19.11.1986
Efri deild: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

141. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. góðar undirtektir við dagskrármálið.

Ég hef ekki séð Alþýðublaðið í morgun og get því ekki fullyrt hvort rétt hafi verið eftir mér haft eða ekki en þó heyrist mér á öllu að svo hafi verið. Ég sagði blaðinu að hv. 4. þm. Vesturl. hefði einn þeirra þm. sem til máls hefðu tekið í þessari hv. deild s.l. mánudag lýst andstöðu við frv. Blaðamaðurinn spurði mig hvort fram hefði komið að Alþb. hefði flutt svipað mál áður og ég sagði að það hefði komið fram í umræðunum og eignaði það hv. 4. þm. Vesturl. í stað þess að það átti að vera hv. 2. þm. Austurl. Ég biðst afsökunar á því að hafa líklega víxlað þessum ágætu hv. þm. í viðtali mínu við Alþýðublaðið.

Hv. 4. þm. Vesturl. sagði að innanflokksátök færðust frá prófkjörunum yfir á kjördaginn sjálfan ef frv. yrði samþykkt. Þetta er auðvitað að einhverju leyti rétt. En þau átök verða jakvæðari en gengur og gerist í dag eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. kom inn á í sinni ágætu ræðu hér s.l. mánudag. Menn og konur koma til með að keppast við að sýna almenningi, ekki aðeins virkum flokksmönnum, sínar jákvæðu hliðar í stað þess að grafa hver undan öðrum eins og dæmi eru um með núverandi fyrirkomulagi og menn hætta að sækjast eftir stuðningi utanaðkomandi afla. Menn hætta að sækjast eftir stuðningi annarra flokka manna. Það gefur auga leið. Kostnaðurinn minnkar verulega. Verði einhver auglýsingakostnaður kemur hann öllum flokknum til góða en ekki bara að það sé verið að auglýsa einn mann upp á kostnað hinna. Menn koma til með að skrifa í blöð um sín áhugamál og auglýsa sig eftir smekk og getu hvers og eins eins og verið hefur. En ég er viss um að þetta verður allt með miklu jákvæðari hætti en nú hefur viljað brenna við.

Það sem mér sýnist að verði kannske einna erfiðast er hvernig á að ákveða hverjir frambjóðenda komi fram í sjónvarpi á vegum viðkomandi flokks. En auðvitað verður að skipta því sem jafnast. Ég tel að þróunin verði sú að sjónvarp og aðrir fjölmiðlar muni kynna hvern frambjóðanda með stuttum viðtölum um áhugamál þeirra en formenn flokka og þingflokka verða líklega eins og hingað til mest áberandi þegar flokkarnir takast á framan við upptökuvélar útvarps og sjónvarps. En auðvitað ber að skipta því á frambjóðendur líka eftir því sem hægt er.

Við megum ekki gleyma því að þm. koma til með að hafa, eins og nú, verulegt forskot á flesta aðra. Þeir eru yfirleitt miklu þekktari en flestir aðrir frambjóðendur. Kynning frambjóðenda mun fara mjög vaxandi í fjölmiðlum, blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Það gefur auga leið að þegar svona margir eru inni í myndinni eru það ekki bara fyrstu menn sem verður að kynna, það verður að kynna þá alla.

Virðulegi forseti. Að lokum þetta. Ég hef rætt við marga Dani um kosningafyrirkomulagið hjá þeim en þeir hafa nú um árabil haft það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Allir sem ég hef talað við, undantekningarlaust, ef þeir á annað borð hafa minnsta áhuga á pólitík, hafa verið ánægðir með núverandi kerfi í Danmörku og enginn þeirra hefur viljað taka upp gamla fyrirkomulagið með röðuðum listum, enginn. Og það er alveg sama hvort ég tala við hinn almenna kjósanda, ef ég get sagt sem svo, eða stjórnmálamenn. Þeir eru allir sama sinnis um það, að þetta kerfi sé margfalt betra en það sem áður var, sem var svipað því sem við búum við.

Ég mælist eindregið til þess við hv. þm., ekki síst þá sem sitja í hv. allshn., að þeir kynni sér reynslu Dana í þessum efnum. Reynslan er ólygnust.