18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

152. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Utanrrh. landsins upplýsti hér við umræðu að afstaða hans til till. um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar sé óbreytt, sé hin sama og á síðasta allsherjarþingi. Það hefur ekkert gerst nýtt á heimili utanrrh. í þessum efnum. Spurningin verður hins vegar um hver er vilji Alþingis til þessa máls. Hver er afstaða samherja hæstv. utanrrh. í ríkisstjórn til þessa máls, framsóknarmanna, sem hér töluðu sumir hverjir nokkuð digurbarkalega um þetta efni í fyrra og fluttu raunar tillögu sem beindist, ef ég skildi hana rétt, að breyttri afstöðu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Fyrir þinginu liggur 15. mál á öðrum fundi, þáltill. um afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar, og það er brýnt að sú tillaga komi hér fyrir þingið til afgreiðslu og ályktunar eftir skoðun í utanrmn.