17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

125. mál, opinber innkaup

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að víkja að fsp. hv. 5. landsk. þm. út af hugsanlegum viðskiptum sveitarfélaga við Innkaupastofnun ríkisins. Ég sé í sjálfu sér ekkert á móti því að Innkaupastofnunin geti annast innkaup fyrir sveitarfélög ef um semst þeirra á milli. Það er auðvitað ekki hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins að annast innkaup fyrir sveitarfélög, en náist samningar á milli Innkaupastofnunar og viðkomandi sveitarfélaga sem þess óska sé ég ekki að þetta lagafrv., ef að lögum verður, komi í veg fyrir að þeir samningar geti orðið.

Að því er varðar fsp. hv. 6. landsk. þm. um sölu á eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir tel ég ekkert óeðlilegt við að opinberir aðilar feli einkaaðilum, sem hafa slík störf með höndum í einstökum tilvikum, að fara með sölu á opinberum eignum. Við höfum hér í landinu margs konar þjónustu einkaaðila sem ríkið getur hagnýtt sér, þar á meðal sölu á eignum og ég sé ekkert athugavert við það nema síður sé að ríkið hagnýti sér slíka þjónustu. Það getur á margan hátt verið til hagræðis fyrir báða aðila og fyrir því mun þessi háttur hafa verið á hafður varðandi graskögglaverksmiðjur sem auglýstar hafa verið til sölu og leitað hefur verið eftir tilboðum í.

En almennt vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram er það alveg skýrt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar getur, ef hún óskar eftir því, fengið álit nefndarinnar sem samdi þetta frv. og fylgifrv. sem áður hefur verið rætt í hv. deild. Það er að sjálfsögðu engin fyrirstaða fyrir því að nefndin fái nál. í heild sinni til skoðunar. En það er nauðsynlegt að taka það fram til þess að taka af öll tvímæli í því efni að af hálfu ráðuneytisins hefur engin afstaða verið tekin til reglugerðar með þessu frv. og ráðherra hefur ekki tekið neina afstöðu til þess.

Ég féllst á tillögur nefndarinnar af því er varðaði þær tillögur um breytingar á lögum sem hún lagði fram. Aðrar ákvarðanir hafa ekki verið teknar til tillagna nefndarinnar og því liggja ekki fyrir af hálfu ráðuneytisins neinar tillögur að svo stöddu um reglugerð með þessu frv., enda eðlilegt að slík vinna hefjist þegar lög hafa verið samþykkt frá hinu háa Alþingi. Auðvitað er deginum ljósara, sem ekki þarf að eyða mörgum orðum að hér á hinu háa Alþingi, að framkvæmdavaldið hefur enga heimild til að setja í reglugerð ákvæði sem ganga í berhögg við lög. Það er þess vegna alveg útilokað fyrir framkvæmdavaldið að víkja lagaákvæðum til hliðar, en löggjafarvaldið getur gefið framkvæmdavaldinu heimild til að setja fyllri ákvæði og útlistanir um lög í reglugerð og um þessa skipan mála þarf í sjálfu sér ekki að eyða mörgum orðum.

Ég er þeirrar skoðunar og lýsti þeirri skoðun í framsöguræðu fyrir þessu frv. að það er ekkert sjálfgefið að Innkaupastofnun ríkisins annist öll innkaup fyrir opinbera aðila. Það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að búa svo um hnútana að Innkaupastofnunin annist öll innkaup fyrir opinbera aðila. Ég lýsti því mjög skýrt í framsöguræðu að í ýmsum tilvikum getur hentað betur að einstakar ríkisstofnanir sjái sjálfar um innkaup til sinna þarfa og á þjónustu sem kaupa þarf að. Þetta getur farið mjög svo eftir þeirri starfsemi sem við á í hverju falli og hvort viðkomandi stofnanir hafa aðstöðu til að byggja upp eigin innkaupadeildir og það sé eðlilegur þáttur í þeirra störfum. Þetta getur verið mismunandi eftir því hvaða vörur eða þjónustu er verið að kaupa. Það getur verið álitaefni, ef um er að ræða kaup á sérhæfðum vörum til tiltekinnar opinberar stofnunar sem ekki eru keyptar til annarra, að viðkomandi stofnun annist þau innkaup. Ef hins vegar er um að ræða tæki sem almennt eru notuð í ríkisrekstrinum, eins og til að mynda tölvur, kann að vera miklu hagkvæmara að gera það á heildargrundvelli og leita eftir tilboðum fyrir ríkisstofnanir í heild. Reynslan sýnir að slík innkaup á tölvum til að mynda hafa gefið mjög góða raun.

Mín skoðun er sú að það væri rangt að setja um þetta alveg fastmótaðar reglur sem ekki væri hægt að víkja frá. Þetta lagafrv. gerir ráð fyrir að það sé hægt að heimila einstökum ríkisstofnunum að annast sín innkaup. Það er líka hægt að kaupa inn til ríkisins beint frá heildsöluaðilum. Þetta verður að meta í hverju falli. Meginmarkmiðið er hins vegar að það eru settar almennar reglur um hvernig skuli standa að þessum innkaupum, hvort heldur sem þau fara fram á vegum Innkaupastofnunar eða einstakra stofnana. Það er auðvitað höfuðatriðið að það séu almennar reglur sem farið er eftir burtséð frá því hvort það er Innkaupastofnun eða einstakar opinberar stofnanir.

Ég vísa því alveg á bug að það hafi nokkurn tíma verið tilgangurinn með þessu frv. að keyra öll opinber innkaup inn í eina stofnun. Það er ekki ætlunin með frv., það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að búa svo um hnútana. Hitt er miklu æskilegra. Ég vísa því á bug öllum fullyrðingum um að það hafi á nokkurn hátt verið gerð tilraun til að fara á bak við þm. með flutningi þessa máls.