18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

135. mál, nýting sjávarfangs

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá ræðumönnum þá er hér ekki um nýtt mál að ræða sem slíkt. Það er búið að ræða þetta oft, hvernig við getum gert betur í því að ná sem fyllstri nýtingu út úr því sjávarfangi sem við öflum. En ég tek undir það að þetta er aldrei of oft kveðið og ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við það að þetta mál sé eins vel kannað og mögulegt er. Það er ekki vansalaust hvernig við göngum þarna um ýmsa hluti.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða um kvóta eða ekki kvóta. Ég heyri að þeir eru svo innilega sammala þar hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 5. þm. Vestf. að ég ætla ekki að blanda mér í það. Það er ekki tími til þess núna. Við munum geta rætt það betur síðar. Hins vegar vil ég aðeins taka það fram að ég vil ekki kenna kvótanum um það að við göngum ekki betur um þetta hráefni en við gerum. Ástæða er til að ætla að þegar menn vildu eitthvað fara eftir kvótanum þá væri það aðeins til þess að ganga betur um það en við höfum gert, einmitt vegna kvótans. En það er bara á öðrum vettvangi sem við skulum ræða það mál. (Gripið fram í: Það er dregið inn í grg.) Kvótinn er ekki dreginn inn í hana á þann veg að hann hafi bætt um þetta ástand, en ekki bætt það nóg. Ég er sammála hv. 4. þm. Vesturl. í því að það er ástæða til að ætla að hann ætti að geta bætt þarna um, en hann hefur ekki gert það sem skyldi. En að frystitogararnir skili 60% í hafið aftur getur verið svolítið villandi. Hv. 4. þm. Vesturl. kom nokkuð inn á að það mætti halda að það væri bara ónýtur fiskur sem verið væri að henda fyrir borð. En það er aðeins úrgangur sem þarna fer úr flökuninni um borð í skipunum.

Auðvitað þarf að ganga fastar að. Ég er svo róttækur í þessu að ég vil skylda frystitogarana, sem verða byggðir hér eftir, til að vinna afla um borð.

Það eru ekki svo stór fyrirtæki sem þarf til mjölvinnslu eins og nýju tækin eru orðin. Það er aðallega skortur á geymslu fyrir afurðina, fyrir mjölið og fyrir lýsið, en það eru ekki svo dýr tæki sem þarf í þetta.

Eins er það í sambandi við vinnsluna á fiskimjöli sem ég er allvel kunnugur. Ég tek heils hugar undir þann lið. Í landi er til skammar að það skuli ekki vera nema að ég held núna tvær verksmiðjur sem geta unnið mjöl sem er hægt að brúka til fiskfóðurs og loðdýraeldis. Við það að þurrka mjölið í svokallaðri eldþurrkun fara það mörg bætiefni úr því að það er ekki notað í slíka starfsemi. Ef við tökum bara loðnuvinnsluna, ef framleiðslan færi öll fram við svokallaða loftþurrkun eða gufuþurrkun væri hægt að fá fyrir mjölið miklu hærra verð en nú er. En það er svo mikill veiðimaður í okkur alltaf að við megum ekki vera að þessu. Við höfum göslast í þessu mörg undanfarin ár og áratugi og ekki gefið okkur tíma til að staðnæmast og sjá hvað við gætum fengið best út úr þessu.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Ég lýsi stuðningi mínum við þessa till., að kannað verði nákvæmlega hvað hægt er að gera í þessu, og ég skal leggja mitt lið til þess að hægt sé að koma slíkum málum sem best í framkvæmd, að við getum nýtt okkar fiskafurðir á sem bestan og eðlilegan hátt.