17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

125. mál, opinber innkaup

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kom ýmislegt allrar athygli vert fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Og ef það er rétt að til séu drög að reglugerð eða fullsmíðuð reglugerð uppi í fjmrn. sem gengur þvert á yfirlýstan vilja og tilgang þessa frv. þá er það vitaskuld stóralvarlegt mál. Ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um að ég mun óska eftir því í fjh.- og viðskn. að nefndin fái slík drög, ef til eru, til umfjöllunar.

Hitt er svo allrar íhugunar vert og löngu tímabært að hv. þm. velti fyrir sér, en það er samspil laga og reglugerða og hvort ekki sé kominn tími til að reynt verði að samhæfa betur en nú er þessa tvo þætti löggjafarstarfsins. Þegar hlutir eins og hér hefur verið látið að liggja að kunni að gerast er það að sýnu býsna tilgangslítið fyrir Alþingi að setja vönduð lög sem síðan er breytt með einu pennastriki af ráðherra með reglugerð. Það er því tímabært að við veltum því fyrir okkur hvort hverju stjfrv. eigi ekki að fylgja drög að þeirri reglugerð sem ráðuneytið hyggst setja við það, nái það fram að ganga.