18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að draga úr vanda byggðarlaganna við Húnaflóa vegna hvarfs rækjunnar af miðum þeirra og ekki að draga úr óskum þeirra um aukinn þorskkvóta til að bæta upp minnkandi rækjuafla. En það sem hefur verið að gerast verður að líta á í miklu víðara samhengi. Rækjan hefur verið að hverfa af hverjum firðinum á fætur öðrum og nú er svo komið að rækja er horfin af Öxarfirði, Berufirði, Skagafirði og Tálknafirði. Þessi vandi er því vandi miklu fleiri byggðarlaga en byggðarlaganna við Húnaflóa. Ég vil þess vegna í sambandi við þá umræðu sem hér á sér stað beina þeim tilmælum til hæstv. sjútvrh. að sú athugun, sem hér er verið að fara fram á, nái til fleiri staða á landinu en Húnaflóa.

Ég tel að þarna sé á ferðinni, samkvæmt upplýsingum fiskifræðinga, mjög stórfellt vandamál. Rækjan hefur horfið um leið og smáþorskur hefur sótt inn á firðina vegna breytinga á hitastigi sjávar og þarna virðast hafa átt sér stað mjög stórfelldar breytingar sem fiskifræðingar hafa mjög verulegar áhyggjur af og telja að geti staðið a.m.k. í einn áratug. Þess vegna mælist ég eindregið til þess, ef gerðar verða einhverjar ráðstafanir vegna ástandsins við Húnaflóa, að athuganir, rannsóknir og betrumbætur á ástandi vegna byggðarlaganna nái t.d. til byggðarlaga við Öxarfjörð svo að ég nefni einhvern annan stað.