17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

141. mál, kosningar til Alþingis

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er vissulega hreyft stóru og þýðingarmiklu máli og hugmyndin í fyllsta máta allrar athygli verð þó að ég geri að vísu nokkra athugasemd um hversu langt skuli ganga. Aðalvangaveltur hv. 1. flm. gengu reyndar út á það hvort hér ætti að vera eingöngu um að ræða frá hálfu flokkanna óraðaða lista með öllu eða hvort þeir ættu einhverju þar um að ráða. Það er, eins og hann drap á, ekki nýtt að menn reyni að finna leið til þessa margfræga valfrelsis kjósenda um að velja hina bestu menn og þá sem það vill helst, eins og það er stundum orðað. Hann minnti á frv. hv. fyrrv. þm. Jóns Skaftasonar í þessu efni. Ég man eftir að ég var meðflm. hv. þm. Ragnars Arnalds að svipuðu máli á sínum tíma þar sem hugmyndir af þessu tagi voru reifaðar. Ég man líka glöggt eftir að undirtektir þá við þær hugmyndir voru ekki miklar, enda voru menn þá að sigla inn í tíma prófkjöranna. Þá voru prófkjörin í algleymingi. Þau áttu að leysa allan vanda. Allt átti að ákveðast fyrir fram. Það var þess vegna óraunhæft að vera að hugsa til þess að menn leystu þessi mál með röðun á lista á eftir. Sannleikurinn var sá að menn gengu svo langt, m.a. í flokki hv. þm., að telja að það væri út af fyrir sig alveg útilokað að hægt væri að koma fram sómasamlegum lista nema með því að viðhafa prófkjör og það svo, að í því mættu allir taka þátt sem á annað borð hefðu kosningarrétt, því að í þessu gilti það að það væri fólkið en ekki flokkarnir, þ.e. það góða fólk en ekki þessir vondu flokkar, sem ætti að ráða því hverjir væru á framboðslista.

Auðvitað vitum við að hér var um oftúlkun að ræða á þessu. Það hefur margt breyst á langri leið. Ekki skal ég draga úr þeim óheillavænlegu áhrifum sem prófkjör hafa haft og þeim skrípaleik sem maður sér stundum í sambandi við prófkjör. Ég ætla ekkert að dæma um hvort fólkið velji endilega bestu mennina, það er ekki mitt að dæma um það, í þessum prófkjörum, en stundum læðist að manni meira að segja efi um að þetta ágæta fólk velji endilega þá allra bestu í öllum tilvikum.

Það er hins vegar alveg ljóst að prófkjör með því formi sem menn vildu hafa eru gengin sér til húðar, að menn engjast í raun og veru í þessu í dag. Menn eru jafnvel komnir það langt, eins og menn þekkja, að hér er orðið um stórkostlegt fjárhagslegt atriði að ræða. Þá er nú langt gengið ef við ætlum að „ameríkanisera“ okkur. svo rækilega að hingað inn komist helst engir aðrir en þeir sem geta lagt nógu mikla peninga í prófkjörsbaráttu, ef það gengur svo langt.

Ég er á þeirri skoðun að vitanlega eigi flokkarnir hér um að véla að miklu leyti, hvort sem við gefum kjósendum svo ákveðið valfrelsi á eftir um að hafa áhrif á sinn lista sem er auðvitað mjög takmarkað í dag, næstum útilokað að hafa nokkur teljandi áhrif á það ef fólk er óánægt á annað borð. Vitanlega eru þetta ekki bara frambjóðendur fólksins. Þetta eru frambjóðendur tiltekinna flokka sem flokkarnir velja sér. Hins vegar skal tekið undir að ákveðið val fólks varðandi þetta er vel athugandi og ég tek undir hugmyndir af því tagi.

Hitt er svo annað mál og til umhugsunar okkur sem sitjum hér í dag og þeirra sem eiga hér eftir að sitja hvort í gegnum allt þetta lýðræði hafi fengist betra fólk til setu á Alþingi en áður var þegar þröngur hópur réði því hverjir þar áttu sæti. Þegar ég hitti a.m.k. hinn almenna borgara úti í þjóðfélaginu í dag, að ég nú tali ekki um þegar ég les lesendabréfin þar sem hins liðna tíma er minnst með miklum söknuði, þegar verið er að geta um hina fornu skörunga sem nú sjáist ekki lengur á Alþingi, þessa skörunga sem voru valdir af þessum þrönga hóp, set ég spurningarmerki um hvort þetta margfræga blessaða lýðræði hafi í raun og veru leitt til þess að við losnuðum við skörungana en fengjum meðalmennskuna í staðinn.