18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

21. mál, áhrif markaðshyggju

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg um þessa till. þó að flm. sé e.t.v. búinn að segja sitt síðasta orð í bili. Ég tek undir efni þessarar till. Mér þykir það ákaflega brýnt að menn reyni að gera sér grein fyrir því hver áhrif þeirrar stjórnarstefnu eru sem hér hefur ríkt undanfarin bráðum fjögur ár því að ég held að þau séu ákaflega alvarleg.

Sú stefna hefur ríkt í íslensku samfélagi frá öndverðu að samfélaginu og þegnunum bæri að taka ábyrgð á þeim sem á einhvern hátt eiga við vanda að stríða. Þær hugmyndir eru vissulega í samræmi við það sem stundum er kallað kristilegt siðgæði. Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Á undanförnum áratugum hafa ýmsar hreyfingar, svo sem verkalýðshreyfingin, kvennahreyfingin og ýmsar félagshreyfingar, stuðlað að því að byggja hér upp velferðarkerfi, kerfi sem tryggir þegnunum sem jafnasta stöðu og kemur til aðstoðar ef eitthvað bjátar á.

En á undanförnum árum hafa átt sér stað ákaflega alvarlegir hlutir á Íslandi að mínu dómi. Ég lýsi því í sem stystum orðum þannig að leiftursóknarstefnunni, sem sett var fram árið 1978, hafi verið komið í framkvæmd hér á undanförnum árum. Hún felst í því að sauma sem fastast að þeim sem halda uppi velferðarkerfinu, þeim sem starfa í því í þeim tilgangi að hrekja fólk út úr heilbrigðiskerfinu, út úr skólunum og út í einkarekstur. Eitt nýjasta dæmið um þetta eru hugmyndir bæði meiri hluta borgarstjórnar í Reykjavík og menntmrh. um að breyta nú lögum um dagvistarmál. Það var nýlega samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur eða borgarráði a.m.k., ég er ekki viss um að það sé búið að samþykkja það í borgarstjórn, að dagvistarmálin fari alfarið í hendur borgarstjórnarinnar. Það þýðir að dagvistarmálin verði þar með tekin undan eftirliti ríkisins eða að dagvistarmálin eigi að heyra undir ákveðin lög sem gera kröfu til vissrar þjónustu og aðbúnaðar barna.

Allt ber þetta að sama brunni, þessum leiftursóknarhugmyndum Sjálfstfl. sem hafa náð allt of langt. Það er einmitt spurning dagsins hvernig eigi að bregaðst við þessum hugmyndum og til hvaða ráða verður gripið á næstu mánuðum til að stöðva þessa stefnu.

Ég vil geta þess líka, af því að hér urðu umræður um nauðungaruppboð og húsnæðismál, að hvernig sem hægt er að túlka slíkar tölur er þó eitt víst að mun fleiri eiga í erfiðleikum með að standa við sínar skuldbindingar en áður. Það sést í Lögbirtingablaðinu og á þeim háu tölum sem voru raktar áðan.