17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

10. mál, leyfi frá störfum vegna umönnunar barna

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna.

Eins og fram kemur í grg. með frv., með leyfi forseta, hefur umönnun og uppeldi barna fyrstu æviár þeirra lengstum verið í höndum kvenna. Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist gífurlega og nálgast nú atvinnuþátttöku karla. Á sama tíma hafa kröfur atvinnulífsins til starfsfólks aukist verulega og hefur foreldrum ungra barna reynst erfitt að samræma þær kröfur þeim sem umönnun og uppeldi ungra barna leggur þeim á herðar.

Tilgangur frv. er að koma til móts við þessar breyttu aðstæður foreldra ungra barna og gera þeim kleift að sinna þörfum heimilis og barna fyrstu tvö árin í ævi barns án þess að raskað sé atvinnuöryggi þeirra.

1. gr. frv. kveður á um að foreldri eigi rétt á að taka sér launalaust leyfi frá störfum fyrstu tvö árin eftir fæðingu barns án þess að eiga á hættu að missa starf sitt og þau kjör sem það býður. Í greininni er jafnframt kveðið á um að sé um fleirbura eða fötluð börn að ræða lengist þessi réttur um eitt ár og verði þrjú ár vegna þess að umönnun fleirbura og fattaðra barna er að jafnaði umfangsmeiri en umönnun annarra barna.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um að ákvæði þess geti á engan hátt skert þau lög sem í gildi eru á hverjum tíma um fæðingarorlof. Með þessari grein er fyrst og fremst verið að fyrirbyggja að hægt sé að túlka þetta frv., verði það að lögum, á þann hátt að foreldri sem nýtir sér ákvæði þessa frv. missi í einhverju við það rétt sinn til launaðs fæðingarorlofs. 2. gr. frv. er því fyrst og fremst fyrirbyggjandi.

3. gr. þarfnast ekki skýringar, trúi ég.

Síðan segir í grg. með frv., með leyfi forseta: „Frv. kveður á um rétt foreldris til að taka sér launalaust leyfi frá störfum fyrstu tvö árin eftir fæðingu barns og ganga að starfi sínu aftur og sömu kjörum að þeim tíma liðnum. Það tekur ekki til efnalegrar afkomu foreldra ungra barna“ - og ég vil bæta því hér við að hún verður vitaskuld ekki tryggð fyrr en aðilar vinnumarkaðarins semja um dagvinnulaun sem nægja til heimilisframfærslu, en á það skal einnig benda að lenging fæðingarorlofs án

launaskerðingar og auknar greiðslur barnabóta eru ákaflega brýnar til að tryggja efnalega afkomu þessa þjóðfélagshóps. „Þetta frv. beinist eingöngu að atvinnuöryggi foreldra ungra barna og tryggir þeim ákveðinn lágmarksrétt í því efni.

Í skýrslu Byggðastofnunar, Vinnumarkaðurinn 1984, sem út kom í febrúar 1986 og er nýjasta skýrsla þeirrar stofnunar um vinnumarkaðinn, kemur fram að karlar höfðu að meðaltali 57% hærri laun á ársverk en konur árið 1984. Þessi mikli munur á meðaltalslaunum kvenna og karla a sér margar orsakir. Ein þeirra er sú að atvinnuferill kvenna er iðulega rofinn þegar þær eignast börn því að margar hverfa þá af vinnumarkaði um stundarsakir til að sinna börnum og heimili. Vilji þær hefja störf utan heimilis á nýjan leik hafa þær oftast enga tryggingu fyrir að geta gengið að starfi sínu aftur og eru því oftar en ekki í sporum nýliða á vinnumarkaðnum. Þetta veldur því að konum reynist iðulega erfiðara en körlum að byggja upp atvinnuferil sinn, en það hefur ásamt öðru í för með sér skerta tekjumöguleika þeirra og er því ein orsök lágra meðallauna kvenna. Frv. miðar að því að taka á þessum þætti hins kynbundna launamisréttis og gera foreldrum, konum sem körlum, kleift að hverfa tímabundið af vinnumarkaði án þess að rjúfa atvinnuferil sinn og skerða með því tekjumöguleika sína síðar meir.

Það er rétt að taka það fram að frv. hefur engan reiknanlegan kostnað í för með sér. Þetta er fyrst og fremst réttindafrv. sem miðar að því að taka umönnun barna með sem eðlilegan þátt í skipulagi vinnumarkaðarins og tryggja að öryggisleysi foreldra á vinnumarkaði og hætta á tekjutapi síðar meir verði ekki til þess að koma í veg fyrir að foreldri geti sinnt barni sínu óskipt fyrstu tvö árin í ævi barns. Nóg er nú samt sem hamlar gegn því. Jafnframt tekur frv. á einum þætti hins kynbundna launamisréttis eins og ég rakti áðan.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.