18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef oft hér á Alþingi verið gagnrýninn á hæstv. sjútvrh., en ég gat ekki tekið undir með málshefjanda varðandi þá gagnrýni sem þar kom fram varðandi ákvarðanatöku og þær athuganir sem gerðar hafa verið í Húnaflóa. Ég tel að þar hafi verið eðlilega að málum staðið. Þess vegna orðaði ég það svo sem ég gerði í minni fyrri ræðu og virðist hafa farið fyrir brjóstið á hv. 4. þm. Norðurl. e., en það er ekki í fyrsta skiptið sem honum gengur heldur illa að átta sig á mínum hugsunarhætti og mér finnst stundum erfitt að átta mig á hans jarðfræðilega útsýni. Mér hefur stundum fundist að þar sé fullskuggsýnt.

Ég er aftur á móti sammála því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl., að það er mjög brýnt að það sé gerð úttekt á því hvaða skeldýrastofna megi nýta og ég er sannfærður um að það er hægt að gera verulegt átak í því að auka atvinnustarfsemi á þessum stöðum með nýtingu á þeim stofnum.