17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

141. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur B. Óskarsson:

Virðulegi forseti. Hér er flutt athyglisvert mál að mínu mati og ég tek undir það með hv. 1. flm. að oft hafi verið þörf á að flytja slíkt mál en nú sé það nauðsyn. Þá lít ég til þess sem blasað hefur við í fréttum fjölmiðla nokkurn tíma undanfarið um mjög hatrömm átök sums staðar um framboðsmál flokkanna. Þó að þetta fylli ágætlega upp í fréttatíma fjölmiðlanna er ekki þar með sagt að það sé alls kostar æskilegt.

Í þessu frv. felst leið sem ég hef lengi verið fylgjandi og oft talað fyrir í umræðum innan míns flokks. Ég fagna því að þetta frv. er lagt fram og skora á hv. þm. að taka það til mjög gaumgæfilegrar athugunar.

Það hafa lengi verið uppi kröfur kjósenda um aukinn rétt til að hafa áhrif á val sinna þingmanna, persónulegt val. Prófkjörin, eins og drepið hefur verið hér á, eru sú leið sem hefur verið mest í tísku undanfarið, en á þeim hafa þótt ýmsir agnúar nú í seinni tíð. Er það mála sannast að sérstaklega hér á Reykjavíkursvæðinu eru þessi prófkjör komin út í hreina vitleysu þar sem það er orðið slíkt fjárhagslegt fyrirtæki að taka þátt í þeim að það er orðið á fárra færi nema þá að þeir hafi einhverja fjársterka aðila á bak við sig sem kosti þetta. Það verður að teljast heldur óæskilegt. Ef svo væri og frambjóðandi næði árangri, kæmist á þing hugsanlega út á þetta, er líklegt að viðkomandi fjársterkir aðilar teldu sig eiga einhverja hönk upp í bakið á þeim frambjóðendum sem þannig væru studdir.

Með þessu frv. er það nánast alfarið lagt í vald þeirra sem kjósa framboðslistann hverjir af honum ná kosningu. Ég tel þetta fullkomlega koma til greina. Ég álít að miðað við að það sé lagður fram listi með tvöfaldri tölu kjörinna manna þá fari inn á þann framboðslista flestallir eða allir þeir sem hafa eitthvert marktækt fylgi á bak við sig innan viðkomandi stjórnmálaflokks í því kjördæmi. Þar með verði komist að verulegu leyti hjá þeim átökum sem eru í dag um skipan framboðslistanna. Í öðru lagi leggur þetta fyrirkomulag verulega miklar skyldur á herðar frambjóðenda um starfshætti í kosningunum. Það hefur verið fundið þessu fyrirkomulagi til foráttu að mönnum þyki það ógæfulegt að frambjóðendur séu að berjast innbyrðis um sæti í kosningabaráttunni sjálfri. En ég er ekki sammála því að þar sé um verulegan galla að ræða því þetta bindur menn við það að vinna fyrst og fremst málefnalega að þeim málefnum sem viðkomandi flokkur berst fyrir, en séu beinlínis tilneyddir að þoka til hliðar ýmsum persónulegum viðhorfum og því sem sumir kalla framapot.

Það kom fram í framsöguræðu að áður hefðu verið flutt frv. svipaðs eðlis eða eins, en þau hafi dagað uppi, eins og svo er kallað, hér á hv. Alþingi. Mér kemur það ekki mjög á óvart því líklegast er að sitjandi þingmenn séu ekki stórhrifnir af því að leggja höfuð sitt undir þá fallöxi sem í þessu gæti falist, að undanteknum kannske varaþingmönnum. En miðað við þá þróun sem hefur verið í framboðsmálum að undanförnu og ég gat um áðan og það neikvæða viðhorf til stjórnmála almennt sem þetta leiðir af sér legg ég til að menn íhugi mjög alvarlega þá leið sem hér er lögð til.