18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

127. mál, lyfjakostnaður

Fyrirspyrjandi (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svarið, en þó tel ég að í þeirri ágætu skýrslu og fróðlegu sem hæstv. ráðh. flutti sé meginspurningu minni ósvarað: Eru í vændum einhverjar sérstakar ráðstafanir til að draga úr lyfjakostnaði með lækkun álagningar eða öðrum ráðum, breytingum á rekstri lyfjaverslunar, sem vel gæti komið til greina, eða þá beinum lækkunum á þeim samlyfjum sem hér eru framleidd. Ég held að það hljóti að vera meginatriðið að fá þessa liði kannaða.

Ég benti á í framsögu minni að smásöluálagning lyfja hér virðist vera allt frá 30 til 40% hærri hér en annars staðar í Evrópu og ég tel það óeðlilegt og eins, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, er ýmislegt í rekstri lyfjaverslunar sem vissulega væri ástæða til að taka til ítarlegrar athugunar, en til þess er hvorki staður né stund að þessu sinni.