18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki ónýtt fyrir þingheim að eiga jafnfróðan þm. og hv. 5. þm. Vestf. sem getur upplýst þingheim um að það sé ekki líklegt að umræður á Alþingi muni breyta miklu um líffræðilegar aðstæður í sjónum. Þetta er skarplega athugað og örugglega alveg rétt.

En hér á Alþingi getum við hins vegar hugsanlega gripið til ýmissa ráðstafana sem hjálpa því fólki sem nú á við erfiðleika að etja vegna þess að líffræðilegar aðstæður hafa breyst í sjónum. Ég tek undir með hv. þm. Árna Gunnarssyni að það eru fleiri staðir víða um land, til að mynda Kópasker og byggðirnar við Öxarfjörð, sem orðið hafa illa úti af þessum sökum. Til þeirra þarf að líta. Ég spyr hæstv. sjútvrh. sérstaklega í framhaldi af umræðum, sem komið hafa upp upp á síðkastið um það að e.t.v. verði settur kvóti eða með einhverjum hætti takmörkuð sókn í djúprækju á næsta ári, hvort aðstæður þessara staða komi þá til skoðunar með það í huga að reyna að bæta þeim upp þann mikla missi sem þeir verða fyrir við hrun innanfjarðarrækju í ívilnunum í veiðiheimildum á drjúprækju. Enn fremur spyr ég að því hvort þeim stöðum, eins og Kópaskeri, þar sem lítur út fyrir varanlegan brest á þeim nánast eina stofni sem hefur verið byggt á, innfjarðarækjunni, verði þá með einhverjum hætti gert kleift að sækja á djúprækju og halda þannig uppi atvinnu og e.t.v. fái þeir heimildir til að flytja inn skip eða verði aðstoðaðir við að kaupa skip í því skyni. Það er alveg ljóst að sumir þeir bátar sem menn hafa notað með ágætum árangri til að stunda veiðar á innanfjarðarrækju duga ekki til að sækja á djúprækju, a.m.k. ekki allt árið. Þá gæti að mínu viti komið til greina að líta bæði til veiðiheimilda og einnig bátakosts á þessum stöðum.