18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

127. mál, lyfjakostnaður

Fyrirspyrjandi (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 133 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um hvort í undirbúningi sé að gera ráðstafanir til að lækka lyfjakostnað hér á landi. Nú þegar ber ríkið gífurlegan kostnað af lyfjum. Áætlað er að það muni verða um 1 milljarður á þessu ári. Það gefur auga leið að ef hægt væri að lækka þennan lið gæti það haft veruleg áhrif á framlög á fjárlögum. Fyrir utan þetta er kostnaður sem sjúklingar bera sjálfir.

Í upplýsingum frá landlækni kemur fram að algengt er að fólk noti a.m.k. um 1000 kr. á mánuði til lyfjakaupa, þ.e. verulegur hluti af fólki á aldrinum 18-70 ára, um það bil 20%, greiðir um 1000 kr. á mánuði fyrir lyf. Í þessum hópi eru að sjálfsögðu margir öryrkjar og aðrir þeir sem ekki eiga auðvelt með miklar greiðslur.

Í heild verður að segja að lyfjakostnaður hér á landi er óeðlilega hár. upplýsingum frá landlækni kemur fram að smásöluálagning, um 68% sem nú er, sé varla réttlætanleg hvernig sem á það mál er litið. Er þetta allmiklu hærra en gerist annars staðar í Vestur-Evrópu þar sem algeng álagning er 28-37% .

Þá hefur einnig verið rætt um að svokallað afhendingargjald, sem mun vera 32 kr. á hvert lyf, geti numið verulegum upphæðum. Í dæmi sem landlæknir hefur tekið af einu algengu krabbameinslyfi kemur í ljós að ef það er notað í hálft ár daglega, viss skammtur, er afhendingarkostnaðurinn 60 þús. kr. til lyfsalans. Þá er ekki verð lyfsins þar innifalið. Það bætist ofan á. Það er því augljóst mál að frá hvaða sjónarmiði sem er er mjög nauðsynlegt að lækka þennan lið og einnig að taka til athugunar hve lítill munur er á þeim lyfjum sem framleidd eru hér úr þekktum prófuðum lyfjaefnum og þeim lyfjum sams konar sem koma erlendis frá. Framleiðsla hér er í því fólgin að útbúa lyfjaform, töflur, stungulyf o.s.frv., sem áður er vitað að eru nothæf, í fyrir fram þekktum skömmtum. En þó eru þessi lyf seld á mjög svipuðu verði, oft aðeins 5-10% lægra verði en lyf sem koma erlendis frá. Landlæknir hefur bent á að sanngjörn verðlagning á þessum lyfjum mundi hafa í för með sér gífurlegan sparnað.

Ég tel að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að þessi mál séu tekin til rækilegrar athugunar og fundnar leiðir bæði til þess að lækka hina gífurlega háu smásöluálagningu sem er á lyfjum og eins til að draga úr öðrum kostnaði í sambandi við lyf.