16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Stefnuræða forsætisráðherra

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki getum við Íslendingar kvartað yfir viðburðasnauðu hausti að loknu veðursælu sumri. Hæst ber að sjálfsögðu toppfund leiðtoganna úr austri og vestri sem settu allt þjóðfélagið meira og minna á annan endann í nokkra daga. Eitt andartak í sögu lands og þjóðar beindust augu heimsins að þessum jarðarskika sem var tiltölulega fáum kunnur áður.

Við stóðumst þetta áhlaup með prýði, en enn er of snemmt að leggja mat á mikilvægi atburða eða gera sér grein fyrir afleiðingunum af þessu flóðljósabaði. Áreiðanlega hefur þó þessi sérkennilega reynsla orðið okkur Íslendingum holl á margan hátt.

Það var undarleg tilfinning að fá heiminn svona í fangið. Og það var stórfenglegt að skynja svo sterkt þrá mannkynsins eftir réttlæti og friði. En um leið var furðulegt og raunar óhugnanlegt að verða vitni að því umsátursástandi sem leiðtogar stórveldanna þurfa að búa við ár og síð. Hvergi er til sparað í fyrirhöfn og kostnaði, farartækjum og mannafla til að vernda líf og limi þeirra sem tróna efst á toppi pýramídakerfisins í heiminum.

Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að skjaldborgin, sem slegin er um þessa menn og er kannske fyrst og fremst táknræn, verndi þá ekki aðeins fyrir hinu illa heldur einnig fyrir hinu góða og fyrir þeim veruleika sem líf alls þorra fólks snýst um og byggist á. Hvernig í ósköpunum eiga þeir að skynja æðaslátt samfélagsins fyrir utan þessa virkismúra? Hvernig eiga þeir að geta sett sig í spor fólks sem svipt er þeim sjálfsögðu mannréttindum að fá að umgangast sína nánustu? Hvernig eiga friðarsöngvar fólksins að heyrast gegnum skotheldar rúðurnar? Hversu óralöng er leiðin frá fólkinu sem stóð með logandi kyndla í hellirigningu á Lækjartorgi til hinna háu herra sem semja um örlög heimsbyggðarinnar fyrir luktum dyrum?

En það eru fleiri herrar háir en Gorbatsjoff og Reagan. Við sitjum líka uppi með háa herra hér á Íslandi, herra sem virðast órafjarri veruleika alls almennings þótt ekki hafi þeir skotheldar bifreiðar og vopnaða lífverði til að halda frá sér fólki. Við höfum hlustað á suma þeirra hér í kvöld og við hljótum að skelfast þá gjá sem er á milli þeirra og alls almennings í landinu.

Í litlu þjóðfélagi eins og hér á Íslandi, sem að höfðatölu er ekki stærra en mörg fyrirtæki úti í heimi, eru allar aðstæður til þess að tryggja hverjum og einum mannsæmandi kjör og aðstæður. Smæðin og fámennið þjappa okkur saman og auðvelda okkur samhjálp og mannleg samskipti. Það ætti ekki að vera ofverkið þeirra toppanna í pýramídakerfinu hér að hafa yfirsýn yfir þjóðfélagið allt og skynja og skilja lífsviðhorf og lífsskilyrði allra íbúa þessa lands. Svo er ekki að sjá og heyra hér í kvöld. Þessir menn eru ekki að tala við fólkið í landinu. Þeir eru að tala við hagfræðinga og reiknimeistara. Topparnir í kerfinu eru því miður fyrir löngu komnir úr tengslum við veruleika fólksins sem verður að draga fram lífið á lægstu kauptöxtum, á ellilífeyri og tryggingabótum. Þeir ráðfæra sig við reiknistofnanir og rýna í talnasúlur og töflur og meðaltölin eru þeirra ær og kýr. Þeir kjósa að líta fram hjá þeirri staðreynd að bilið milli fátækra og vel stæðra hefur breikkað í stjórnartíð þeirra.

Ekki eru áhyggjur þeirra af aðbúnaði barna og aldraðra í þjóðfélaginu meiri en svo að forsrh. minnist ekki á slíkt í stefnuræðu sinni. Finnst ríkisstjórninni ekkert ógert á því sviði eða finnst henni einfaldlega ekkert liggja á með úrbætur? Ekki sér forsrh. ástæðu til að fjalla um ástandið á sjúkrahúsunum, dagheimilunum og í skólunum þar sem brostinn er á flótti starfsfólks vegna smánarlegs vanmats á vinnuframlagi þess. Ekki orð um þann vanda né tillögur til úrbóta. Ekki orð um aukið vinnuálag alls þorra launafólks sem verður að bæta sér upp dagvinnutaxtana með lengri vinnutíma. Ekki orð um áhrif láglaunastefnunnar á fjölskyldu og heimilislíf frekar en slíkt sé ekki til. Ekki orð um fíkniefnavandann eða aðgerðir til lausnar á þeim vanda. Heyrir ekki forsrh. neyðaróp þeirra sem misst hafa ástvini sína í helgreipar eiturlyfjanna? Ekki orð um aðbúnað námsmanna né eflingu menntunar og rannsóknarstarfsemi.

Svona mætti lengi telja því að það er margt sem út af stendur í stefnuræðu forsrh. En við vitum að ríkisstjórnin hefur ákveðna stefnu í öllum þessum málum og þá stefnu lesum við út úr fjárlagafrv. sem hv. þm. fengu í hendurnar í fyrradag. Þar sjáum við m.a. svart á hvítu að ríkisstjórnin sér ekki efni til þess að bæta launakjör að neinu marki þrátt fyrir meira góðæri í landinu en nokkur þorði að vona í upphafi þessa árs. Hins vegar sér ríkisstjórnin ástæðu til þess að vega að einni af forsendum þessa góðæris. Henni þykir nóg um bætta afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi og hyggst afla 600 millj. kr. í ríkissjóð með sérstöku innflutningsgjaldi á olíuvörur.

Í fjárlagafrv. sjáum við stefnu ríkisstjórnarinnar í dagvistarmálum þar sem framlag ríkisins til byggingar dagvistarheimila er skorið niður í 1/10 af því sem vera ætti ef staðið væri við samkomulagið sem gert var við verkalýðshreyfinguna í tengslum við kjarasamningana árið 1980. Það eru kveðjurnar til barnanna og til foreldranna sem sífellt hlaða á sig meiri vinnu til að bjarga fjárhag heimilanna.

Í fjárlagafrv. sjáum við hug ríkisstjórnarinnar til námsmanna því að enn er vegið að Lánasjóði íslenskra námsmanna og boðaðar breytingar á lögum um hann. Ekki kemur sú aðför á óvart, enda hefur núverandi menntmrh. haft allt á hornum sér gagnvart sjóðnum alla sína stjórnartíð og kallað hann fyrirbæri spillingar og illan uppalanda svo að fátt eitt sé tínt til úr orðasafni hans.

Ekki er heldur að undra þótt forsrh. þegi um stefnu stjórnar sinnar í menntamálum í ræðu sinni hér í kvöld. Þá stefnu lesum við hins vegar í fjárlagafrv. og þar sjáum við m.a. afmæliskveðjuna til Háskóla Íslands, óskabarns þjóðarinnar, sem ríkisstjórninni finnst ekki þess virði að kosta til eflingar.

Hæstv. ráðherrar. Er ekki kominn tími til að tengja? eins og segir í dægurvísunni sem hressir strákar að norðan kyrja. Hagfræðingar og reiknimeistarar eru alls góðs maklegir, þarfir og nauðsynlegir. En þið þurfið að tala við fleira fólk.

Oft hefur því verið haldið fram að alþingismenn þyrftu að vera í nánari tengslum við atvinnulífið í landinu og nýlega var skorað á stjórnendur fyrirtækja að bjóða þingmönnum að kynnast atvinnulífinu af eigin raun með vinnu á staðnum, fara í eins konar starfskynningu. Þetta er ágæt hugmynd því að sú hætta er alltaf fyrir hendi að stjórnmálamenn einangrist og lokist inni með sínar töflur og talnasúlur og glati nauðsynlegum tengslum við atvinnulífið. En það gildir um fleira en atvinnulífið. Menn sem sitja árum saman í vel launuðum toppstöðum rofna smám saman úr tengslum við raunveruleika lágtekjufólks, glata hæfileikanum til að setja sig í spor þess og virðast búnir að sætta sig við misskiptingu lífskjaranna eins og um náttúrulögmál sé að ræða. Þessir menn þurfa endurhæfingu.

Forsrh. er nú á förum til Kína. E.t.v. lærir hann þar eitthvað sem að gagni má koma í starfi. Fremur vildi ég þó vita hann og aðra ráðherra eyða nokkrum dögum í starfskynningu við heimahjúkrun, á sjúkradeildum, á barnaheimilum og í skólum landsins og hollt væri þeim að deila kjörum með þeim lægst launuðu og reyna þann veruleika á eigin skinni í eins og einn mánuð sem er veruleiki þess fólks allt árið um kring. En forsrh. vill heldur kynna sér kjör fólksins í Kína. - Ég þakka þeim sem hlýddu.