18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

21. mál, áhrif markaðshyggju

Jón Magnússon:

Herra forseti. Ég kem ekki upp til að færa fram varnir fyrir nýfrjálshyggjuna í Sjálfstfl., sem Árni Gunnarsson talaði um, en ég kem hins vegar upp til að vekja athygli á að það kann að vera að það séu dregnar vitlausar ályktanir af þeim tölulegu staðreyndum sem Árni Gunnarsson fór með áðan varðandi fjölda nauðungaruppboða og gjaldþrotaskipti.

Í fyrsta lagi skiptir máli að fyrir nokkrum árum var sett ákveðið tryggingargjald varðandi gjaldþrotaskipti sem var á þeim tíma nokkuð hátt. Þá fækkaði gjaldþrotaskiptum mjög verulega vegna þess að menn fóru ekki almennt út í að biðja um skiptameðferð á einstaklingum eftir að gerð hafði verið árangurslaus aðför neina þeir teldu töluverðar líkur að sú skiptameðferð bæri árangur. Vegna verðbólguþróunar um nokkurt skeið hefur þetta tryggingargjald nánast orðið að engu sem hefur aftur gert það að gjaldþrotaskiptabeiðnum hefur fjölgað til muna.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að áður en kemur til skiptameðferðar er sú krafa sem skiptameðferð byggist á venjulegast orðin a.m.k. eins og jafnvel tveggja ára gömul áður en gjaldþrotaúrskurður er kveðinn upp. Þegar við erum að tala um gjaldþrotaúrskurði vegna 1986 er það venjulegast afleiðing af fjárskuldbindingum sem hafa átt sér stað á árinu 1984 eða jafnvel fyrr. Þannig getum við ekki, miðað við þessar upplýsingar, hygg ég, dregið þá ályktun að gjaldþrotaskiptabeiðnirnar einar og sér beri vitni um eitthvað sérstakt hvað markaðshyggjuna snertir eins og síðasti ræðumaður vildi vera láta.

Varðandi fjölda nauðungaruppboða er ljóst að þeim hefur fjölgað, en ég vek athygli á því líka að hvað þau varðar tekur u.þ.b. eitt ár og jafnvel lengri tíma frá því að uppboðsbeiðni er send þangað til nauðungarsala á sér stað þannig að venjulegast er fjárskuldbindingin vegna þeirrar nauðungarsölu u.þ.b. tveggja ára eða jafnvel eldri. Þetta held ég að menn verði að hafa í huga ef menn ætla að nota þessar tölur og byggja einhverjar staðhæfingar á þeim.

Ég hygg að það sé hins vegar ljóst varðandi fjölda nauðungaruppboða að það stafar að hluta af því að fleiri og fleiri hafa ekki raðið við þau verðtryggðu lán sem í síauknum mæli eru notuð til kaupa og sölu á fasteignum. Ég hygg að vandamál þeirra sem keyptu á sínum tíma á árunum 1983-1984 hafi komið sérstaklega fram þegar verðbólgan fór af stað á nýjan leik og þar af leiðandi samsvarandi vísitölur. Á sama tíma gerðist það að verð á fasteignum hækkaði ekki á Reykjavíkursvæðinu, en slík þróun hafði ekki átt sér stað um mjög langt árabil. Þessi nánast verðstöðvun á fasteignum, sem varð á markaðnum, gerði að verkum að áhvílandi lán á eignunum fóru iðulega fram yfir mögulegt söluverð á þessum eignum þannig að í mörgum tilvikum var um ekkert annað að ræða en nauðungarsölu vegna þess að fólkið sem hafði keypt og átt litla peninga þegar af stað var lagt réði hreinlega ekkert við málið. Ég hygg því að í sjálfu sér segi þessar tölur okkur mjög litla sögu og mundu þarfnast mun nákvæmari könnunar á ýmsum þáttum til hliðar við þetta til þess að hægt væri að draga einhverjar almennar ályktanir af þeim.

Ég get hins vegar tekið undir það með síðasta ræðumanni, sem mér heyrðist hann segja, að hann væri ekki á móti markaðshyggju en hins vegar væri hann á móti óheftri markaðshyggju. Ég lýsi mig algerlega sammála þeim sjónarmiðum. En þá er spurningin um hvernig á að bregðast við óheftri markaðshyggju. Það gerist fyrst og fremst með því að byggja upp ákveðnar varnaraðgerðir þeirra sem veikari eru á markaðnum hverju sinni og það gerist fyrst og fremst með því að hið virðulega Alþingi gefi meiri gaum að hlutum eins og t.d. neytendastarfi og neytendavernd.