18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

11. mál, endurmat á störfum kvenna

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurmat á störfum kvenna, en flm. auk mín eru hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að nú þegar skuli hafist handa við að endurmeta störf og laun kvenna hjá ríkinu, hvort heldur um er að ræða störf kvenna í félögum ríkisstarfsmanna eða öðrum stéttarfélögum. Alþingi leggur á það áherslu að við slíkt endurmat verði nýtt verðgildi starfa lagt til grundvallar og að umönnunar-, uppeldis- og þjónustuþættir kvennastarfa verði metnir til jafns við ábyrgðar- og frumkvæðisþætti hefðbundinna karlastarfa. Hið nýja starfsmat skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júní 1987.“

Eins og fram kemur í grg. með till. voru árið 1976 fyrst sett lög hér á landi um jafnan rétt kvenna og karla. Í þessum lögum og þeim endurbótum sem á þeim voru gerðar vorið 1985 er skýrt kveðið á um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir kynferði hér a landi eða eins og segir í 4. gr. núgildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að „konum og körlum skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf“. Því miður taka þessi lög ekki tillit til þeirrar staðreyndar að verðmæti starfa er háð mati hverju sinni og því hafa lögin ekki reynst þess megnug að leiðrétta það kynbundna launamisrétti sem nú viðgengst á vinnumarkaðnum í skjóli verðmætamats sem metur hefðbundin karlastörf hærra en hefðbundin kvennastörf.

Í skýrslu Byggðastofnunar, Vinnumarkaðurinn 1984, sem kom út í febrúar 1986 og er nýjasta skýrsla þeirrar stofnunar um vinnumarkaðinn, kemur fram að karlar höfðu að meðaltali 57% hærri laun á ársverk en konur árið 1984. Raunar eru það aðeins 14 ára unglingspiltar og 75 ára karlar og eldri sem fá lægri meðallaun á ársverk en sem nemur meðallaunum allra kvenna.

Einnig kemur fram að konur hópast í ákveðnar starfsgreinar, einkum þjónustu- og umönnunarstörf, og að meðaltekjur kvenna hækka minna með aldri en meðaltekjur karla. Í síðustu kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins var engin tilraun gerð til að endurmeta kvennastörfin sérstaklega eða til þess að hækka konur í launum á einhvern hátt þannig að vísast er útkoman svipuð hvað varðar meðallaun eftir kyni í ár og hún var árið 1984.

Tilgangur þessarar till. er að taka á þessu kynbundna launamisrétti og fá því til leiðar komið að þau störf sem konur inna af hendi verði metin til jafns við þau störf sem karlar stunda. Því er lagt til að nú þegar skuli hafist handa við gagngert endurmat á störfum og launum kvenna, sem hjá ríkinu starfa, og að þeir þættir sem einkum einkenna kvennastörfin, þ.e. umönnunar-, uppeldis- og þjónustuþættir, verði í nýju starfsmati metnir til jafns við ábyrgðar- og frumkvæðisþætti hefðbundinna karlastarfa. Þessir þættir kvennastarfanna, sem margir eru þeir sömu og í hefðbundnum heimilisstörfum, eru vissulega engu síður mikilvægir en þeir þættir karlastarfa sem skila körlum meira en helmingi hærri launum en konum að meðaltali þó mikið skorti á að það sé viðurkennt á borði ekki síður en í orði. Við slíkt vanmat hefðbundinna kvennastarfa verður ekki lengur unað og því er þessi till. flutt.

Ég minni einnig á að á s.l. vori, þegar þáltill. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu úti á vinnumarkaðinum var hér til umræðu, komu hv. þm. í ræðustól hver á fætur öðrum til að ítreka mikilvægi þessara starfa. Ég skora á þessa hv. þm. að standa við orð sín og sjá til þess að þeir þættir sem einkenna þessi störf verði metnir að verðleikum í launakjörum eins og þessi till. kveður á um.

Till. nær eingöngu til þeirra sem hjá ríkinu starfa og er hún hugsuð sem skref í átt að gagngeru endurmati á störfum kvenna á vinnumarkaðnum. Nái hún fram að ganga á hún að geta komið öllum launakonum til góða þar sem samtök launafólks geta á grundvelli hennar samið um sambærilegar leiðréttingar á verðgildi kvennastarfa á hinum almenna vinnumarkaði. Í raun er hér lagt til að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og endurmeti kvennastörfin í sínum eigin ranni með það í huga að slíkt endurmat verði einnig tekið upp á hinum almenna vinnumarkaði.

Hjá ríkinu starfa nú 6000 konur og 3495 karlar í 14 félögum ríkisstarfsmanna. Hjá launadeild fjmrn. fengust þær upplýsingar um skiptingu stöðugilda og yfirvinnu í launaflokka eftir kynjum að á meðal þeirra sem fá greidd laun samkvæmt kjarasamningi Bandalags kennarafélaga eru aðeins 83 stöðugildi af 1618 stöðugildum kvenna alls sem na þeim meðallaunum eða hærri sem körlum innan félagsins eru greidd. Yfirvinnugreiðslur til kvenna eru þar 22% af dagvinnulaunum á móti 48,7% hjá körlum. Innan BHMR eru þau stöðugildi kvenna sem ná meðallaunum karla í félaginu eða þar yfir aðeins 84 af 805 stöðugildum kvenna alls. Yfirvinnugreiðslur til kvenna eru þar 31,7% af dagvinnulaunum á móti 42,1% hjá körlum. Innan BSRB eru það 1116 stöðugildi kvenna af 3945 stöðugildum kvenna sem ná meðallaunum karla innan félagsins eða þar yfir og þar eru yfirvinnugreiðslur til kvenna 32,2% af dagvinnulaunum á móti 65,5% hjá körlum. Í heildina eru það því aðeins 1283 stöðugildi kvenna af 6368 stöðugildum alls eða aðeins um 20% sem ná meðallaunum karla í þessum félögum eða þar yfir og yfirvinnugreiðslur karla eru í öllum tilvikum hærri en til kvenna.

Jafnframt vil ég benda hv. þm. á að lesa vandlega svar fjmrh. við fsp. frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um launagreiðslur starfsfólks Stjórnarráðsins, en það svar er að finna á þskj. 130 og var nýlega dreift hér í þinginu. Þar kemur ítarlega fram hvernig launakjörum kvenna og karla, sem starfa hjá ríkinu, er háttað og mú auka þeim upplýsingum við þær upplýsingar sem ég hef hér borið fram.

Að auki starfa hjá ríkinu um 1500 félagar í verkakvennafélögunum Sókn, Framsókn og Framtíðinni, nánast eingöngu konur. Þeim eru greidd laun samkvæmt töxtum þessara félaga en þeir eru meðal þeirra lægstu á landinu. Það er því ljóst að launamunur eftir kynjum er umtalsverður hjá ríkinu og stjórnvöldum skylt að ráða þar tafarlaust bót á vilji þau að tilgangur þeirra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem þau hafa sjálf sett, sé í heiðri hafður.

Tekið skal fram í þessu sambandi að samkvæmt till. teljast til kvennastarfa öll þau störf þar sem konur eru a.m.k. helmingur þeirra sem störfin hafa með höndum. Þeir karlar sem slíkum störfum sinna njóta vitaskuld einnig þeirra kjarabóta sem það endurmat kvennastarfa sem hér er lagt til gæti haft í för með sér.

Hvað varðar framkvæmd till. er eðlilegast að félmrh. skipi starfshóp til að annast verkið í samráði og samstarfi við þau hagsmunasamtök sem hlut eiga aðmáli. Æskilegast væri að hið nýja starfsmat gæti legið fyrir fyrir lok núgildandi samningstímabils og verið til viðmiðunar við gerð næstu kjarasamninga. Slík tímasetning getur varla talist raunhæf þar sem nú er komið vel fram í nóvember og samningar lausir um áramót og því er lagt til að starfsmatið liggi fyrir eigi síðar en 1. júní 1987.

Eins og ég sagði áður er það eitt af markmiðum núgildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að konur og karlar standi jafnt að vígi á vinnumarkaðnum. Raunveruleikinn er þó annar eins og ég hef hér lýst. Með því endurmati á störfum og launum kvenna sem hér er lagt til að framkvæmt verði er leitast við að koma í verk þeirri hugsun, sem í gildandi jafnréttislögum býr, að konum og körlum skuli ekki mismunað eftir kynferði á vinnumarkaðnum. Ég tek það fram í þessu sambandi að nú þegar liggja fyrir nægar upplýsingar um hvernig launakjörum eftir kyni er háttað, bæði hjá ríkinu og eins á hinum almenna vinnumarkaði, þannig að það er ekki nokkur ástæða að fresta því að taka á þessum þætti hins kynbundna launamisréttis á þeirri forsendu að afla þurfi um það frekari upplýsinga.

Á undanförnum árum hefur sú viðbára oftar en ekki verið uppi höfð að þessum málum skuli skjóta á frest þar til fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir. Okkur vantar ekki meiri upplýsingar. Við höfum allar þær upplýsingar sem við þurfum. Það sem nú þarf eru aðgerðir og það er það sem þessi till. gengur út á.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að till. verði vísað til hv. allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.