18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

135. mál, nýting sjávarfangs

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. lýsti yfir fullum stuðningi við efnismarkmið þessarar till. og það er vel. Hann gat ekki á sér setið að hefja aðför að kvótakerfinu og að sjálfsögðu verð ég ekki til að harma það þó hann noti hvert tækifæri sem gefst til að gera slíka hluti. En till. er engin lofgerð um kvótann, ekki einu sinni þær setningar sem hv. þm. las. Alls ekki. Hitt er svo misskilningur að frystitogararnir séu afleiðing kvótakerfisins. Ástæðan fyrir því að frystitogararnir ná þeim árangri sem þeir hafa náð er m.a. sú að feitfiskur geymist mjög illa og verður miklu verðmætari sé hann frystur strax heldur en ef hann er meðhöndlaður til geymslu um borð, svipað og er með þorsk, og þolir þess vegna ekki þessa geymslu. Þetta veit hv. 4. þm. Vesturl. og veit hvaða verðmun þarna er um að ræða og hann veit að þetta er ein af aðalástæðunum fyrir því hvað frystitogararnir hafa komist vel af. Það má nefna grálúðuna sem dæmi í þessu sambandi.

Ég held að menn sem eru að kaupa fisk úti í heimi hafi áttað sig á að það er ekki nóg að fiskurinn sé hraðfrystur. Hitt er ekki síður atriði að hann sé ferskur þegar hann er frystur. Það er kannske það sem við höfum ekki gáð nægilega að á undanförnum árum að fiskurinn væri nægilega ferskur þegar hann er frystur í frystihúsunum á Íslandi.

Ég held að það dyljist engum, sem les þessa þáltill. og það nál. sem hér fylgir með, að flm. eru ekki sáttir við þá stöðu sem þessi mál eru í. Það má alltaf tala um pólitík og segja að ráðherrann sé framsóknarráðherra og það er vissulega rétt. Alþb. hefur att ráðherra í sjávarútvegi og ég ætla ekki að gera lítið úr störfum þess ráðherra. Aftur á móti held ég að það dyljist engum að það var svona kraftafiskirí á vissan hátt sem hann var hlynntur og kannske er það í Íslendingseðlinu, veiðieðlinu, nánast innbyggt að leggja höfuðkapp á að að koma með sem mest að landi. Hins vegar er í þessari till. að finna vissa hluti sem ekki hefur verið hreyft við áður. Hér er t.d. í grg. vakin athygli á því hvort hugsanlegt sé að hafa allt aðra skiptingu um borð við launauppgjör þegar kemur að því hvort sjómenn hafi nýtt ákveðinn hluta af aflanum. Og þar er komið að því, sem er kannske eitt af vandamálunum varðandi það að fá sjómenn til að nýta þetta og skipstjóra til að beita sér fyrir því, sem er náttúrlega líka sjómaður að sjálfsögðu, að mönnum hefur fundist það vera ansi lítið sem þeir bæru úr býtum við þá vinnu miðað við hvað þeir gætu haft ef þeir gengju skarpar til sjálfra veiðanna og létu hitt sigla.

Ég held að við gerum best í því að reyna ekki að koma neinni sérstakri pólitískri ábyrgð yfir á einn eða neinn í þeim efnum að hlutirnir hafa því miður ekki þróast sem skyldi í þá átt að við nýttum vel þau verðmæti sem við fáum úr hafinu. Það hefur orðið afturför á sumum sviðum hvað þetta snertir. Þess vegna get ég alveg tekið undir það sem hv. 4. þm. Vesturl. segir að það er náttúrlega ekki rökrétt miðað við fiskveiðistjórnunina og kvótakerfið, eins og það hefur verið varið og sótt, að skipta sér ekki af þessum málum. Það er ekki rökrétt. Ég tek alveg undir þá gagnrýni hans. Hins vegar vona ég að þingheimur taki vel á þessu máli þó það sé líka vissulega rétt sem hann sagði að hér er um gamalt mál að ræða í þeirri merkingu að þetta hefur oft verið rætt og menn hafa oft reynt að hafa áhrif á þessa hluti. En ég held að staðreyndin sé sú að þegar menn horfa á þróunina hjá þeim fiskveiðiþjóðum sem búa við verulega takmarkaða sóknarmöguleika, horfa á þá þróun hvernig þær reyna stöðugt að bæta nýtinguna á sínum verðmætum úr hafinu, þá getum við Íslendingar ekki gengið um garðinn eins og við gerum og höfum gert. Við þurfum að taka okkur á. Í því sambandi er rétt að ég geti þess að mér finnst að Alþingi Íslendinga þurfi að sameinast um það að knýja á í þessum efnum og e.t.v. er ein af leiðunum sem verður að fara sú að skipta á allt annan hátt þegar kemur að því að skipta þeim verðmætum sem koma inn sem aukaafurðir og að sjómenn fái mun stærri hlut úr þeim og þannig fáist fram það viðhorf að það sé hagkvæmt að nýta þessa hluti sem í dag fara í sjóinn.