13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. hafa haft rúman sólarhring til að kynna sér skýrslu rannsóknarnefndar um viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Má með sanni segja að ekki er þm. ætlaður langur tími til að kynna sér helstu atriði þessa stærsta gjaldþrotamáls í sögu íslenska lýðveldisins eins og þau koma fyrir í þessari skýrslu. Eru slík vinnubrögð lítt til fyrirmyndar og þá ekki heldur þau hvernig skýrsla þessi barst í hendur fjölmiðla og ýmissa annarra aðila á undan hv. þm. sem tvímælalaust og samkvæmt lögum bar að birta skýrsluna fyrstum allra.

Skýrsla þessi er í mörgu stórfróðleg og makalaus lesning og, eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, skrifuð á mannamáli sem er bæði sjaldgæft og guðsþakkar vert. En skýrslan er ævintýraleg. Svo að segja á hverri bls. hennar eru tíunduð afglöp og mistök í stjórnun og meðferð fjármuna. Öðruvísi mér áður brá, getur hver hagsýn húsmóðir sagt sem sitja hefur mátt undir löngum tölum um yfirburðahæfni húsbænda til meðferðar fjármuna og reksturs fyrirtækja og stofnana.

Helstu niðurstöður þessarar hörmulegu skýrslu eru:

1. Hreint tap þjóðarinnar vegna viðskipta Útvegsbankans og Hafskips er áætlað a.m.k. 600 millj. kr.

2. Þetta tap er til komið vegna þess að stjórnendur Útvegsbankans sýndu margvíslegt aðgæsluleysi í viðskiptum bankans við fyrirtækið. Þeir gengu ekki úr skugga um að nægilegar greiðslutryggingar væru fyrir hendi til að tryggja skuldir fyrirtækisins, þeir mörkuðu enga útlánastefnu í viðskiptum sínum við fyrirtækið, þeir létu bankann ekki gera reglulegar úttektir á fjárhag Hafskips þótt þeir hafi ekki komist hjá því að vita að fyrirtækið stóð tæpt og rambaði hvað eftir annað á barmi gjaldþrots, þeir báðu bankaeftirlit Seðlabankans heldur ekki um úttekt á viðskiptum bankans og fyrirtækisins né hafði bankaeftirlitið frumkvæði að slíkri úttekt síðustu fimm árin þótt vitað væri að Hafskip stæði tæpt og stæði fyrir áhættusömum nýjungum í rekstri. Bankastjórnin nýtti sér ekki einu sinni þá sérfræðilegu þekkingu sem til staðar var innan hagdeildar bankans til að fylgjast með fjárhag Hafskips, að því er segir í skýrslunni. Í stað þess að fylgjast náið með rekstri þessa áhættusama og skulduga fyrirtækis og í stað þess að sýna varúð í viðskiptum sínum við það, sem eðlilegt hefði verið samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem bankastjórnin þó hafði í höndum, virðist hún annaðhvort hafa flotið sofandi að feigðarósi eða látið annarleg sjónarmið ráða gerðum sínum. „Sú spurning hlýtur að vakna“, segir á einum stað í skýrslunni með leyfi forseta, „hvort meira var hugsað um að réttlæta lánveitingar til Hafskips en að gæta hagsmuna bankans.“ Bankinn lét hvorki eigin úttekt á fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins né gagnrýnið mat á tryggingum ráða ákvörðunum sínum um þá fyrirgreiðslu sem hann veitti. „Fyrirgreiðslu sem hvorki var“, eins og segir í skýrslunni með leyfi forseta, „í eðlilegu samræmi við starfsumfang fyrirtækisins né eiginfjárstöðu þess... né í eðlilegu samræmi við eiginfjárstöðu Útvegsbankans“, eins og segir þar nokkru síðar.

Þetta eru þungar ásakanir sem hér eru bornar á gæslumenn almannafjár. Og þær eru ekki órökstuddar í þessari skýrslu hvað sem gagnrýnendur hennar segja, enda ber gagnrýnin merki þess að skýrslan er óþægileg fyrir þá sem í hlut eiga. Það er augljóslega óþægilegt þegar samtrygging fjármagns og pólitísks valds kemur upp á yfirborðið og verður sýnileg með þessum hætti sem gerist í þessari skýrslu og eru viðbrögð þeirra sem í hlut eiga greinilega sprottin þar af.

Hvað sem hæstv. bankamálaráðherra og hv. formaður bankaráðs Útvegsbankans segja tel ég engum vafa undirorpið að auðvitað hefðu bankastjórar Útvegsbankans og einnig bankaráð hans, svo ekki sé minnst á aðra sem málinu tengjast, átt að víkja tímabundið frá störfum á meðan rannsókn þessa máls stóð yfir. Það er í samræmi við allar viðteknar venjur í lýðræðislegu réttarríki og sjálfsögð starfsregla að standá þannig að málum. Með því er vitaskuld ekki verið að kveða upp dóm fyrir fram um menn og störf þeirra eins og allir hv. þm. vita.

Það dugar lítt að segja að bankastjórarnir hafi verið tiltölulega nýráðnir af bankanum og bankaráðið nýlega komið til starfa og setja það fram sem rök fyrir því að þeim sé málið lítið skylt. Í fyrsta lagi telst það tvímælalaust skylda þessara aðila að kynna sér stöðu mála þegar þeir taka við starfi sínu og taka á þeim málum sem undir þá heyra. En ekki er að sjá að svo hafi verið t.d. af fundargerðum bankaráðs hvað sem hv. 3. þm. Reykv. segir þar um. Í öðru lagi gerðist hluti þeirra atburða sem hér um ræðir á starfstíma þeirra. Þeir eru því ekki lausir undan ábyrgð eins og ýmsir vilja vera láta. Hins vegar er það ekki í anda og ekki í samræmi við starfsvenjur samtryggingarinnar að viðurkenna þessa ábyrgð. Hér höfum við enn eitt dæmið um hvernig hún virkar og það er reyndar þvert á hægri/vinstri litróf íslenskra stjórnmála.

Reyndar er málflutningur hv. þm. Valdimars Indriðasonar, formanns bankaráðs Útvegsbankans, í þessu máli með töluverðum ólíkindum. Í Morgunblaðinu í dag má lesa það eftir honum haft að opinberir aðilar sem málinu tengjast hafi allir saman unnið vel, bæði bankaráðið undir hans forustu og jafnt núverandi sem fyrrverandi bankastjórar Útvegsbankans. Samt stöndum við hér með stærsta gjaldþrotamál í sögu íslenska lýðveldisins í höndunum. Hvernig má slíkt vera ef allir hafa unnið svona vel? Það stendur augljóslega ekki steinn yfir steini í málflutningi af þessu tagi.

Hv. þm. Valdimar Indriðason er líka á því að ekki sé á nokkurn hátt hægt að draga Alþingi til ábyrgðar í þessu máli. Þar er ég honum gjörsamlega ósammála. Ég tel að ábyrgð Alþingis, þeirra stjórnmálaflokka sem þar hafa farið með meirihlutavald, sé gríðarleg í þessu efni. Reyndar er það það atriði sem ég tel einna mikilvægast fyrir Alþingi að velta fyrir sér nú, þ.e. hvar liggur ábyrgðin á meðferð almannafjár eins og í Útvegsbanka Íslands? Ég vil skjóta því að í leiðinni að hún liggur varla hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eins og lesa má út úr orðum hv. 3. þm. Reykv. í Morgunblaðinu í dag. Í öðru lagi ættum við að velta því fyrir okkur hvernig má koma í veg fyrir að aftur komi upp ríkisgjaldþrotamál af þessu tagi.

Ljóst er að samkvæmt lögum bera bankastjórar og bankaráð ríkisbankanna ásamt með bankamálaráðherra ábyrgð á stjórn bankanna og meðferð þeirra fjármuna sem þar eru. Bankaráð eru kosin af Alþingi og því ber Alþingi alla ábyrgð á því að til þeirra séu kosnir menn sem eru starfi sínu vaxnir. Jafnframt hefur Alþingi eftirlitsskyldu gagnvart bönkunum og hefur því tvöfalda ábyrgð að því leytinu til að kjósa ekki menn í bankaráð sem jafnframt eiga að gegna eftirlitsskyldu sem þm. og löggjafar á Alþingi. Í þessu efni er ábyrgð Alþingis mikil. Hvað varðar bankaráð Útvegsbankans má segja að Alþingi hafi brugðist ábyrgðarhlut sínum með því að kjósa starfandi þm. í ráðið og auk þess menn sem áttu viðskiptahagsmuna að gæta gagnvart bankanum. Þar fyrir utan var ósamkvæmni Alþingis með ólíkindum þegar það svo að segja í sömu andránni gagnrýndi af hörku meðferð fjármuna Útvegsbankans og heimtaði rannsókn á málinu og endurkaus um leið fjóra af fimm bankaráðsmönnum hans.

Í öðru lagi ber bankamálaráðherra ábyrgð á málefnum bankans, en hann hlýtur umboð sitt á hverjum tíma hjá Alþingi, þannig að einnig þar er Alþingi ábyrgðaraðili.

Alþingi kýs ekki bankastjóra ríkisbankanna, en þeir eru ráðnir til starfa eftir pólitískum viðhorfum og styrk stjórnmálaflokka þannig að þar koma sömu menn nærri og þeir sem mynda meiri hluta á Alþingi hverju sinni.

Síðast en ekki síst er það Alþingis — og þetta er e.t.v. veigamesta atriðið — að setja lög um skipan bankamála hér á landi. Þannig er það í einu og öllu á ábyrgð Alþingis að setja lög sem eru þannig úr garði gerð að þau fyrirbyggja að mál sem viðskipti Útvegsbankans og Hafskips geti komið upp. Einnig þar hefur meiri hluti Alþingis brugðist.

Alþingi setur bankaleynd í lög sem gerir það að verkum að erfitt er að fylgjast með málefnum ríkisbankanna. Það lætur undir höfuð leggjast að setja lög sem takmarka lánveitingar ríkisbankanna til fyrirtækja við ákveðið hlutfall, lög sem hugsanlega hefðu getað komið í veg fyrir þær hörmungar sem við stöndum nú frammi fyrir. Í lög vantar ákvæði um samskipti ráðherra og bankaráðs, um skyldur bankaráðs gagnvart Alþingi og þannig mætti áfram telja.

Ábyrgð Alþingis er mikil hvernig sem á málið er litið og undan henni þýðir ekki að víkjast.

Vald er vandmeðfarið og það er alveg ljóst að þetta mál krefst þess að þegar í stað verði hafin gagngerð endurskoðun á meðferð og dreifingu valds í íslenska stjórnkerfinu og að þau óljósu skil sem nú eru á milli pólitísks valds og fjármagnsvalds verði tafarlaust skýrð og þetta tvennt vendilega aðgreint. Ella mun seint takast að uppræta það siðleysi og spillingu sem viðgengst í skjóli pólitísks valds sem heldur verndarhendi sinni yfir fjármagnsvaldinu og öfugt og sem viðgengst í skjóli samtryggingar sem leyfir að meðferð almannafjár sé ekki í eðlilegu samræmi við þær efnahagsstærðir sem við blasa svo ég víki aftur að þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir.

Fyrir utan endurbætur á bankalöggjöfinni og ráðstafanir í málefnum Útvegsbankans er þetta, herra forseti, það stóra verkefni sem ég tel að okkur sem hér sitjum beri ótvíræð skylda til að takast tafarlaust á við.