17.11.1986
Neðri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

150. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Norðurl. e., lýsa ánægju minni yfir því að þessi mál skuli vera komin til umræðu á Alþingi vegna þess að það er svo sannarlega full ástæða til þess að ganga til atlögu við þau skattsvik sem hér á landi tíðkast og hafa lengi tíðkast. Nú er það svo að skattsvik fyrirfinnast í öllum þjóðfélögum og sennilega munu þau seint verða með öllu upprætt hér eða annars staðar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þær niðurstöður eru uggvænlegar sem fram komu í skýrslu fjmrh. fyrr á þessu ári, um undandrátt frá skatti hér á landi. Niðurstaða starfshóps þessa var að tap hins opinbera vegna vangoldinna skatta, beinna skatta og söluskatts, og hér vegur náttúrlega söluskatturinn í þessu dæmi mjög þungt, er áætlað 2,5–3 milljarðar króna. Og það var alveg rétt, sem hv. frsm., 3. þm. Reykv., sagði áðan, að hér er um gífurlegt fé að ræða ef það er borið saman við það fé sem til verklegra framkvæmda rennur eða til félagslegrar þjónustu. Öðruvísi mundu fjárlög líta út ef þó ekki nema hluti af þessu fé skilaði sér í ríkissjóð. Þess vegna er það mikið mál og tímabært sem er hreyft hér af hv. 3. þm. Reykv. Annað mál er það hins vegar hvaða ráðum er tækast og best að beita í þessu efni.

Í frv. því til laga sem hv. 3. þm. Reykv. hefur lagt hér fram er gert ráð fyrir stofnun Skattadóms og rannsókn skattsvikamála. Það er ein leiðin. Eins og frsm. gat um hefur þó jafnan gætt tregðu til þess hjá löggjafarvaldinu að setja á laggirnar sérdómstóla og hann sagðist einmitt sjálfur hafa verið andvígur því hér framan af en síðan hafi hann breytt um skoðun, m.a. í ljósi umfangs þeirra skattsvika sem talið er að eigi sér stað í þjóðfélaginu í dag. Það er vitanlega ein leiðin. En aðrar leiðir eru fyrir hendi. Eins og hæstv. dómsmrh. vék að er æskilegt ef unnt væri að uppræta slíkt innan núverandi kerfis vegna þeirra mörgu örðugleika sem felast í sérdómstólum, þar sem sama brotið getur ekki aðeins tekið til skattsvika heldur til margvíslegra annarra brota á hegningarlögum og raunar á öðrum lögum.

Áhrifaríkasta og nauðsynlegasta leiðin er vitanlega sú að breyta skattalögunum á þann hátt að þau verði í fyrsta lagi gerð einfaldari og í öðru lagi að skattbyrði, og þá á ég fyrst og fremst við skattbyrði einstaklinga og fjölskyldna í landinu, verði gerð mun minni og léttari. Hvort tveggja mun þetta horfa í þá átt, auk breytinga á söluskattskerfinu sem boðaðar hafa verið, að gera skattskil mun einfaldari og draga tvímælalaust úr þeim skattsvikum sem eiga sér stað í dag.

Hæstv. fjmrh. hefur í fjárlagaræðu sinni boðað umfangsmiklar breytingar á þessu sviði. Ég ætla ekki að gera þær að umtalsefni sérstaklega nú, enda eru þau frv. ekki á dagskrá. Það hefur verið boðuð framlagning frv. um staðgreiðslu skatta, um virðisaukaskatt í stað söluskattsins, og í þriðja lagi frv. sem nú hefur í dag verið dreift hér í deildinni, frv. til laga um breytingu á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, sem er 158. mál þingsins. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta síðasta mál mun horfa mjög til bóta, einnig í því efni sem hv. frsm., 3. þm. Reykv., vék að áðan. Það er vegna þess að með þessu nýja frv. um breytingar á tekjuskattinum og eignarskattinum, sem hann vék að í sinni framsöguræðu en hafði þá raunar ekki verið dreift, er gert ráð fyrir allverulegri lækkun skattbyrðar einstaklinga og heimilanna í landinu. Eins og fram kemur í grg. þess frv. munu skattleysismörk barnlausra hjóna á næsta ári af tekjum þessa árs liggja u.þ.b. við 720 000 kr., þ.e. 720 000 kr. verða tekjuskattslausar. Hjá hjónum með eitt barn eru tekjuskattsleysismörkin um 840 000 kr. Hjá hjónum með tvö börn eru tekjuskattsleysismörkin 960 000 kr. og hjá hjónum með þrjú börn eða fleiri yrðu tekjur að upphæð rúmlega 1 millj. kr. tekjuskattslausar. Ég er ekki í vafa um að þau ákvæði sem í þessu frv. felast munu eiga allnokkurn þátt í því að draga úr þeim undandrætti frá skatti sem viðgengist hefur í þjóðfélaginu til þessa.

Hér er stigið mikilsvert spor a þeirri braut að einfalda allt skattakerfi landsins og gera það mun réttlátara en það er nú. Það er sanngirnisatriði og það er atriði sem einnig hefur bein áhrif á skattsvikin í þjóðfélaginu.