18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

112. mál, hússtjórnarfræðsla

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Vegna hinna miklu breytinga sem orðið hafa á framhaldsskólakerfi landsins s.l. áratug með auknu námsframboði í öllum landshlutum hefur aðsókn að hússtjórnarskólum minnkað stöðugt og undanfarin ár hefur aðsókn að hefðbundnu hússtjórnarnámi verið svo takmörkuð að ekki þótti fært að halda áfram rekstri umræddra hússtjórnarskóla sem hv. fyrirspyrjandi nefnir í fsp. sinni. Tveir hússtjórnarskólar starfa nú með hefðbundnum hætti og bjóða upp á þriggja mánaða hússtjórnarnámskeið. Þetta eru hússtjórnarskólarnir á Hallormsstað og í Reykjavík. Auk þess er í þessum skólum boðið upp á styttri námskeið í matreiðslu, vefnaði o.fl. Við hússtjórnarskólann á Ísafirði fer ekki fram hefðbundið hússtjórnarnám en þar er haldið uppi styttri námskeiðum fyrir almenning. Geta má þess að Hússtjórnarskóli Akureyrar var einn af þeim skólum þar í bæ sem sameinuðust í Verkmenntaskóla Akureyrar og er húsnæði hans nýtt til kennslu á hússtjórnarsviði.

Það hefur verið ljóst undanfarin ár að hefðbundin hússtjórnarfræðsla í hússtjórnarskólunum hefur ekki laðað til sín nemendur. Því var orðið brýnt að huga að flutningi þessa mikilvæga náms inn í almenna framhaldsskóla, að færa það til nemendanna.

Ég skipaði í haust starfshóp til að gera áætlun um nám í hússtjórnar- og heimilisfræði í framhaldsskólunum, einkum þó í fjölbrautaskólunum. Formaður nefndarinnar er Þór Vigfússon, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en með honum Ingibjörg Þórarinsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, tilnefnd af Bandalagi kvenna, og Gerður Hulda Jóhannsdóttir, tilnefnd að Hússtjórnarkennarafélagi Íslands. Er starfshópnum í erindisbréfi falið að hafa samráð og samvinnu við alla þá aðila sem starfa að þessum málum, bæði innan skólakerfisins og utan, og hraða starfi eftir föngum.