18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

127. mál, lyfjakostnaður

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil nota þann möguleika sem ég kann að hafa til að tala frekar í málinu til að ljúka svarinu.

Það hefur komið fram í sambandi við læknaávísanir að það munu vera um 8-10 læknar í Reykjavík sem ávísa sýklalyfjum sem svara til 40% af heildargreiðslum Sjúkrasamlags Reykjavíkur vegna lyfja. Þetta er að vísu hátt hlutfall, en erfitt er að fullyrða á þessu stigi nokkuð um réttmæti eða óréttmæti þessara lyfjaávísana. En þar sem nú stendur yfir tölvuvæðing samlagsins er það von manna að í framtíðinni verði unnt að fylgjast nánar með notkun einstakra lyfja og ávísanavenjum lækna og þar með hafa áhrif á lyfjaval lækna og verðskyn með raunhæfa notkun í huga.

Hér skal aðeins minnst a lyfjaverðlagsnefnd, en til hennar var ábendingum landlæknis í sambandi við verð lyfja og álagningu á lyf vísað. Það hefur í stuttu máli samt komið fram í þeirri álitsgerð að sú nefnd er ekki sammála landlækni um sum atriði að því er þetta varðar og þess vegna stendur nánari athugun á þessu máli yfir.

Lyfjaverðlagsnefnd notar rekstrarskýrslur lyfjabúða til að ákveða grundvöll heildsölu- og smásöluálagningar lyfja. Ef nefndarmenn í lyfjaverðlagsnefnd eru allir á einu máli segir í 35. gr. viðkomandi laga að þá skuli ákvörðun þeirra vera bindandi.

Ég vil einungis bæta við þau atriði sem ég hef hér nefnt um aðgerðir til lækkunar lyfjakostnaðar að lyf hafa þrátt fyrir allt ekki hækkað til jafns við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar. Álagning á lyf, bæði í heildsölu og smásölu, hefur raunverulega lækkað samkvæmt því sem áður sagði. Heimilislæknum hefur fjölgað verulega og þar með aðgangur sjúklinga að læknum aukist, ef svo má segja, og lyfjaávísunum fer mjög fjölgandi. Ný lyf koma að öllum líkindum í sumum tilfellum í stað skurðaðgerða. Að lokum er þess að geta að hlutur sjúklinga í lyfjagreiðslum er aðeins hækkaður einu sinni á ári og þá um áramót þannig að kostnaðurinn leggst með mismunandi miklum þunga á tryggingakerfið eftir því a hvaða árstíma er. En það verður haldið fram að vinna að aðgerðum til þess að unnt verði í framtíðinni að veita betra aðhald vegna lyfjakostnaðarins og við munum kappkosta að beita nútímatækni í því skyni.