17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

118. mál, jöfnun á námskostnaði

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég hleyp í skarðið fyrir hv. þm. Ragnar Arnalds til að mæla fyrir frv. er hann flytur á þskj. 122, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 69 1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1. gr. laganna orðist svo:

Ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám, sbr. og 5. gr.

Að lágmarki skal við það miða að námsstyrkir nægi fyrir helmingi áætlaðs fæðis- og húsnæðiskostnaðar.“

Þannig hljóðar frvgr. Í grg. segir:

„Opinber stuðningur við framhaldsskólanemendur, sem verða að sækja nám fjarri heimabyggð sinni, er óhjákvæmilegur í því skyni að stuðla að jafnrétti til menntunar.

Samkvæmt lögum nr. 69 frá 1972 skal veita nemendum styrki „að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum ...“ Hins vegar hafa þessir styrkir rýrnað svo hrapallega í tíð núverandi stjórnar að ekki verður við unað. Í frumvarpi þessu er að því stefnt að lögbinda lágmarksstyrki vegna fæðis- og húsnæðiskostnaðar. Til skamms tíma námu þessir styrkir þriðjungi áætlaðs fæðiskostnaðar og helmingi húsnæðiskostnaðar. En seinustu ár hafa þessir styrkir lækkað mjög ört eins og best sést á því að framlag ríkisins á fjárlögum 1987 er 20 millj. kr., var sama árið 1986 og 1985 og tæpar 18 millj. kr. árið 1984 og þó hækkar framfærsluvísitala yfir 80% á þessum tíma.

Með frumvarpinu er bundið í lög að styrkir skuli að lágmarki nema helmingi fæðis- og húsnæðiskostnaðar. Ef slíkt ákvæði hefði verið í gildi á þessu ári hefðu styrkir orðið um það bil fjórfalt hærri en nú er og kostnaður aukist úr 20 millj. kr. í 80 millj. kr. Er það heldur ríflegri stuðningur til jöfnunar á aðstöðumun nemenda en lengstum var eftir setningu laganna þar sem löngum var miðað við þriðjung fæðiskostnaðar en verður samkvæmt frumvarpinu helmingur fæðis- og húsnæðiskostnaðar.

Einnig er ákvæði í frumvarpinu þess efnis að styrkir skuli veittir án tillits til búsetu ef efnaleysi torveldar nemendum að sækja skóla en nú er aðeins heimild til að veita styrki af þessari ástæðu og mun litlu fé varið í þessu skyni.“

Um ástæður fyrir framlagningu þessa frv. væri auðvitað hægt að hafa uppi miklu lengra mál. Í dæmigerðum fjölbrautaskóla úti á landi er dvalarkostnaður nú í heimavist um 10 þús. kr. á mánuði. Auðvitað er þessi kostnaður mun hærri þar sem heimavist er þó ekki til staðar. Hins vegar væri jöfnunarstyrkur til hvers nemanda í þeim fjölbrautaskóla sem ég tók dæmi af hér áðan, greiddur í febrúar eða mars á þessu ári, um 11 þús. kr. á nemanda fyrir allt árið 1985. Greiðsla fyrir árið 1986 verður væntanlega ekki greidd út fyrr en í upphafi næsta árs, en upphæðin verður svipuð. Í þessum skóla dugar því jöfnunarstyrkurinn því sem næst fyrir uppihaldskostnaði eins mánaðar, en skólarnir eru 8-9 mánaða skólar.

Af þessu sést í hvert óefni er komið í þessum efnum. Sjálfur þekki ég af eigin raun vel til þessa máls þar sem ég hef átt börn í framhaldsnámi fjarri heimabyggð s.l. vetur og á raunar enn og ég þekki einnig til fleiri en einnar fjölskyldu er berst í bökkum vegna kostnaðarsamrar skólagöngu unglinga fjarri heimabyggð og veit dæmi til þess að nemendur hafa ekki treyst sér í framhaldsnám vegna kostnaðar við uppihald. Slík dæmi þekkja eflaust fleiri hv. þingdeildarmenn.

Þá má nefna í þessu sambandi þá mörgu er flutt hafa búferlum af landsbyggðinni til að geta fylgt eftir börnum sínum er leitað hafa t.d. hingað suður til framhaldsnáms. Þungbær uppihaldskostnaður framhaldsskólanema á þess vegna ekki lítinn þátt í þeim búferlaflutningum sem til komnir eru af þeim sökum.

Verði þetta frv. samþykkt, sem ég vona að verði, verður það vissulega stórt spor til jöfnunar á aðstöðu til náms, en greinilegt er að það hefur verið upphaflegt markmið með lagasetningunni á árinu 1972. Það markmið hlýtur enn að vera í fullu gildi þótt fjármunir til að ná því fram hafi verið skornir svo mjög við nögl að undanförnu.

Með samþykkt frv. væri tryggt að námsstyrkir til jöfnunar næmu að lágmarki helmingi áætlaðs fæðis og húsnæðiskostnaðar. Þar með væru fjárupphæðir til jöfnunar á námskostnaði ekki lengur háðar duttlungum fjárveitingavaldsins á hverjum tíma.

Ég legg svo til að að lokinni umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og menntmn.