18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um áhyggjur manna af ástandi í Húnaflóa.

Það eru hvorki meira né minna en 120-140 manns sem hafa haft atvinnu sína af rækjuvinnslu við Húnaflóa og rækja er unnin á einum fimm stöðum við flóann. Einnig má þess geta að það eru líklega um 40 bátar sem hafa stundað þessar veiðar þannig að ekki fer milli mála að hér er um tilfinnanlegt tjón að ræða sem menn verða fyrir.

Í lögum um sérveiðar, svo sem um rækjuveiðar, er ákvæði þess efnis að verði aflabrestur á sérveiðum sé heimilt að endurskoða botnfiskveiðileyfi viðkomandi skipa og aflahámark. Ég mælist til þess og tek undir það, sem reyndar kom fram áðan hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að þessi mál verði skoðuð. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að huga að svæðum úti fyrir öllu Norðurlandi, svo miklu skiptir þetta fyrir þær byggðir sem þar eru. Ég treysti því að hæstv. sjútvrh. beiti sér fyrir því að það verði gert og að sem allra best samráð og samvinna verði höfð við heimaaðila í þessum efnum.