20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

62. mál, samfélagsþjónusta

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er rætt um till. til þál. um samfélagsþjónustu sem úrræði í viðurlagakerfinu. Fyrsti flm. hefur gert glögga grein fyrir þessari till. í ræðu sinni. Till. gengur út á það að setja saman nefnd til þess að kanna hvort endurgjaldslaus vinnuþjónusta í þágu samfélagsins geti við ákveðnar aðstæður komið í stað afplánunar dóma í fangelsi og einnig orðið til þess að gera skilorðsdóma markvissari. Auðvitað yrði slík vinna að falla að ákvæðum laga og ákvörðunum ákæruvalds og dómstóla.

Aðalstarf okkar hér á hv. Alþingi er að sjálfsögðu að setja lög. Við ætlumst til þess að þeim lögum sé fylgt. Þessi lög eru að sönnu mjög misjöfn, sum góð og gagnleg, önnur vafasamari. Til þess er ættast að þeim sé fylgt því að við höfum alltaf byggt á þeirri grundvallarreglu að með lögum skuli land byggja. En það eru alltaf einhverjir sem af einni ástæðu eða annarri geta ekki farið að settum lögum. Því eru afbrot framin og þegar slíkt hefur gerst er það frumskylda þeirra sem um þau mál fjalla að upplýsa brotin. það er eitt þýðingarmesta atriðið á öllum þessum ferli að fá brot nægjanlega upplýst þannig að öll gögn liggi á borðinu og það sanna komi í ljós í hverju máli. Þá kemur að dómnum og þar er yfirleitt um að ræða viðurlög sem við könnumst öll við, fjársektir og refsivist.

Það er rétt hjá hv. frsm. að ég hygg að þeir sem fást við fangelsismál a Íslandi hljóti oft að leiða hugann að þessum viðkvæmu og vandasömu málum. Það er talið nokkuð augljóst að ekki sé mannbætandi að sitja í fangelsi. Við verðum að ganga út frá því sem meginreglu. Þó er nokkuð misjafnt hvernig á þeim málum er haldið og fangelsi eru afskaplega misjöfn, bæði hér á landi og erlendis. Ég get ekki látið hjá líða að skjóta því hér fram t.d. að það hefur komið fyrir að fangar, sem hafa tekið út refsivist sína á Kvíabryggju á Snæfellsnesi, hafa látið það verða sitt fyrsta verk að fara vestur aftur og færa vistheimilinu góðar gjafir. Ekki ber slíkt vitni um vondan hug í garð þeirra sem þar hafa stjórnað málum. En um þessi mál má margt segja og það er alveg rétt að það er áreiðanlega mjög erfitt fyrir menn að koma aftur út í samfélagið eftir langa fangelsisdvöl og falla að því þjóðfélagi sem þeir verða þá að samlagast.

Í þriðja lagi er bent á það í grg. að það sé mjög erfitt og illt við að fást hve langur tími líði oft frá því að dómur fellur og þar til afplánun hefst. Ég hygg að þetta sé mjög algengt atriði sem talið er gagnrýnisvert. En þetta er líka áreiðanlega sá þáttur sem einna erfiðast er að fást við í öllum löndum þar sem svipaðar reglur gilda í þessum málum og hér á landi.

Að mínum dómi er það ekki höfuðatriði að láta menn sitja sem lengst inni í fangelsi í afplánun. Þvert á móti tel ég að gera beri fangavistina sem stysta, svo að hún verði sem bærilegust fyrir þann sem hana á að þola. Það er margt sem við þurfum að huga að í okkar fangelsismálum. Ég get ekki stillt mig um að benda á það að hversu gott sem þjóðfélag okkar er þá þurfum við að sjálfsögðu að hafa fangelsi sem geta verið sæmilega útbúin sem dvalarstaður fyrir þá menn sem þar þurfa að dveljast um lengri eða skemmri tíma. Hér uppi við Tunguháls í Reykjavík er grunnur að fangelsi sem búinn er að standa þar óhreyfður árum saman. Hugmyndin er að byggja þarna upp fangelsi sem geti leyst af hólmi gömlu húsin við Skólavörðustíg 9 og Síðumúlann, en það má segja að því húsnæði sé orðið svo ábótavant, á báðum þessum stöðum, að varla sé hægt að láta við svo búið sitja. Auðvitað þarf að halda áfram við þessa framkvæmd á Tunguhálsi áður en það eyðileggst sem þar er búið að gera.

Refsirétturinn hefur þróast á liðnum árum og öldum eins og önnur svið réttarins. Í staðinn fyrir hina gömlu reglu um „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ hefur yfirleitt rutt sér til rúms miklu mildari stefna, mannúðarstefna. Og það má geta þess að á vegum dómsmrn. er starfandi hegningarlaganefnd sem ávallt hefur í huga, og á að fást við, hugmyndir um breytingar á hegningarlögum og ákvæðum um refsivist.

Ég vil endurtaka það sem sérstaklega ber að hafa í huga. Það er að gera mönnum bærilegt að taka út refsingu. Þeir eiga ekki að þurfa að vera nema sem allra skemmst í fangelsi nema um ofbeldisafbrot sé að ræða eða menn sem eru hættulegir umhverfi sínu.

Eins og flm. gat um er vikið að því í grg. að sú regla sem till. gengur út á hafi verið reynd í Englandi og á Norðurlöndum. Eins og við vitum öll er löggjöf Norðurlanda mjög svipuð í þessum efnum. Ég tel alveg sjálfsagt að kynna sér þá reynslu sem önnur Norðurlönd hafa af þessum málum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, en vil að lokum benda á og ítreka að þessi till. snertir svo mikilvæg málefni að hún er verð nánari skoðunar.