá stefnu hér á Alþingi. Þó útfærslutillögur í einstökum atriðum lægju ekki fyrir, þá var samstaða um þá meginstefnu hér á Alþingi. Við þær aðstæður hefði það engu breytt til eða frá hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar um það að hafa sömu menn eða ekki í bankaráði Útvegsbankans. Það er auðvitað eins og hver annar kattarþvottur þegar menn eru að reyna að gera það að einhverju stórmáli í þessu plaggi. Það er m.a. eitt af því sem ég vil gagnrýna í plagginu vegna þess að það kemur ekki efni málsins við eins og það lítur hér út.

Það er líka spurt: Átti að reka þessa bankastjóra sem núna starfa við Útvegsbankann? Ég ætla mér ekki að kveða upp neinn dóm í þeim efnum, en bendi á eitt atriði. Tveir þessara bankastjóra voru ráðnir af bankanum sem slíkir á miðju ári 1984. Þá strax var hafist handa við að reyna að lagfæra þarna ýmsa hluti. M. a. hófust þá viðræður við Eimskipafélag Íslands. Og m.a. var þá fljótlega tekin ákvörðun um hlutafjáraukningu. Það er því alveg ljóst að þeir bankastjórar sem eru nú tóku fljótlega til hendinni. En hitt er aðalatriðið að ég tel að um það sé samstaða hér í þinginu að taka á þessu máli til frambúðar, Útvegsbankamálinu. Ríkisstjórnin hefur sýnt okkur ákveðnar tillögur í þeim efnum. Ég hef margt við þær að athuga, en ég segi alveg eins og er, sem alþm. þá er ég feginn því ef það loksins gerist að á þessu máli verði tekið. Það verður að leiða það til lykta núna í vetur. Það getur vel verið að við höfum skiptar skoðanir um það hvernig það á að gerast, en það verður að gerast. Þingið getur ekki horft á bankastofnun eins og Útvegsbankann veslast upp með þeim hætti sem nú er að gerast, með 100 milljón króna tapi á fyrstu mánuðum ársins eins og fréttir dagsins í dag bera með sér. En áfellisdómurinn yfir bankastjórunum, sem þarna kemur fram á bls. 72 og 76, hann er hrikalegur. Ég held að hæstv. viðskrh. hafi ekki lesið þann kafla sem kemur fram á bls. 76.

En hvað gerðu þeir, með leyfi forseta? „Þeir treystu því að ársreikningar félagsins, undirritaðir af löggiltum endurskoðanda þess, væru öruggir.“ Þeir treystu því. Og það er bersýnilega gagnrýni vert að treysta því. Ég vil þá spyrja í framhaldi af þessu: Hvað er með þessa stétt sem heitir löggiltir endurskoðendur? Er ekki ástæða til þess að athuga aðeins starfsreglur þeirra og siðareglur? Eða telja þeir sig rétt ráðna til þess á vegum stórfyrirtækja að plata fólk, bankastofnanir, ríkisvald, Alþingi og aðra slíka aðila?

Í öðru lagi: „Þeir treystu upplýsingum frá Hafskipi hf. um verðmæti eigna félagsins.“ Ég hef rakið það hvernig það hefur gerst. Það er auðvitað alveg með ólíkindum ef það er nákvæmlega rétt sem hér segir, að verðmæti eigna félagsins hafi aldrei verið skoðað í bankanum og ekki litið á málin af hagdeildinni frá 1981 til 1985.

Í þriðja lagi segir: „Þeir treystu því að Hafskip fengi varnarliðsflutningana aftur.“ Þ.e. bankastjórarnir voru líka farnir að gera sér vonir um að hið sterka pólitíska afl dygði á Reagan og leysti vandann með Rainbow Navigation sem Geir Hallgrímsson, hæstv. fyrrv. utanrrh., var að strita við árum saman. Bankastjórarnir voru farnir að „investera“ í því.

Síðan segir: „Þeir treystu fyrirætlunum Hafskips um Atlantshafssiglingarnar.“ — Sem sýnist vera glæfraspil. En þeir Hafskipsmenn sögðu í fréttatilkynningu, sem var birt með stóru letri í Dagblaðinu á sínum tíma, að þetta væri aðferð til að losa sig eins og út úr íslenska hagkerfinu, hinu valta íslenska hagkerfi. Losa sig við hinar miklu kollsteypur sem fylgja því að reka fyrirtæki á Íslandi og fara bara til útlanda með þetta. En bankastjórarnir treystu því.

Og svo kom í fimmta lagi: Þeir treystu á styrk hluthafanna í Hafskipi og fjármálareynslu stjórnarmanna þess. Amen. Amen á eftir þessu efni. Það er meira skelfingar traustið og ég vona það svo sannarlega að aðrir bankastjórar eða núv. bankastjórar Útvegsbankans láti sig ekki hafa það að treysta framar á það sem heitir fjármálareynsla hins sterka afls í þjóðfélaginu.

Á bls. 82 er komið aðeins inn á bankaeftirlitið. Mér finnst bankaeftirlitið hafa sloppið of vel í umræðum um þetta mal. Ég tel að bankaeftirlitið hefði átt að geta komið upplýsingum um þessa hluti á framfæri við stjórnvöld mikið fyrr og ég segi ekki það hefði átt að geta það heldur bar skylda til þess, bæði við Alþingi og ríkisstjórn. Ég undirstrika að ég tel að margt hafi verið vel gert af bankaeftirlitinu en ég tel hins vegar að það hefði getað hreyft við mönnum í þessu máli mikið fyrr en gert var.

Herra forseti. Niðurstaða mín eftir að hafa hugleitt þetta mál er í stuttu máli þessi: Ég tel að flokkspólitísk einokun íhaldsins í ríkiskerfinu, sem kemur fram í öllum ríkisbönkum, bankaráðum, bankastjórum og öðrum embættismönnum, síðan ráðherrum og öflugum fjölmiðlum, sé ein meginástæðan fyrir þeim mikla vanda sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.

Í öðru lagi sýnist mér að hér hafi átt sér stað mjög alvarleg bankatæknileg mistök.

Í þriðja lagi er ljóst að stjórn ríkisins á bankakerfinu og ríkisstjórnarinnar og þar með Alþingis á þessum stofnunum er of veik, er of tilviljanakennd, er of kraftlítil. Alþingi hefur ekki viljað fallast á tillögur mínar eða Alþýðubandalagsmanna yfirleitt á undanförnum árum um að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart þessum stofnunum, því miður. En til úrbóta tel ég að eftirfarandi atriði eigi að vera inni í umræðunni.

1. Sjálfstætt bankaeftirlit eins og við höfum sett fram tillögur um m.a. í frv. sem nú liggur fyrir þinginu.

2. Viðskrh. gefi Alþingi reglulega skýrslur um þróun peningamála og rekstur ríkisbankanna. Tillögur um þetta efni hafa verið felldar af stjórnarmeirihluta Framsfl. og Sjálfstfl. á Alþingi en ég tel þetta einnig vera stórmál, þannig að Alþingi komi að þessum málum a.m.k. einn dag á ári í rækilegri umræðu um banka- og peningastofnanir í landinu.

3. Ég tel að það eigi að birta upplýsingar um stærstu lántakendur bankanna. Það er mín skoðun og ég mun halda áfram að flytja tillögur um það efni þangað til menn sjá að það er eina leiðin til að veita almannaaðhald í þessum málum. Sumir eru alltaf að tala um lýðræði. Hlutirnir eiga að vera opnir en þegar til kastanna kemur reynast það vera þeir sem eru harðastir á hinni lokuðu ríkiseinokun ríkisstofnananna. Þar hefur Sjálfstfl. algera forustu í þessu landi, jafnvel umfram Framsfl. og er þá langt til jafnað.

4. Taka á upp þá reglu að æðstu starfsmenn ríkisstofnana og ráðuneyta og bankastjóra ríkisbankanna séu aðeins ráðnir um takmarkaðan tíma í senn, fimm ár eða svo. Aftur og aftur höfum við flutt tillögur í þessu efni hér á hv. Alþingi. Þær hafa auðvitað verið felldar af þessu liði sem vill halda í þetta lokaða, þunga ríkiskerfi eins og það hefur verið.

5. Ég tel að það eigi að íhuga það mjög vandlega hvort ekki er hægt að setja reglur um hæfni bankastjóra til starfa. Hugsanlega mætti setja dómnefnd í það verk eins og gert er þegar veittar eru prófessorsstöður við Háskólann þó að við höfum stundum slæma reynslu af ráðherrum þrátt fyrir slíkar niðurstöður eins og til dæmis þegar veitt var staða rannsóknarlektors í Háskóla Íslands sællar minningar nýverið.

6. Það á að setja í lög heimildir fyrir Alþingi til að hafa eftirlit með ríkisstofnunum, kalla í forstöðumenn ríkisstofnana og ræða við þá. Þetta á að vera fastur liður í verkefnum þingnefnda, t.d. í þinghléum.

7. Ég bendi á að í Bandaríkjunum hefur fyrir löngu verið tekinn upp sá háttur að forráðamenn ríkisfyrirtækja eru kallaðir til yfirheyrslna af þingnefndum, opinna yfirheyrslna sem fjölmiðlar og almenningur fær að fylgjast með. Ég tel einnig að þetta mundi stuðla að betra aðhaldi og betri vinnubrögðum í þessum stofnunum en nú eru.

9. Ég tel sjálfsagt að herða starfsskyldur bankaráða en tek fram að þær hafa mjög lagast í nýjum lögum um viðskiptabankana.

10. Ég tel það framför, sem þurfi nú að láta reyna á, að ríkisendurskoðunin hefur verið lögð undir Alþingi og þingið þarf að kanna vandlega hvort unnt er að koma hlutum þannig fyrir að ríkisendurskoðunin fylgist með ríkisstofnunum eins og ríkisbönkum.

11. Ég tel að reynslan sýni að það er óhjákvæmilegt að settar verði hér almennar reglur í lög um hagsmunaárekstra þegar um er að ræða skipan manna í trúnaðarstöður.

Þessi atriði 11 talsins vildi ég draga hér inn í umræðuna, herra forseti, um leið og við fjöllum um þetta mál þannig að þessi atriði væru hér á dagkrá líka um leið og hugmyndir hæstv. viðskrh. eru hér til meðferðar.

Hafskip átti að sýna styrk frjálshyggjunnar, samkeppnisvilja hinna nýju vinnubragða í íslensku viðskiptalífi, átti að sækja fram með íslenskt hugvit á alþjóðamörkuðum, í siglingum og víðar og víðar. Og hinir ungu riddarar Sjálfstfl. stukku fram úr fundarherbergjum flokksins, út úr fyrirtækjunum og gerðust aðilar að Hafskipi. Þarna átti að sigra, sýna reisn og þrótt hins nýja afls. Draumur þeirra hefur nú breyst í martröð þjóðarinnar sem hún verður að greiða fyrir hundruð milljóna króna.