17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

141. mál, kosningar til Alþingis

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft stórmerkilegu máli sem ég hygg að allflestir þm. þyrftu að tjá sig dálítið um því það snertir flesta okkar og hefur gert að undanförnu.

Ég minnist þess þegar ég barðist fyrir því fyrir allmörgum árum í Alþfl. að upp yrði tekið prófkjör við val frambjóðenda á framboðslista flokksins. Þá var ég þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag, það form mundi leysa mjög verulegan vanda sem við töldum vera við val frambjóðenda vegna þess að við litum svo til, sem þá vorum yngri menn í flokknum, að það væri fámenn valdaklíka í flokknum sem sæi um listann hverju sinni, hvernig hann yrði, hvernig hann liti út, hvaða menn veldust á hann. Ég verð að játa að það voru ekki liðin mörg ár frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp og að ég var farinn að hafa mjög miklar efasemdir um það. Þær efasemdir mínar hafa nú orðið að þeim veruleika að ég er mjög andsnúinn prófkjörum í þeirri mynd sem þau eru háð um þessar mundir.

Ég held að síðasti hv. ræðumaður hafi komist að kjarna málsins þegar hann sagði að þær aðferðir sem hafa verið notaðar við val á frambjóðendum á framboðslista stjórnmálaflokkanna hafi stórskaðað stjórnmálastarfið í landinu. Það held ég að sé kjarni þess máls sem við erum að ræða hér og kannske kjarni þess sem hið háa Alþingi ætti að tala um nokkuð oftar en það gerir. Mér hefur virst í þeim prófkjörum, opnum, lokuðum, forvölum, skoðanakönnunum í smáum hópum og stórum, sem hafa verið notuð, að þessar aðferðir hafi oft snúist upp í það að verða eins konar hringleikahús, fjölmiðlum og ýmsu fólki í landinu til skemmtunar, en starfandi mönnum innan stjórnmálaflokka, þingmönnum og þinginu öllu til skammar og sárrar raunar. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að flokkarnir séu komnir í sjálfheldu með val á framboðslista og það sverð sem gæti höggvið á þann hnút, sem flokkarnir eru komnir í, væri virkilega þess virði að beita og beita því rösklega.

Mér finnst satt að segja þau óþrif sem hafa safnast í kringum prófkjör á allra síðustu árum vera orðin slík að ekki sé þolandi miklu lengur. Vegna prófkjöranna hafa komið upp hugleiðingar manna um tvennt í megindráttum. Í fyrsta lagi sú innbyrðis barátta sem hefur átt sér stað í stjórnmálaflokkunum með þeim hörmulegu afleiðingum sem við höfum oft orðið vitni að, persónulegum illdeilum og ágreiningi og sárum sem vart hafa gróið um heilt. Í öðru lagi hef ég óttast það nokkuð vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í sambandi við prófkjörin, vegna þeirra gífurlegu peningaútláta sem hafa átt sér stað í kringum þessi prófkjör, að það yrði á næstunni, ef fram heldur sem horfir, vart á færi annarra en efnamanna að komast inn á Alþingi. Ég held að í þessu sé falin mjög alvarleg hætta fyrir allt stjórnmálalíf í landinu. Ef við eigum að standa frammi fyrir þeim bandarísku staðreyndum, að enginn geti gert sér von um að komast inn á þing nema hann njóti til þess stuðnings fjármálaafla eða að hann sé sjálfur svo auðugur að hann hafi efni á því að heyja hina gífurlega kostnaðarsömu kosningabaráttu eins og hún er tíðkuð í Bandaríkjunum, ef við ætlum að fara að tíðka slíka siði hér á Íslandi er ég hræddur um að stjórnmálalífið og stjórnmálaflokkarnir séu í stórri hættu. Ég mælist eindregið til þess að hv. þm. taki þetta frv. til mjög alvarlegrar íhugunar, umhugsunar, athugunar, umræðu og finni helst einhverja lausn í anda þess sem gæti orðið breyting á þeim kosningalögum sem nú eru í gildi.

Ég hef haft af því mjög umtalsverðar áhyggjur sem áhorfandi utan þings um tæplega fjögurra ára skeið og getað fylgst með þessari stofnun, sem mér var farið að þykja verulega vænt um eftir að hafa setið hér í fimm ár, hvernig þingið hefur raunverulega orðið að lúta í lægra haldi fyrir tilteknu almenningsáliti, sem oft hefur skapast vegna þess hvernig menn hafa staðið að prófkjörum, forvali, skoðanakönnunum og hvað sem þetta heitir nú allt saman. Ég verð að viðurkenna það og játa fyrir hverjum sem er að mér þykir lakara að Alþingi Íslendinga, löggjafarsamkunda þjóðarinnar, skuli þurfa að lúta svo lágt sem hún hefur gert; því hún hefur gert það. Ég tek eindregið undir það, sem hv. þm. sagði á undan mér, að það sem hér er að gerast er farið að valda stjórnmálastarfinu í landinu stórkostlegu tjóni sem kemur m.a. fram í því að ýmsir ágætustu menn vilja hvergi koma nálægt. Þetta hrindir frá þeim mönnum sem kannske ættu fremur að eiga sæti á Alþingi en þeir sem þar sitja nú, bæði vegna andúðar á starfsaðferðunum, þeim persónulega ágreiningi og deilum sem eiga sér stað og auk þess kostnaðinum. Þau kerfi sem við höfum notað, það kerfi sem ég sjálfur barðist fyrir fyrir æðimörgum árum, tel ég úrelt, úr sér gengin og hafi í raun og veru ekki átt rétt á sér í upphafi, því miður.

Virðulegi forseti. Ég mælist eindregið til þess að þetta frv. til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis fái þá umfjöllun á hinu háa Alþingi sem það á skilið.