18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vona að þm. skilji að það er ekki mjög þægilegt fyrir ráðherra að svara máli sem þessu á tveimur mínútum og eiga síðan að svara varðandi nánast öll málefni rækjunnar á þeim tveim mínútum sem hann síðan fær til umráða. Það verður að bíða seinni tíma.

En ég vitna til upplýsinga sem ég lagði fram í ræðu á fiskiþingi sem hefur verð birt að einhverju leyti og verður væntanlega birt aftur á morgun þó ég vilji á engan hátt komast hjá því að ræða þau mál sem vissulega þarf að tala hér um.

Ég mótmæli því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér, að það væri ekkert verið að gera í ráðuneytinu. Ég upplýsti hvernig hefði verið brugðist við. Við höfum verið í mjög nánu sambandi við aðila á þessu svæði eins og yfirleitt á öllum þessum svæðum þegar upp hafa komið vandamál. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti. Það hafa komið upp mjög alvarleg vandamál við Ísafjarðardjúp, við Öxarfjörð og víðar. Það verður að sjálfsögðu að taka tíma í að leysa þau. Þau verða því miður ekki leyst í umræðum utan dagskrár á Alþingi þó að það sé sjálfsagt að ræða þau og fjalla um þau. Ég vil algerlega mótmæla því að það sé ekkert verið að gera í þessu máli.

Það er búið að lofa því að senda aftur rannsóknarleiðangur. Væntanlega hefur hv. þm. ekki tekið eftir því. Hitt er svo annað mál að það er ekki einfalt að bæta hér um. Þm. þykir kannske sjálfsagt að fara í að opna allan Húnaflóa með trolli og veiða smáþorsk. Það þótti ekki sjálfsagt að gera það á Ísafjarðardjúpi og mæltu allir gegn því. Það mun ekki leysa vandamál þessara byggðarlaga. Að sjálfsögðu þarf að taka tíma í það. Ég veit ekki betur en við séum í stöðugu sambandi við heimamenn sem eru að sjálfsögðu óþolinmóðir og sjá fram á mikil vandamál.

En við erum að reyna að gera okkar besta til að vinna að þessu máli. Það eru fyrir því heimildir í lögum að ef rækjuveiði bregst verði kvóta skipanna breytt að nýju, sem hefur verið gert t.d. að því er varðar Ísafjarðardjúp, en það leysir því miður ekki vandamál þeirra litlu báta sem hafa mjög takmarkaða möguleika til að stunda þorskveiðar á þessum tíma. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að beita stórum flota á smáþorsk á Húnaflóa. Það verður að liggja ljóst fyrir að þar sé ekki um undirmálsfisk að ræða.