18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru, eins og komið hefur fram, alvarlegar horfur í byggðarlögunum við Húnaflóa út af þeim rækjubresti sem við stöndum frammi fyrir. Ég stend hér upp til að leggja áherslu á að við þurfum að leggja stóraukna áherslu á rannsóknir á rækjunni. Þetta er auðlind sem við eigum að nýta en megum ekki eyðileggja. Við þurfum að nýta hana af forsjálni.

Við vitum ekki mikið um rækjuna, hvorki í Húnaflóa hvað þá úthafsrækjuna. Töluvert vitum við reyndar um Húnaflóarækjuna en sáralítið um úthafsrækjuna. Ég legg höfuðáherslu á að það verður að stórauka rannsóknir á rækjunni. Það hefur verið gífurleg sókn í þennan stofn og það er óforsvaranlegt að láta ganga svo áfram öðruvísi en menn viti hvað þeir eru að gera. Ég held að það sé rétt að reyna að stjórna þessari sókn og það sé rétt stefna hjá sjútvrh. Jafnframt vil ég hvetja til samstarfs við Grænlendinga um rækjurannsóknir og rækjunýtingu því að Grænlendingar eiga líka mjög mikið undir rækjuveiðum.