17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

125. mál, opinber innkaup

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Í ræðu hv. 6. landsk. kom fram, sem reyndar kemur hér fram í athugasemdum við frv., að það liggja fyrir drög að reglugerð í sambandi við þetta frv. og hv. 6. landsk. þm. upplýsti að í þeim drögum sem hann hafði aflað sér í fjmrn. væru þættir sem gengju þvert á efni þessa frv. Ég tel því fulla ástæðu til þess að þessi drög að reglugerð sem þm. hafði í fórum sínum verði einnig afhent öðrum hv. þm. áður en þeirri umræðu lýkur sem a sér stað nú.

Ef það er raunverulega þannig að fyrir liggur fullsamin reglugerð um allt annan tilgang þessara laga en fram kemur í frv. fara hlutirnir að gerast dálítið einkennilegir og það er náttúrlega full krafa þm. að fá að sjá það plagg ef það er tilætlun ráðherra að nota þetta plagg síðan sem reglugerð bak við þessi lög.

Þá nefndi hv. þm. í sambandi við frv. og reyndar innihald reglugerðarinnar að þessi lög væru til þess að draga úr gildi og stöðu Innkaupastofnunar ríkisins. Mér finnst að það sé ekki í frv., alls ekki, og ég ítreka það sem ég sagði í fyrri hluta umræðunnar að ég tel það jákvætt að stofnuninni skuli vera skipuð stjórn en mér virtist aftur á móti að hv. 6. landsk. þm. telji ekki jákvætt að þessi stofnun hefði verið rekin vel hingað til og þess vegna væri ekki ástæða til að skipa henni stjórn. Mín skoðun er sú að það sé eðlilegt að ríkisstofnanir hafi stjórn en ég er aftur á móti ekki sammála því að sú stjórn sé skipuð af ráðherra. Eðlilega ætti slík stjórn að vera kjörin af Alþingi og þá fimm manna stjórn eins og hæstv. iðnrh. nefndi í fyrri hluta umræðunnar.

Ég ítreka að ég tel æskilegt að þessi drög að reglugerð berist þm. áður en þessari umræðu verði lokið og ef ekki er hægt að koma því í kring verði þessi drög til umfjöllunar í nefndinni sem fær þetta mál til meðferðar og þar fáist upplýsingar um hvað mikið tillit eigi að taka til þessara draga í sambandi við framkvæmd laganna.