16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Stefnuræða forsætisráðherra

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar ég hugleiddi í gærkvöldi hvað segja skyldi hér heyrði ég litla frænku mína lesa upphátt fyrir stöllu sína dæmisöguna um vitra hanann. Sú dæmisaga á erindi við fleiri hér gæti ég trúað. Það brást ekki, sýndist þessum hana, að alltaf kom sólin upp við fyrsta hanagal. Með þeirri ályktunarhæfni sem þessum konungi hænsnfugla er léð sló hann því loks föstu að gervöll heimsbyggðin ætti birtu og yl sólar sér að þakka. Heyrðist ykkur eins og mér, hlustendur góðir, að það vottaði fyrir sams konar rökvísi í ræðu seinasta ræðumanns og í ræðu forsætisráðherra vors hér áðan? Eins og vitri haninn þóttist ráða gangi himintungla vill ríkisstjórnin færa sér til tekna hlýindi sjávar, landburð af fiski, hækkandi fiskverð. lækkandi olíukostnað. Flestir mundu þó ætla forsjóninni þar stærri hlut en forsrh., til að mynda Vestfirðingar sem þekkja sjávarbúskap.

En hvernig hefur þeim forsrh. og fjmrh. hæstv. tekist að skipta þeim hlut sem forsjónin hefur af örlæti sínu skenkt oss? Svörin við því er að finna í fjárlagafrv., þessum prófstein á hann Þorstein. Þar er fátt að finna annað en steina fyrir brauð. Ríkisbáknið heldur áfram að þenjast út, hallinn er fjármagnaður með erlendum lánum langt umfram lagaheimildir og umfram afborganir eldri lána. Við höldum áfram að safna skuldum í góðærinu. Samt eru loforðin um afnám tekjuskatts í áföngum svikin annað árið í röð. Svo á að hækka framleiðslukostnað útflutningsgreina, rýra afkomu heimilanna og kynda undir verðbólgu með nýjum 600 millj, kr. orkuskatti.

Ég spyr: Er þetta til þess fallið að greiða fyrir nýjum kjarasamningum?

Leyfist mér að hressa upp á minni hv. alþm. Munið þið eftir skattsvikaskýrslunni? Munið þið þegar hæstv. fjmrh. birtist á skjánum til að svara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um þriggja til fjögurra milljarða skattsvik? Munið þið hvernig hæstv. fjmrh. brosti út í annað og sagðist hafa haldið að þau væru reyndar miklu meiri? Nú spyr ég: Hvar eru tæki þín og tól, hæstv. fjmrh., til þess að uppræta skattsvikin? Menn byggja ekki upp það sem á að vanda með ónýtum tækjum og skattalögin þín, hæstv. fjmrh., eru ónýt. Það er hnefahögg framan í andlit vinnandi fólks og launþega á Íslandi að bjóða upp á svívirðu íslenskra skattalaga enn eitt árið í röð. Minnumst þess að þetta eru fyrstu fjárlög nýrrar kynslóðar í Sjálfstfl. undir forustu Þorsteins Pálssonar. Þeir svældu Albert út úr greninu en nú spyr hver annan - til hvers? Hvers vegna hefur ekkert breyst? Er það ekki nokkuð snemmt að týna hugsjónunum og samdaunast kerfinu fyrir fertugt?

Munið þið eftir þessu plaggi hérna? Það heitir ráðdeild í ríkisrekstri. Tillögur Sambands ungra jafnaðarmanna um að draga úr ríkisumsvifum, um að minnka skattaálögur og að auka kaupmátt heimilanna í landinu. Nú spyr ég: Hvar eru tillögur hins unga formanns Sjálfstfl., fjmrh. hinnar nýju kynslóðar, um báknið burt? Var hann Friðrik Sophusson ekki að halda upp á afmæli báknsins, 10 ára afmæli báknsins kjurt, hérna um daginn? Hvar eru tillögur hans um lækkun ríkisútgjalda? Hvar eru tillögur hans um fækkun ríkisstofnana? Hvar eru tillögur hans um niðurskurð á graskögglaverksmiðjum og öðrum óarðbærum gæluverkefnum framsóknarkerfisins? Hvar eru tillögurnar um kerfisbreytingu í ríkisrekstri? Hvar eru tillögurnar um nýtt og réttlátt skattakerfi? Já, hvar og hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað, hæstv. fjmrh.?

Í Mogga birtast nú daglega skrumauglýsingar upp á milljónir, m.a. frá ungum sjálfstæðismönnum. En ég spyr: Er ekki þetta óarðbær fjárfesting ef þau ætla að samdaunast kerfinu jafnfljótt og fjármálaráðherrann ungi og aðstoðarmenn hans og ganga framsóknarkerfinu á hönd? Til hvers er að kjósa þvílíka ágætismenn eins og Vilhjálm Egilsson, Jón Magnússon og jafnvel Eyjólf Konráð sjálfan, nýkominn úr Norðurlandi vestra frá Pálma á Akri og öðru framsóknarkyni, ef þeir ætla um leið og þeir koma hingað inn fyrir dyrnar að breytast í: Pálma á Akri, Egil á Seljavöllum eða jafnvel sjálfan Eggert Haukdal um leið og þeir koma hérna inn fyrir dyrnar?

Hvað svo með Framsfl.? Hefur Framsfl. virkilega af engu að státa úr þessu stjórnarsamstarfi fyrir utan það að sitja yfir hlut bænda og að koma á framsóknarkerfi í sjávarútveginum sem m.a. hefur nú leitt til þess að forsrh. vor sjálfur hefur neyðst til þess að flýja fiskveiðistefnu Halldórs Ásgrímssonar burt af Vestfjörðum? Jú, eitt. Framsókn segir það ósatt að ríkisstjórnin hafi verið neydd til stefnubreytingar við seinustu kjarasamninga. Við skulum láta Ásmund Stefánsson, forseta Alþýðusambands Íslands, svara forsrh. Hvað segir Ásmundur? Hann segir hér í grein:

„Til þess að festast ekki þannig varanlega í vonlausri verðbólguhringrás upp á 30-35% verðbólgu, sem var stjórnarstefnan," þá segir Ásmundur, „sneru aðilar vinnumarkaðarins sér til ríkisstjórnarinnar með bréfi, þar sem segir:

„Til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að stjórnvöld breyti um stefnu.“

Og enn fremur segir Ásmundur: „Það kemur því á óvart að forsvarsmenn stjórnarflokkanna skuli nú eftir á lýsa sig frumkvæðismenn málsins. E.t.v. er skýringarinnar að leita hjá forsrh. þegar hann segir allt í því efni hafa farið ákaflega leynt. Líklega hefur það farið svo leynt að hann einn vissi af“, segir forseti Alþýðusambandsins. „En staðreynd er það að öll stefnumótun varð til á okkar borðum.“ Þar telst mér, herra forseti, að hafi fokið seinasta skrautfjöðrin úr hatti forsrh.

Svo leyfa þeir stjórnarsinnar sér að saka stjórnarandstöðuna um yfirboð og skrum. Þeir taki til sín sem eiga. En það á ekki við um þann flokk sem ég er formaður fyrir og þær staðreyndir liggja hér á borðinu. Við studdum - já, hlustið á staðreyndirnar - við studdum afdráttarlaust nýjar leiðir í kjarasamningum, og höfum verið gagnrýndir af sumum fyrir, af því að við vissum að með þeim hætti sköpuðu launþegar sér inneign sem ávísa mætti á raunhæfar kjarabætur í batnandi efnahagsástandi og minni verðbólgu. Og fjmrh. spurði áðan: Hver voru úrræði stjórnarandstöðunnar að því er varðaði ríkisfjármálin og hallann? Svar: Við seinustu fjárlagaafgreiðslu lögðum við fram það sem fréttamenn kölluðu ný fjárlög Alþfl. Þau voru um tillögur um lækkun ríkisútgjalda, tillögur um kerfisbreytingu í ríkisrekstri, tillögur um tekjujöfnun gegnum húsnæðislán og tryggingakerfi, tillögur um stærri hlut ríkisútgjalda til verklegra framkvæmda. Ég ætla að vona, herra forseti, að ég eigi ekki eftir aftur að heyra íslenskan fjmrh. fara með þvílíka útúrsnúninga um þessar staðreyndir og þá sem ég heyrði áðan.

Tillögur Alþfl., sem ég er hér að lýsa, hefðu nefnilega samkvæmt þskj. skilað ríkissjóði meiri tekjuöflun með því að taka upp undanþágulítið söluskattskerfi og uppræta þar með þann skattundandrátt sem nemur milljörðum og fjmrh. ríkisins ber skylda til að uppræta en hefur ekki gert. Ég vek athygli á því, góðir hlustendur, að ef skattsvikin hefðu verið upprætt væri enginn halli á fjmrh. Þorsteini. Tillögur Alþfl. hefðu þýtt rekstrarafgang ríkissjóðs upp á 1,2 milljarða í stað halla upp á 2,2 milljarða og þær tölur eru staðfestar af starfsmönnum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, starfsmönnum fjmrh. sjálfs. En þessar tillögur okkar voru felldar af þeim sama stjórnarmeirihluta sem hér birtist okkur með allt niður um sig í ríkisfjármálum.

Þið sem hafið verið að velta því fyrir ykkur að kjósa Sjálfstfl. í trausti þess að hann sé boðberi nútímalegri hugmynda; staldrið þið ögn við. Það erum við jafnaðarmenn samkvæmt þessum staðreyndum sem leggjum fram tillögur gegn embættis og ríkisbákni fyrir aukinni samkeppni og valddreifingu í fjármálalífi en ekki þeir. Og við erum ekki bundnir á klafa neinna sérhagsmuna sem knýja okkur til að ganga gegn eigin tillögum eins og til dæmis hv. 1. þm. Suðurl., hæstv. fjmrh. Tryggingin fyrir því að við stöndum við okkar tillögur í framkvæmd er einföld. Það eru nefnilega engir framsóknarmenn í okkar þingflokki og verða ekki heldur eftir kosningar.

Sem betur fer eru nú vaxandi horfur á því að þjóðin eignist nýjan valkost um stjórnarstamstarf að loknum kosningum. Ástæðan er sú að Alþfl. hefur meira en þrefaldað fylgi sitt á s.l. tveimur árum. Jafnframt er ljóst að valdakerfi Framsfl. er að bresta um land allt. Það er brostinn flótti á lið framsóknar úti á landi þar sem sjálfur forsrh. leiðir flóttann.

Og Alþb. er á barmi upplausnar. Einar Karl Haraldsson, sem að eigin sögn gegndi starfi sem sálgæslumaður þess flokks og blaðs, opnar okkur sýn inn í ástandið í Alþb. í Helgarpóstsviðtali í dag. Þar segir hann:

„Deilurnar í Alþb. eru komnar langt yfir hættumörk. Það er hætta á því fullkomin að það fjari undan flokknum. Síðan 1982 hefur allt verið meira og minna í vitleysu í flokknum.“ - Hvar er félagi Svavar?

Jafnframt segir Einar Karl Haraldsson, sálgæslumaður Alþb.. að formaður Alþfl. hafi staðið við loforð sín, að því sé engin ástæða til að rengja hann þegar hann segi að verkalýðsleiðtogar muni einnig á næstunni koma yfir til hans og hans flokks. Það er von að félagi Svavar reyni, eins og hann gerði í ræðu sinni áðan, að skreyta sig með stolnum fjöðrum frá Alþfl.

Sveitarstjórnarkosningarnar í vor staðfestu hina skriðþungu sókn okkar jafnaðarmanna. Við erum nú tvímælalaust næststærsti flokkur þjóðarinnar, mun öflugri en bæði Alþb. og framsókn, og fylgi okkar dreifist nokkuð jafnt um landið allt. Það fer ekkert á milli mála að flokkurinn hefur styrkt málefnalega stöðu sína. Við höfum náð málefnalegu frumkvæði í stjórnmálaumræðunni. Umræður andstæðinganna staðfesta þetta því að þær snúast fyrst og fremst um það hvort þeir vilji samstarf við okkur eða með hverjum Alþfl. sé reiðubúinn til samstarfs að loknum kosningum.

S.l. tvö ár höfum við staðfastlega leitað eftir sáttum og samstarfi við Bandalag jafnaðarmanna. Það voru vissulega söguleg tíðindi þegar þetta tókst á flokksþingi okkar. Með því að taka í útrétta sáttahönd okkar hafa þeir Bandalagsmenn sýnt í verki að þeir meta meira framgang sameiginlegra baráttumála okkar jafnaðarmanna en persónulega stundarhagsmuni og þeir eru vissulega menn að meiri fyrir vikið þrátt fyrir róg andstæðinga okkar og öfund.

Á sögulegu afmælisþingi í byrjun mánaðarins skilgreindum við þau baráttumál sem við munum setja á oddinn í næstu kosningabaráttu og leggja

fyrir þing og þjóð á næstu vikum. Þessi baráttumál eru fólgin í tillögum okkar um:

1. Nýtt og réttlátt skattakerfi og upprætingu skattsvika.

2. Traustari fjármögnun húsnæðislána og aukið valfrelsi fólks milli kaupa á eigin húsnæði og leigu.

3. Einn sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn.

4. Valdatilfærslu frá ríkis- og embættismannavaldi í Reykjavík til sveitarstjórna og landsbyggðar.

5. Nýja atvinnustefnu, bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskvinnslu, með nýja sókn í atvinnumálum landsbyggðarinnar að leiðarljósi.

6. Samræmda launastefnu sem byggi á minni launamun, jafnari tekjuskiptingu og tryggi aukinn kaupmátt án verðbólgu.

Þetta, herra forseti, eru stóru málin - stóru málin sem næstu kosningar munu snúast um, og menn verða spurðir: Eru menn með þeim eða móti þeim? Við byrjuðum þessa sókn með því að spyrja: Hverjir eiga Ísland? Um seinustu mánaðamót héldum við sögulegt flokksþing og afmælisþing undir kjörorðinu: Ísland fyrir alla. Það vekur upp hugmyndatengsl við kjörorð aldamótakynslóðarinnar: Íslandi allt. Undir þessum kjörorðum mun sameinaður jafnaðarmannaflokkur nú sækja fram til sóknar og sigurs í næstu kosningum. - Þakka ykkur fyrir.