16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Stefnuræða forsætisráðherra

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ísland var fyrir fáum dögum í einni svipan dregið inn í hringiðu alþjóðaatburða með fundi leiðtoga stórveldanna sem haldinn var hér í Reykjavík. Ástæðurnar fyrir því að Ísland varð vettvangur þessa mikla viðburðar eru ugglaust margar. Ein er sú að við höfum fylgt einarðri og staðfastri utanríkisstefnu og erum fyrir vikið, þótt smáir séum, virtir bæði af samherjum og andstæðingum á alþjóðavettvangi. Önnur ástæða er sú að við höfum kappkostað að rækta og varðveita eigin menningu. Þrátt fyrir smæð okkar rísum við upp úr í samfélagi þjóðanna eins og Gunnarshólmi í Njálssögu vegna þess að íslensk menning er virt. Í ölduróti umræðna um kjarnorkuflaugar og efnahagsmál er okkur hollt að leiða hugann að þessum undirstöðum eigin samfélags.

Á sama tíma og við sýnum umheiminum stjórnarfarslega og menningarlega reisn getum við státað af því við þá sem flytja fréttir um víða veröld að okkur hefur tekist að vinna okkur út úr efnahagslegri ringulreið og kreppu. Við höfum kynnt umheiminum gróandi þjóðlíf, bjartsýni og áræðni í nýrri framfarasókn Íslendinga. Við getum sannarlega verið stoltir af því um þessar mundir að vera Íslendingar.

Það er á annan veg umhorfs nú en þegar þessi ríkisstjórn tók við fyrir rúmum þremur árum. Nú er vaxandi framleiðsla og verðmætasköpun, kaupmáttur hefur aukist hröðum skrefum tvö ár í röð og er nú meiri en nokkru sinni fyrr og reyndar langt umfram það sem menn höfðu samið um í kjarasamningum. Við sjáum umskiptin einnig í betri afkomu fyrirtækja og minni verðbólgu og meiri sparnaði. Frá hrikalegum viðskiptahalla 1982 horfum við fram til þess að ná jöfnuði í viðskiptum við aðrar þjóðir á næsta ári.

Allt verður þetta að teljast umtalsverður árangur. Nú skiptir mestu að varðveita þennan árangur, að byggja upp á þeim grunni sem lagður hefur verið. Þó að birt hafi yfir eftir éljagang þurfum við að gæta okkar. Spennum við bogann of hátt munum við aftur missa stjórn á efnahagsþróuninni þó að ytri aðstæður séu hagstæðar. Á öllum sviðum verðum við því að stilla útgjöldum okkar og kröfum í hóf, hvort sem er á heimilum, í fyrirtækjum eða ríkisbúskapnum sjálfum.

En hver eru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessum miklu umskiptum sem orðið hafa? Allan þann orðaflaum má reyndar draga saman í eina setningu. Stjórnarandstaðan hefur ekki annað að segja fólkinu í landinu en að það megi ekki fyrir nokkra muni trúa því að þetta sé ríkisstjórninni að þakka. Í góðærinu 1980 til 1981 missti þáverandi ríkisstjórn öll tök á framvindu efnahagsmálanna. Spurningin er því ekki einungis sú hvort um góðæri sé að ræða heldur hvernig það er nýtt. Auðvitað hafa ytri skilyrði gengið okkur í haginn. Þau hafa sannarlega skipt sköpum. En ringulreiðin og óðaverðbólgan væri auðvitað enn í algleymingi ef ekki hefði verið breytt um stjórnarstefnu. Það varð grundvallarbreyting með því að hverfa frá daglegum gengislækkunum til stöðugleika í gengismálum. Það var gerð grundvallarbreyting með auknu frjálsræði í peningamálum sem hefur leitt til stóraukins sparnaðar. Grundvallarbreyting var gerð þegar tilboð um þjóðarsátt með skattalækkunum í tengslum við kjarasamninga var fyrst sett fram haustið 1984, þá án árangurs en nú með skilningi og þátttöku þjóðarinnar allrar. Án þessara grundvallarbreytinga værum við enn að tala um vaxandi verðbólgu og þar af leiðandi rýrnandi kaupmátt þrátt fyrir batnandi árferði.

Ríkisstjórnin hefur fyrir atbeina sjálfstæðismanna, eins og Hjörleifur Guttormsson benti á í ræðu sinni, leitast við að losa um miðstýringu og höft. Frelsi hefur verið aukið í verðlagsmálum, gjaldeyrismálum og peningamálum. Óhætt er að fullyrða að jafnmiklar breytingar hafa ekki verið gerðar í þessa veru síðan viðreisn var gerð fyrir meira en aldarfjórðungi. Við værum ekki að tala um jöfnuð í viðskiptum við útlönd, minni erlendar skuldir og því síður aukinn sparnað ef þessar grundvallarbreytingar hefðu ekki átt sér stað.

En frelsi hefur verið aukið á fleiri sviðum en í verslun og viðskiptum. Þar ber hæst útvarpsfrelsið. Fyrir forgöngu sjálfstæðismanna var útvarpseinokun ríkisins afnumin. Fyrir vikið blása nú nýir og ferskir vindar í íslensku þjóðlífi. Afturhaldsöflin hér á Alþingi fyrirverða sig hins vegar fyrir andstöðuna og Alþfl. reynir að gleyma því að hann gerði allt sem hann gat til að bregða fæti fyrir frjálsan útvarpsrekstur. Á sama tíma er tekin ákvörðun um að stórauka framlög til Kvikmyndasjóðs. Myndmálið verður stöðugt fyrirferðarmeira í íslensku þjóðlífi. Þar fléttast saman list og tækni. Ef við ætlum að halda áfram að byggja upp íslenskt menningarsamfélag verðum við að hlúa að íslenskri listsköpun á þessu sviði. Allar eru þessar breytingar samofnar og miða að því að auka tjáningarfrelsi og styrkja íslenska menningu.

Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun í byrjun þessa árs að opna dyr fyrir aðila vinnumarkaðarins með umfangsmiklum skattalækkunum og fjármunatilfærslum í því skyni að færa niður verðlag. Það var tekin um það pólitísk ákvörðun að fórna markmiðinu um hallalausan ríkisbúskap til þess að ná öðrum mikilvægum efnahagslegum áformum. Þessar aðgerðir voru lykillinn að þjóðarsáttinni og minnkandi verðbólgu og þar af leiðandi auknum kaupmætti. Hallinn hefur orðið nokkru meiri en ráð var fyrir gert vegna aukinna aðgerða í því skyni að færa niður verðlag og enn fremur vegna þess að laun opinberra starfsmanna hafa hækkað meira en ráð var fyrir gert í kjarasamningum.

Þrátt fyrir þær umfangsmiklu aðgerðir sem þannig voru ákveðnar í tengslum við kjarasamninga er hallinn nú á þessu ári umtalsvert minni en í fyrra og fjárlagafrv. sem liggur fyrir gerir ráð fyrir því að hallinn á næsta ári verði u.þ.b. þriðjungi minni en á þessu ári. Þrátt fyrir hallann eru opinberir aðilar nú í fyrsta skipti um langt árabil að grynnka á erlendum skuldum sínum, að greiða meira niður en þeir taka af nýjum erlendum lánum. Þetta er stór og mikilsverður áfangi.

Stjórnarandstaðan býsnast hvað hún getur yfir fjárlagahallanum. En hver eru hennar úrræði? Var hún á móti því að ríkisstjórnin sneri lyklinum til þess að opna dyrnar að þjóðarsáttinni? Vill hún taka þær skattalækkanir til baka? Hvernig samrýmist það gagnrýninni á hallann að vera um leið á móti öllum niðurskurði sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir?

Ég mælti í gær fyrir lagabreytingum þar sem fjöldi laga er gerður óvirkur að hluta til í því skyni að stemma stigu við meiri ríkissjóðshalla. Bæði talsmenn Alþb. og Alþfl. hafa lýst harðri andstöðu við allan þennan niðurskurð. Hvernig kemur það heim og saman við áhyggjur þeirra af ríkissjóðshallanum? Stjórnarandstaðan gagnrýnir að ríkissjóður skuli gera tilkall til þess að njóta batnandi viðskiptakjara að nokkrum hluta með því að leggja á sérstakan skatt á innflutt eldsneyti. Vilja þeir með þessari andstöðu auka halla ríkissjóðs eða ætla þeir að hækka einhverja aðra skatta? Vilja þeir heldur ná þessum tekjum með því að stórhækka eignarskatta á þorra fjölskyldna í landinu sem komið hafa sér upp eigin húsnæði? Við þessu fást auðvitað engin svör.

Talsmenn Alþfl. tala fjálglega um að verulega skorti á að kerfisbreytingar hafi verið gerðar til þess að lækka útgjöld ríkisins. Þeir fluttu tillögur við afgreiðslu síðustu fjárlaga um kerfisbreytingar sem þeir kalla svo og stagast á í hverri ræðu sem þeir flytja hér á hinu háa Alþingi og á fundum úti um landsbyggðina.

Í þessum tillögum sagði um Kennaraháskóla Íslands: Liðurinn falli niður. Svo einfalt var það. En á öðrum stað var lagt til að jafnhá upphæð bættist við útgjöld Háskóla Íslands. Niðurstaðan var: enginn niðurskurður. Þeir lögðu til að fjárlagaliðirnir Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands yrðu felldir niður. Nokkrum vikum seinna fluttu þeir þáltill. þar sem þeir lögðu til að athugað yrði hvort unnt væri að leggja niður eða hætta framlögum til Búnaðarfélagsins og Fiskifélagsins. Niðurstaðan af öllu þessu kerfisbreytingartali þeirra er því verri en núll. Ég hef látið reikna út áhrifin af því ef allar tillögur Alþfl. um breytingar á fjárlögum hefðu verið samþykktar. Niðurstaðan er sú að hallinn á fjárlagafrv. væri 467 millj. kr. meiri. Ef allar þessar margumtöluðu kerfisbreytingartillögur Alþfl. hefðu verið samþykktar væri hallinn 467 millj. kr. meiri en hann er. Eigi sá draumur formanns Alþfl. að rætast að setjast í stól fjmrh. eftir næstu kosningar þarf hann sannarlega að lúta forustu aðhaldssamari samstarfsmanna en hann er sjálfur.

Að undanförnu hafa orðið talsverðar umræður um skattamál. Í því efni er rétt að minna á að tollar hafa verið lækkaðir af ýmsum helstu neyslu- og fjárfestingarvörum heimilanna, að skattar hafa verið lækkaðir á atvinnufyrirtækjum, svo sem launaskattur og verðjöfnunargjald á raforku, að skattívilnanir hafa verið gerðar vegna kaupa á hlutabréfum og aukinnar fjárfestingar í atvinnurekstri, að skattbyrði tekjuskatts er nú fjórðungi minni en 1982 og í morgun lagði ég fyrir ríkisstjórnina hugmyndir um útfærslu á lækkun tekjuskatts í samræmi við þær tillögur sem fyrir liggja í fjárlagafrv. Megindrættir þeirra hugmynda eru þessir:

1. Að lækka skatthlutföll. Þau gætu farið úr 43,5% í 39% í efsta þrepi og úr 30,5% niður í 29% í miðþrepi og úr 19,5% niður í 19% í því neðsta.

2. Að hækka mörkin milli þrepa umfram breytingar á launum. Er þá í athugun að lægri mörkin verði um 400 þús. kr. og þau efri um 800 þús. kr.

3. Að breyta persónufrádrætti og barnabótum með hliðsjón af áætluðum breytingum launa milli áranna 1986 og 1987 og með tilliti til áformaðrar lækkunar tekjuskatts þannig að æskileg dreifing náist.

Tilgangur þessara breytinga er tvíþættur. Annars vegar aðlögun skattkerfisins að breyttum aðstæðum í launa- og verðlagsmálum í lækkandi verðbólgu og hins vegar að lækka skattbyrði af tekjuskatti um 300 millj. kr. Auk þeirra áhrifa sem felast í framangreindum breytingum og koma fram í verulegri lækkun á jaðarskatti munu skattleysismörk hækka. Þannig má ætla að hjón með tvö börn, sem hafa allt að 60-70 þús. kr. á mánuði að jafnaði á þessu ári, muni ekki greiða tekjuskatt eða útsvar á næsta ári.

Samhliða er á næstunni von á tillögum um virðisaukaskatt í stað söluskatts og nýrri tollalöggjöf með samræmdri tollskrá. Þannig er í undirbúningi heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins enda óumdeilt að það kerfi sem nú er stuðst við fær ekki staðist lengur. Sjálfstfl. mun á hinn bóginn standa gegn öllum kröfum um stórhækkun eignarskatta og um það er meginágreiningur milli Sjálfstfl. og annarra flokka hér í þinginu. Þreföldun eignarskatta mundi leggjast með miklum þunga á meginþorra allra heimila í landinu. Það væri ranglát og ósanngjörn skattheimta.

Herra forseti. Það er gróska í þjóðlífinu. Það er framfarahugur í fólkinu í landinu. Íslendingar eru bjartsýnir og þeir hafa ástæðu til þess að vera stoltir og ánægðir, en það er leitt að stjórnarandstaðan er fýld yfir þessu öllu saman. Það er nánast það eina sem skyggir á um þessar mundir.