17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

141. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er flutt af hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og Kolbrúnu Jónsdóttur auk mín. Efnislega samhljóða frv. var flutt á 105. og 106. löggjafarþingi, en fékk ekki afgreiðslu.

Mér sýnist að áður hafi verið full þörf á breytingum í þá átt sem frv. gerir ráð fyrir, en nú sé það mikil nauðsyn. Við sjáum vandræðin sem hljótast af núverandi kerfum allt í kringum okkur.

Meginmarkmið frv. er að veita kjósendum sem allra mest valfrelsi við kosningar til Alþingis og til sveitarstjórna, gefa þeim kost á að ráða alfarið röðun frambjóðanda á viðkomandi framboðslista um leið og kosning fer fram.

Á síðari árum hafa kröfur um persónuval í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna farið mjög vaxandi og er það af hinu góða að mati flm.

Kjósendur una því ekki lengur að fáir menn raði frambjóðendum á lista og þeir láta sér ekki lengur lynda að geta einungis valið á milli flokka. Þeir vilja einnig velja á milli frambjóðenda.

Flestir stjórnmálaflokkar hafa reynt að koma til móts við þessar kröfur með prófkjörum í ýmsum myndum, opnum prófkjörum þar sem allir 18 ára og eldri, í sumum tilvikum jafnvel 16 ára, mega taka þátt, hálfopnum prófkjörum þar sem flokksbundið fólk og þeir sem skrifa sig á sérstakan stuðningsmannalista mega taka þátt, lokuðum prófkjörum þar sem flokksbundnum einum er heimil þátttaka og prófkjörum innan fulltrúaráða eða stækkaðra fulltrúaráða o.s.frv. o.s.frv. Sumir flokkar notast við ýmiss konar forvöl og skoðanakannanir meðal flokksbundinna manna einna.

Allt er þetta til bóta frá því sem áður var þegar fáir einstaklingar réðu í raun hverjir komust á lista og í hvaða röð. Ýmsir gallar hafa þó komið í ljós við þessar aðferðir. Í fyrsta lagi eru í mörgum tilvikum of fáir í framboði í prófkjörum og í of fá sæti til að kjósendur fái umtalsvert valfrelsi. Í öðru lagi fylgir prófkjörunum gjarnan verulegt umstang og umtalsverður kostnaður sem betur væri varið á öðrum sviðum stjórnmálastarfseminnar. Í þriðja lagi geta og hafa mikil sárindi samherja hlotist af prófkjörunum og undirbúningi þeirra. Hafa slík sárindi jafnvel leitt til klofnings flokka í kjördæmum. Í fjórða lagi hafa ýmsir, sem alls ekki ætla sér að styðja viðkomandi flokk í kosningum og eru jafnvel flokksbundnir í öðrum flokkum, reynt að hafa áhrif á röð frambjóðenda annarra flokka og í sumum tilvikum a.m.k. með það í huga að gera þeim flokki óleik.

Ýmsar þjóðir hafa tekið tillit til óska kjósenda að þessu leyti í kosningalögum sínum, t.d. Danir og Írar. Á Írlandi kjósa menn annars vegar lista og ræður sú kosning hve marga frambjóðendur hver flokkur fær kjörna í viðkomandi kjördæmi. Hins vegar raða kjósendur frambjóðendum upp að vissu marki ef þeim svo sýnist og ræður það röð frambjóðenda á hverjum lista. Kjósendur mega einnig að vissu marki raða mönnum á listum sem þeir ekki kjósa.

Margt gott má um þetta kerfi segja, t.d. það að kjósendur geta stuðlað að kosningu góðra manna, að þeirra mati, þótt þeir séu á öðrum framboðslista en þeim sem þeir annars kjósa. Menn finna írska kerfinu það helst til foráttu að það sé flókið í framkvæmd og að vafasamt sé að leyfa kjósendum að raða frambjóðendum flokka sem þeir alls ekki styðja. Það vald mætti allt eins nota til neikvæðra hluta eins og jákvæðra, allt eins til þess að spilla fyrir öðrum flokkum eins og til þess að styðja góða menn að mati viðkomandi kjósenda. Það að kerfið sé flókið í framkvæmd á varla við lengur þegar komið er fram á tölvuöld þannig að þau rök eru ekki lengur í gildi.

Í Danmörku er sá háttur á hafður að flokkarnir ráða því sjálfir hvort þeir bjóða fram raðaða eða óraðaða lista. Allir flokkar þar í landi að tveim smáflokkum undanskildum bjóða fram óraðaða lista og hafa ekki hug á að breyta til fyrra fyrirkomulags aftur. Þó flokkur bjóði fram óraðaða lista má hann ákveða efsta mann listans sem nokkurs konar vísbendingu til kjósenda um hvern flokkurinn kýs að hafa í efsta sæti. Að öðru leyti breytir það engu um endanlega röð frambjóðenda. Kjósendur ráða því alfarið sjálfir hvort og þá að hve miklu leyti þeir vilja hafa áhrif á röð listans. U.þ.b. helmingur kjósenda í Danmörku nýtir sér þann rétt og ræður þar með röð listanna.

Virðulegi forseti. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að flokkarnir skuli leggja fram óraðaða lista. Þeir leggi listana fram í stafrófsröð en yfirkjörstjórn hluti til um hvaða nöfn í stafrófsröðinni verði efst á hverjum lista á sama hátt og gert er á hinu háa Alþingi þegar atkvæðagreiðsla fer fram með nafnakalli. Vilji kjósandi raða kjósendum á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn einn fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna tvo fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni o.s.frv. að svo miklu leyti sem hann vill ráða röð frambjóðenda. Kjósendur hafa sem sagt algerlega óbundnar hendur um hvort og að hve miklu leyti þeir vilja ráða röð listans. Þeir þurfa ekki að gera það. Þeir mega velja efsta mann, efstu tvo o.s.frv. og þeir mega ráða öllum nöfnum á listanum ef þeim svo sýnist.

Til að finna hverjir frambjóðenda hafa náð kosningu á hverjum lista í kjördæmi skal reikna frambjóðendum atkvæðatölu þannig: Yfirkjörstjórn telur fyrst saman alla kjörseðla hvers lista til að ákveða hvort og þá hve marga þingmenn eða sveitarstjórnarmenn hver listi fær kjörna. Síðan raðar yfirkjörstjórn frambjóðendum á lista þannig: Efstur er sá sem flestir kjósendur hafa merkt við í fyrsta sæti, annar sá sem flestir kjósendur hafa merkt við í fyrsta og annað sæti að atkvæðum efsta manns frátöldum o.s.frv. Frv. gerir sem sagt ráð fyrir því að kjósendur viðkomandi framboðslista ráði einir röðun listans og prófkjör verða þá með öllu óþörf.

Ekki skal því haldið fram að sú leið sem frv. gerir ráð fyrir leysi allan vanda, en ókostir leiðarinnar eru smávægilegir í samanburði við þá galla sem prófkjörum eru samfara og þá annmarka sem fylgja því að hafa engin prófkjör.

Árið 1977 flutti Jón Skaftason frv. sem gekk í svipaða átt og það frv. sem hér er til umræðu. Það fékk mikla umræðu á þingi veturinn 1977-1978, en hlaut ekki afgreiðslu.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að flokkarnir skuli leggja fram óraðaða lista. Það mætti auðvitað hugsa sér að flokkarnir réðu því sjálfir hvort þeir leggja fram raðaða eða óraðaða lista eins og dönsku lögin gera ráð fyrir. Ég sting þessu að hv. allshn. sem kemur til með að fjalla um málið. Það getur verið að það sé auðveldara fyrir hv. þm. að samþykkja frv. þannig. En ég er viss um að þróunin yrði eftir sem áður eins og í Danmörku, að allir alvöru stjórnmálaflokkar muni velja það að leggja fram óraðaða lista. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Oft hefur verið þörf á breytingu í þá átt sem frv. gerir ráð fyrir, en nú er það nauðsyn.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði eftir þessa umræðu vísað til allshn. og til 2. umr.