16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Stefnuræða forsætisráðherra

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við umræður í Sþ. s.l. þriðjudag um samninginn milli ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna varðandi flutning með skipum fyrir varnarliðið kom glöggt fram eðli þess málflutnings sem þm. Alþb. hafa tamið sér og orðið þekktir fyrir. Þegar að þessum mikilsverðu málaflokkum kemur, sem eru öryggis- og varnarmál íslensku þjóðarinnar og varnarsamstarf við Bandaríkin, skal það ekki bregðast að þeir ásaki andstæðinga sína ævinlega um landráð og landsölu, múturþægni og undirlægjuhátt eins og vel mátti heyra í ræðu hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar hér í kvöld. Þessi málflutningur hefur þó í engu hnikað þeirri stefnu í öryggis- og varnarmálum sem meiri hluti íslensku þjóðarinnar styður. Það er kyndugt að einmitt þessi flokkur skuli beita slíkum gífuryrðum, flokkur sem hefur það á samviskunni að hafa sveigt af stefnu sinni fyrir 30 peninga silfurs eins og það var nefnt 1956. Þá voru menn reiðubúnir að gleyma áformunum sínum um brottrekstur varnarliðsins gegn erlendri lánafyrirgreiðslu, en halda ráðherrastólunum í staðinn.

Í umræðunum um siglingasamninginn voru Alþýðubandalagsmenn enn við sama heygarðshornið. Samningurinn sem tryggir íslenskum skipafélögum, íslenskum sjómönnum sjálfsagðan rétt til að keppa um flutninga til landsins var þeim tilefni til brigslyrða í garð íslenskra stjórnvalda um mútur og dollaragræðgi. Ætli það sé samviskan sem angrar þá, minningin frá 1956?

Það var engu líkara en þm. Alþb. hefðu orðið fyrir sárum vonbrigðum og miklu áfalli að þessari deilu skyldi lokið og að þar með skapaðist tækifæri til þess að koma samskiptum Íslands og Bandaríkjanna aftur í eðlilegt horf.

Viðbrögð þm. Alþb. sýna hvernig þeir grípa hvert tækifæri sem þeim gefst til að grafa undan þessum mikilvæga þætti í utanríkisstefnu Íslands. Þeir hafa stefnt að því að gera Ísland varnarlaust og að rjúfa þar með einingu vestrænna þjóða. En dæmin sanna að það er einmitt þessi eining Vesturlanda sem hefur tryggt frið með frelsi í okkar heimshluta í 37 ár.

Sú spurning vaknar: Hvað gengur þeim til? Vilja þeir fórna örygginu og frelsinu sem við njótum? Uppþot Alþb. breytir í engu þeirri staðreynd að Íslendingar geta leyst deilumál við samstarfsþjóðir sínar innan Atlantshafsbandalagsins þannig að allir geti við unað. Það getur tekið tíma og reynt á þolrifin, en það tekst. Ekkert er því nú til fyrirstöðu að varnarsamstarfið verði áfram treyst, enda ekki aðeins um gagnkvæma hagsmuni tveggja sjálfstæðra lýðræðisþjóða að ræða heldur öryggi allra vestrænna þjóða. Þetta skulu menn hafa hugfast. Við erum þátttakendur í varnarkeðju sem eins og aðrar keðjur eru ekki sterkari en veikasti hlekkurinn.

Ríkisstjórnin hefur á valdaferli sínum fylgt ábyrgri stefnu í þessum efnum. Í yfirlýsingu stjórnarflokkanna um utanríkismál er m.a. komist svo að orði að markmið utanríkisstefnu Íslendinga sé að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar. Á kjörtímabilinu hefur verið lögð áhersla á að auka frumkvæði Íslendinga sjálfra í öryggis- og varnarmálum. Það er mjög í samræmi við starfsemi öryggismálanefndar þar sem lögð hefur verið áhersla á innlenda þekkingu og frumkvæði í þessum efnum. Þannig hefur varnarmálaskrifstofa utanrrn. verið efld og fengnir til starfa sérfræðingar með þekkingu á sviði varnarmála. Það á að auðvelda okkur að vega og meta öryggis- og varnarviðbúnað út frá íslenskum sjónarmiðum.

Af sama stofni eru áætlanir sem Íslendingar hafa tekið virkan þátt í varðandi bætt ratsjárkerfi í Norður-Atlantshafi. Tvær ratsjárstöðvar munu bæta og auka eftirlit til mikilla muna á hafsvæðinu umhverfis landið. Stöðvarnar verða skipaðar íslensku starfsliði, en það hefur einmitt verið í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið og felur í sér aukna þátttöku Íslendinga sjálfra.

Undanfarin ár hefur verið unnið að byggingu nýrrar fullkominnar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, sem eingöngu er ætluð millilandafluginu, og verður flugstöðin tekin í notkun á næsta vori. Eins og aðrar framkvæmdir þar syðra hefur þessi bygging sætt mikilli gagnrýni úr röðum Alþýðubandalagsmanna og það var endurtekið af hv. 5. þm. Austurl. í kvöld. Af einhverjum ástæðum er eins og andstæðingar vestræns varnarsamstarfs óttist það bætta fyrirkomulag sem mun leiða af byggingu og starfrækslu þessarar nýju flugstöðvar.

Því má svo við bæta að á kjörtímabilinu hefur verið unnið að því að veita fleiri verktakafyrirtækjum tækifæri til að taka að sér verkefni samkvæmt útboðum en áður hefur tíðkast. Þannig vinna sérstakir undirverktakar að framkvæmdum í Helguvík, við hina nýju flugstöð og við ratsjárstöðvarnar sem nú eru í smíðum. Áfram verður unnið að því að endurmeta fyrirkomulag verktakastarfseminnar. Með þessum hætti höfum við m.a. lagt okkar af mörkum til að efla sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins. Það er einmitt styrkur þess og eining þjóða á Vesturlöndum sem getur fært okkur nær afvopnun og friði. Við eigum ekki með ráðstöfunum okkar að gera neitt það sem raskað getur öryggi í okkar heimshluta.

Þegar styrkur Vesturlanda var vanmetinn gengu viðsemjendur þess frá samningaborðinu í Genf, en sneru aftur þegar þeim var ljós samheldni og eining Atlantshafsbandalagsins. Á nýafstöðnum leiðtogafundi risaveldanna í Reykjavík náðist árangur sem tvímælalaust verður byggt á í afvopnunarviðræðum þeim sem fram fara á milli þessara ríkja á næstunni og leiðir vonandi til jákvæðrar niðurstöðu í afvopnunarmálunum. Ég vil nota þetta tækifæri og taka undir orð hæstv. forsrh. og þakka þeim fjölmörgu sem lögðu því lið að þessi fundur gæti tekist hér á Íslandi.

Ég ítreka að það er sameiginlegur styrkur ríkja Atlantshafsbandalagsins sem getur knúið til samninga um raunhæfa afvopnun og það veltur á okkur Íslendingum að gæta þess að samstaða þessara þjóða rofni ekki. Sú skylda hvílir því á okkur Íslendingum í þeim umræðum sem fram hafa farið á vettvangi Norðurlandaráðs um svokölluð kjarnavopnalaus svæði að hvika hvergi frá þeirri stefnu í þeim málum sem mörkuð hefur verið af Alþingi og ríkisstjórn. Í þeirri umræðu hefur gætt afar mikils óraunsæis en réttmæt krafa Íslendinga er að tómt mál sé að tala um kjarnavopnalaust svæði nema það nái einnig til hafsvæða umhverfis Norðurlönd, svo og til þeirra svæða í nágrenni Norðurlanda þar sem vitað er að kjarnavopn eru til staðar. Þá verður slíkt svæði að vera liður í víðtækari samningum um afvopnun. Það væri pólitískur barnaskapur að líta fram hjá þeirri staðreynd að í nágrenni Norðurlanda, á Kólaskaga, er ein stærsta birgðastöð kjarnavopna sem vitað er um. Norðurlöndum sem og öðrum þjóðum Vesturlanda stafar ógn af þessu vopnabúri. Slysið í Chernobylverinu og sá atburður er kjarnakafbátur sökk suður í Atlantshafi sýnir haldleysi þess að binda yfirlýsingu um kjarnavopnalaust svæði við svæði þar sem slík vopn eru ekki fyrir hendi og líta fram hjá þeim svæðum þar sem kjarnavopnin er að finna.

En gæsla íslenskra hagsmuna fer fram með öðrum hætti. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um utanríkismál hefur með markvissum hætti verið unnið að því að tryggja rétt Íslendinga til hafsbotnsins suðaustur af landinu á svokölluðu Hatton-Rockall-svæði. Hér er í rauninni um að ræða framhald baráttunnar fyrir yfirráðum hafsins og landgrunnsins umhverfis landið sem staðið hefur marga undangengna áratugi og útfærsla íslensku fiskveiðilögsögunnar verið liður í.

Auk frumkvæðis Íslendinga í eigin öryggis- og varnarmálum hafa stór skref verið stigin á þessu kjörtímabili á sviði utanríkisviðskipta. Samvinna allra þeirra sem standa að útflutningi og þeirra er veita fyrirgreiðslu við útflytjendur hefur verið stóraukin með stofnun hins nýja Útflutningsráðs Íslands. Miklar vonir eru bundnar við starfsemi ráðsins. Um leið verður hafist handa um eflingu sendiráða þar sem staðsettir verði sérstakir viðskiptafulltrúar eftir því sem þurfa þykir. Þetta starf er þegar hafið. Hinn 10. desember n.k. verður opnuð ný skrifstofa í Brussel fyrir sendiráðið í Belgíu og Luxemburg. Verður starfsemi þeirrar skrifstofu einnig og ekki síður fólgin í því að fylgjast með málefnum Evrópubandalagsins og gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart því. Þá er unnið að könnun utanríkis- og viðskiptaþjónustu okkar Íslendinga í Asíu þar sem sérstaklega verði athugað hvort rétt sé og þá hvar að stofna sendiráð eða viðskiptaskrifstofur.

Ég hef hér að framan vikið að fáeinum mikilvægum málaflokkum í utanríkisstefnu Íslendinga. Þessi mál eru ekki eins óskyld og menn gætu ætlað í fyrstu þar sem öruggar varnir Vesturlanda eru sá rammi sem umlykur frjáls og hindrunarlaus viðskipti milli þjóða.

Herra forseti. Utanríkisstefna Íslendinga hefur tryggt þeim fullt frelsi og sjálfsákvörðunarrétt í landinu og þeir hafa notið góðs af hinu margbrotna samstarfi vestrænna þjóða. Við mörkun þessarar stefnu hefur Sjálfstfl. gegnt lykilhlutverki og verkefni okkar er að ávaxta þennan arf með skynsamlegum og ábyrgum hætti. Það gerum við, góðir Íslendingar, með því að efla Sjálfstfl. til áframhaldandi forustu í íslensku þjóðfélagi. - Góða nótt.