17.11.1986
Neðri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

150. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 3. þm. Reykv. hér áðan að vísasti vegurinn til þess að draga úr skattsvikum svo um muni sé að gera mikilsverðar umbætur í skattamálum og vil vænta þess að okkur takist nú á þessu þingi að ná því fram að veruleg nýskipan verði lögfest varðandi bæði tollskrá og að það nái fram að ganga að virðisaukaskattur verði tekinn upp í stað söluskatts sem er vitaskuld mjög þýðingarmikið atriði bæði varðandi samkeppnisútflutningsgreinar, til að styrkja stöðu þeirra, og eins til þess að unnt verði að ná til þeirra aðila sem hafa of frjálsar hendur nú og of mikla möguleika til þess að komast undan greiðslu á söluskatti.

Ég tek einnig undir það með hv. þm. að nauðsynlegt er að setja mun einfaldari reglur varðandi tekjuskattinn. En allt þetta hefur verið boðað af hæstv. fjmrh. í hans ræðu fyrir fjárlagafrv. og ég stend hér upp til þess að láta í ljósi ánægju mína yfir þeim undirtektum sem þessi nýskipan fær frá hv. þm. Þó ég á hinn bóginn geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að í því felst ekki stuðningur við einstök efnisatriði þessarar nýskipanar, þá er hann a.m.k. sammála okkur um að hún er nauðsynleg til þess að unnt verði að draga verulega úr skattsvikum og með þeim hætti gera skattbyrðina réttlátari hér á landi