17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

125. mál, opinber innkaup

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um opinber innkaup ber býsna ljúft yfirbragð og það sem segir í 1. gr. þess, að tilgangur þessara laga sé að tryggja hagkvæmni í rekstri ríkisins að því er varðar kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og framkvæmda. Opinber innkaup heyra undir fjmrn.

Ég hafði því miður ekki tíma fyrir síðustu helgi til þess að kynna mér innihald þessa frv. en ég gat notað helgina til þess. Og ég verð að segja eins og er að mér brá þegar ég áttaði mig á því hver hinn eiginlegi tilgangur þessa frv. er. Hann er ekki sá að bæta, efla og auka og styrkja innkaup hins opinbera, heldur þvert á móti. Ég tel mjög nauðsynlegt að hv. þm. fái í hendur þá reglugerð sem liggur uppi í fjmrn. og fylgir þessu frv. því að með því að fletta þeirri reglugerð kemur allt annað í ljós en frv.

kveður á um. Það segir í athugasemdum við lagafrv. þetta að nefnd sú sem skipuð var í tíð fyrrverandi fjmrh., hæstv. núv. iðnrh., Alberts Guðmundssonar, hafi skilað ráðherra drögum að frv. til laga um opinber innkaup ásamt drögum að reglugerð sem byggi á frv. En dokum nú aðeins við og lítum á hvað segir í 11. gr. þessarar reglugerðar. Þar segir orðrétt:

„Innkaupastofnun ríkisins annast eða hefur milligöngu um öll vörukaup á innlendum markaði skv. ákvörðun stjórnar - þ.e. þeirrar stjórnar sem nú á að setja yfir Innkaupastofnun ríkisins. - Stjórnin getur sömuleiðis látið Innkaupastofnun ríkisins annast innkaup á vörum erlendis frá fyrir ríkisstofnanir ef um er að ræða samræmingu á vörukaupum ríkisstofnana enda sé þá um magnútboð að ræða.“

Hvað segir þetta? Þetta segir það einfaldlega að það er verið að takmarka möguleika Innkaupastofnunar ríkisins á vöruinnkaupum. Þetta segir það sem hefur lengi legið í láginni að íslenskir stórkaupmenn sjá ofsjónum yfir starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins og vilja fá í sinn hlut verulegan hluta af því sem Innkaupastofnunin kaupir inn.

Ef farið verður eftir þessari reglugerð þýðir það einfaldlega að sú stjórn sem nú á að setja yfir Innkaupastofnun ríkisins getur ráðið því hverju sinni hvað stofnunin á að kaupa inn fyrir ríkisstofnanir. Þetta segir mér þá sögu á einföldu máli að það eigi að skerða Innkaupastofnun ríkisins en ekki efla hana. Ég vænti þess að menn hafi sömu hagsmuna að gæta fyrir hönd Innkaupastofnunar ríkisins og Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar. En þar segir í samþykktum m.a.:

„Enn fremur skal Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar annast öll innkaup á vörum erlendis frá fyrir Borgarsjóð Reykjavíkur og borgarstofnanir.“

Þetta gengur þvert á það sem þessi reglugerð segir og segir mér þá sögu að hér sé á ferðinni tilraun til þess að mola og brjóta niður Innkaupastofnun ríkisins en ekki til að efla hana.

Menn geta síðan velt því fyrir sér hvernig þetta verður til. Hver er þróunin í þessum málum? Hún er einfaldlega þessi: Fyrrverandi hæstv. fjmrh., sem jafnframt hefur fengist við störf sem stórkaupmaður, setur á stofn þessa nefnd. Og hverjir eiga sæti í þessari nefnd? Nú skulum við aðeins kynna okkur það, og hvaða hagsmuna þessir menn hafa að gæta. Í þessari nefnd er fulltrúi frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga sem mun hafa gífurlegra hagsmuna að gæta vegna innkaupa til hins opinbera. Þarna er arkitekt, erindi hans í nefndina skil ég ekki. Þarna er starfsmaður þingflokks Sjálfstfl., að ég hygg, og þarna er framkvæmdastjóri Verktakasambands Íslands. Hvers vegna eru þessir menn skipaðir í nefndina? Er það til að gæta hagsmuna Innkaupastofnunar ríkisins? Mér er spurn. Nei, það er ekki til þess. Það er til þess að gæta hagsmuna annarra aðila í þjóðfélaginu, íslenskra stórkaupmanna og þeirra aðila sem kaupa inn stórt að öðru leyti.

Ég vil benda hv. deild á það að Innkaupastofnun ríkisins er ein af þeim ríkisstofnunum sem hefur staðið sig hvað best í þessu landi og eru til margar umsagnir um það. Ég vil t.d. benda á að Innkaupastofnun ríkisins hefur náð þeim árangri - náði þeim árangri 1980 þegar enginn var farinn að bjóða út frakt hér á landi - að hún bauð út frakt að verðmæti 713 millj. kr. og fékk 471 millj. kr. í afslátt, en það ár var heildarkostnaður við alla starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins 340 millj. eða aðeins 72% af þessum eina lið sem sparaðist. Það eru fjöldamörg dæmi til um það hvernig Innkaupastofnun ríkisins hefur verið rekin á þann hátt að til mikillar fyrirmyndar er. Ég vil nefna sem dæmi, með leyfi forseta, og fá að lesa úr skýrslu um starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins sem gerð var árið 1985. Þar segir:

„Eins og fyrr greinir er vörusala Innkaupastofnunarinnar veruleg á íslenskan mælikvarða. Er reynt að tryggja með útboðum að sem allra lægst verð vöru fáist í hverju tilfelli. Auk þess er samið um lægstu fáanleg tryggingagjöld og um afslætti af flutningsgjöldum vörunnar ýmist með því að bjóða út flutningana eða með sérstökum samningum við skipafélögin. Innkaupastofnun tekur þóknun fyrir þjónustu sína á bilinu 0,5%-6% í formi álagningar á seldar vörur, mismunandi eftir verðmæti pantana. Kostnaður við vörukaup er aðeins 2-3% af vörusölu en meðalálagning 3-4% og hefur alltaf skilað rekstrarhagnaði allt að 1% af vöruveltu.“

Nú vil ég að menn beri þetta saman við þá álagningu sem gengur og gerist í heildverslun á Íslandi og spyrji sjálfa sig: Hvernig stendur á því að nú vilja hæstv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh., sem lagði drögin að þessari frumvarpssmíð, draga úr möguleika þessarar stofnunar á því að kaupa inn hagkvæmt fyrir íslenska ríkið? Það er vegna þess sem ég sagði í upphafi og er opinbert leyndarmál að íslenskir stórkaupmenn sjá ofsjónum yfir innkaupum Innkaupastofnunar ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög nauðsynlegt að þetta mál fái miklu, miklu meiri umræðu hér í deildinni heldur en verið hefur. Þessu er skellt inn sem frv. til laga um bættan rekstur tiltekinnar ríkisstofnunar. Það er gert m.a. með því að setja henni nýja stjórn. Og hver á að setja henni stjórnina? Það er fjmrh. hæstv. Og hverja teljið þið, hv. þm., að fjmrh. hæstv. velji í slíka stjórn? Þm. verða að svara því hver fyrir sig. Ég hygg að það yrðu menn sem ekki hefðu verulegan áhuga á því að auka og efla hag Innkaupastofnunar ríkisins.

En alvarlegast í þessu er sú 11. gr. sem ég las upp áðan og er í reglugerðinni sem þm. hafa ekki séð og liggur uppi í fjmrn. Sú reglugerð gengur þvert á tilgang þessa frv. sem er til umræðu, gengur þvert á tilganginn. Hún segir það með berum orðum að þessi stjórnarnefnd Innkaupastofnunar ríkisins geti ráðið því hverju sinni hvað verður boðið út fyrir ríkisstofnanir. Og ef fjmrh. skipar í þessa nefnd þá menn sem honum hugnast að fari með stjórn Innkaupastofnunar ríkisins munu þeir ráða alfarið hvað verður keypt inn fyrir ríkið og hvað ekki. Það má kannske vera að þau magninnkaup sem þarna er rætt um í 11. gr. séu salernispappír og bleyjur fyrir sjúkrahús og ríkisstofnanir sem eru sannarlega til samræmingar á vörukaupum til ríkisstofnana, en hvað um aðra þætti? Hvað um aðra hluti? (Iðnrh.: Ertu að ræða málið á dagskrá?) Hæstv. iðnrh., ég er að tala um reglugerð sem liggur uppi í fjmrn. um þessar mundir og fylgir með því frv. sem er til umræðu. (Iðnrh.: Nú.) Já, ég vænti þess að það sé svo gott samband á milli iðnrn. og fjmrn. að þær reglugerðir gangi þar á milli. (Iðnrh.: Ég finn ekki 11. gr.) Nei, það er ekki von, sú 11. gr. sem ég er að vitna í er í reglugerð sem heitir „Reglugerð um opinber innkaup“ og er í tengslum við það frv. sem við erum að ræða um. Það getur vel verið að það komi hæstv. ráðherra á óvart að mér skuli hafa lukkast að ná í þessa reglugerð, en hún hefði auðvitað átt að fylgja þessu frv. sem fylgiskjal. Hún segir allt um þetta mál. (Iðnrh.: Það er engin reglugerð með þessu.)

Ég vil, virðulegi forseti, benda á þetta og vil að hv. þm. geri sér grein fyrir því hvað hér er raunverulega verið að ræða um. Það er ekki verið að ræða um það að bæta rekstur Innkaupastofnunar ríkisins. Og það merkilega raunar gerist í sambandi við þetta mál að hér ríkir Parkinsons-lögmálið sem Sjálfstfl. með hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar hafa barist gegn eða segjast berjast gegn. Þeir eru að setja stofnuninni stjórn, stofnun sem hefur sannað það í mörg ár að hún er vel rekin og um það vitna fjölmargir vitnisburðir. Ég held að mikil nauðsyn sé á því áður en þetta mál verður afgreitt frá hinu háa Alþingi að þessi atriði verði athuguð mjög nákvæmlega og mjög gaumgæfilega og menn hugi að því hvað hér er raunverulega á bak við. Ég verð að segja það alveg eins og er að þegar ég las þetta frv. fyrst þótti mér það býsna geðfellt vegna þess að ég vil stuðla að bættum innkaupum hins opinbera. En ég vil ekki gera það á þann hátt að Innkaupastofnun ríkisins verði brotin niður og þau innkaup sem hún hefur séð um og annast færð íslenskum stórkaupmönnum. Það held ég að verði ekki hinu opinbera til bóta og er sannfærður um að verður ekki.

Ég vil einnig í þessu sambandi minnast á það að Innkaupastofnun ríkisins hefur beitt tilteknum aðferðum við útboð sem eru raunar amerískar aðferðir og ættu því að hugnast vel þeim mönnum sem stuðla vilja að tilteknu þjóðfélagi hér á Íslandi. Innkaupaaðferðir Innkaupastofnunar ríkisins, þ.e. að leita eftir alþjóðlegum tilboðum, opna þau að viðstöddum bjóðendum og tilkynna öllum fyrirtækjum um fram komið verð, skapar mjög þýðingarmikla sérstöðu á útboðsmarkaði vegna þess að hjá öðrum Evrópuþjóðum eru tilboð yfirleitt ekki opnuð að viðstöddum bjóðendum og bjóðendur fá ekki upplýsingar eftir á um tilboð annarra. Fyrirtækjum þykir því mjög fýsilegt að taka þátt í útboðum á Íslandi og geta hampað því á hinum frjálsa sölumarkaði að þeir hafi verið lægstbjóðendur vöru í

opnum samkeppnisútboðum á Íslandi þar sem keppinautar þeirra áttu einnig tilboð. Þetta hefur það í för með sér að opinberir aðilar á Íslandi fá stundum 10-20% lægri fob-tilboð en aðrir kaupendur í Evrópu, að sögn Dana og Svía, vegna þess að erlendu fyrirtækin hafa efni á því til að auka álit sitt að selja til hins smáa markaðar á Íslandi á lægra verði en til annarra.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja þessa umræðu en ég vil vísa þessu erindi mínu, um að menn kanni málið dulítið betur heldur en þeir hafa gert, til þeirrar virðulegu nefndar sem færmálið til athugunar vegna þess að ég held að hér hafi verið komið í bakið á hv. þm. Ég held að þeim hafi raunverulega ekki verið gerð grein fyrir því hvað hér er verið að fara fram á. Það er verið að fara fram á það að hluti af þeim innkaupum sem Innkaupastofnun ríkisins annast núna verði afhentur öðrum. Um það snýst þetta mál.

Ég vil hins vegar endurtaka það að allt sem stuðlar að bættum innkaupum hins opinbera er mér mjög að skapi. (Iðnrh.: Þú ert kominn í hring.) Ég er ekki farinn nokkurn hring, hæstv. iðnrh., og hef aldrei gert það.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þessu. Ég vænti þess að þessar athugasemdir mínar komi til umræðu þegar málið fer í nefnd og lýk hér með máli mínu.