18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

126. mál, samningaviðræður tannlækna og Tryggingastofnunar

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin og lýsi ánægju minni yfir því að aukin áhersla er lögð á fræðslu og til að bæta tannheilsu landsmanna með auknum framlögum úr Tannverndarsjóði og einnig að nú skuli verða teknar upp viðræður á allra næstu dögum, eins og ráðherra orðaði það, því að ég held að þær deilur, sem hafa átt sér stað að undanförnu, hafi því miður markað spor sín á það starf sem þó hefur farið fram hingað til varðandi skólatannlækningar. Það má bara nefna deilur um eyðublöð. Nú kom það fram í gærkvöld í útvarpi að tannlæknar færu fram á 500 kr. fyrir að fylla út eyðublöð. Deilur gera því oft mjög erfitt fyrir. Því vil ég endurtaka ánægju mína með þau svör hæstv. ráðh. að nú verði sest niður og ekki verði framvegis notaðar afsakanir eins og þær að menn séu jafnvel í sumarfríum. Það verður þá að koma maður í stað. Það má ekki verða orsök þess að samningaviðræður geti ekki átt sér stað um brýnt mál eins og þetta, án þess að ég taki nokkra afstöðu til þess hver hefur rangt eða rétt fyrir sér.