20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

62. mál, samfélagsþjónusta

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Út af fyrir sig veit ég ekki hvort ástæða er til að veitast sérstaklega að hæstv. dómsmrh. Ég held að hann hafi í sjálfu sér góðan hug í þessu máli. En hann vék að því að ég réðist að dómsmrn. fyrir refsigleði, það væri bundið af lögum og dómum o.s.frv. Veit ég víst. En sannleikurinn er sá, eins og komið hefur hér fram áður, að frá því að afbrot er framið og þar til viðkomandi á að taka út refsingu líða kannske 4-5 ár. Þá getur staðið hið versta á, þetta er kannske ungur maður eða kona, og hagir gjörbreyttir, eins og hv. 1. flm. kom inn á áðan. Oft og tíðum hefur maður horft upp á að ef ekki fæst frestun á úttekt dóma, sem eru við fimm ára gömlu broti, leggjast fjölskyldur í rústir.

Ég skal að vísu viðurkenna að viðkomandi dómsmálaráðherrar hafa yfirleitt lagt þarna gott til mála. En það eru menn í kerfinu sem virðast ekki líta glaðan dag ef, vegna heimilisaðstæðna eða annars, er um frestun að ræða. Ég held að þarna þurfi mikið dýpri skoðun. Ég ítreka að af heilum hug og harla glaður styð ég þáltill. og þakka framgöngu hennar. En ég held að það þurfi að skoða öll þessi mál mikið betur. Og ég verð að segja það með fullri virðingu fyrir þeim nefndarmönnum sem kosnir voru í þetta, ég man ekki hvort það eru 3-4 ár, eitthvað svoleiðis, að það er þokkalegur tími til að skila áliti. Þarna hefur ekkert fram komið. Ég ítreka að menn verða fyrir vonbrigðum sem gefa sig að úrbótum í þessu. En það er ákaflega hættulegt að alhæfa hvað gera skuli við þann sem afbrot hefur framið. Ég verð að segja að ég, eins og ég sagði áðan, hef mjög dimma reynslu af ungu fólki sem ég hef haft afskipti af, hvernig fangelsisvist leikur það. Dæmið sem ég nefndi áðan um eiturlyfjasöluna á Litla-Hrauni er ekki nefnt til að viðra þá skoðun að loka eigi Litla-Hrauni heldur er ég aðeins að benda á að þetta er eitt dæmi. Ég gæti nefnt 20 og fer ekki út í þá umræðu hér.

Ég held að það sé ákaflega brýnt, eins og hv. 2. þm. Austurl. kom fram með, að það komi einhver till. frá ríkisstjórninni eða lagafrv. um fangelsismál. Hæstv. dómsmrh. tók fram að þetta væri ákaflega erfitt hér á landi í sambandi við vinnu. Ég býst við því. T.d. eru í Noregi sérstakir vinnuhópar. Menn eru dæmdir Í vinnuhópa. Það mundi ekki þýða á Íslandi að láta einhvern fangavinnuhóp laga brýr eða annað þess háttar. Við erum of fáir. Mér er sagt að t.d. í Danmörku vinni þeir ýmis garðyrkjustörf við umhverfi opinberra stofnana, elliheimila og dvalarheimila ýmiss konar, við hús og lóðir líknarfélaga, annist viðgerðir á húsnæði hjá öldruðu fólki, séu ráðnir til einkafyrirtækja og sumir, það mun vera reynslan í Danmörku, annast heimilishjálp hjá öldruðu fólki. Þetta virkar fjarstæðukennt, en í mörgum tilfellum hefur þetta gefist ótrúlega vel. En þá þarf skilorðseftirlitið að vera í lagi, að það sé fylgst vel með. Ef skilorðseftirlitið væri í betra lagi, þeir sem afplána skilorðsbundna dóma væru undir betra eftirliti, betri ráðgjöf, er hægt að koma í veg fyrir margt.

Ég held að eitt það brýnasta sé að efla skilorðseftirlitið. En ég vil taka undir við I. flm. Ég nefni hér nokkrar greinar. Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh. að út af fyrir sig getur verið nokkuð erfitt að koma þessu við hér, en þó höfum við mikið betri aðstæður vegna þess að við erum ekki með atvinnuleysi. Það er snúist harkalega á móti þessi t.d. í Bretlandi vegna atvinnuleysisins. Þeir segja: Það er verið að taka frá okkur vinnu. Þá er kominn fjandskapur á milli. Við erum lausir við þetta. Við höfum ekki haft af atvinnuleysi að segja nema þá tímabundið eða í ákveðnum landsfjórðungum.

Öll þessi mál eru ákaflega vandasöm og flókin og skal ég ekki lengja umræður um þetta. Ég vonast til þess að dómsmrh. komi með frv. um fangelsismál og ég vona að þessi nefnd, sem kosin var hér á Alþingi, skili áliti.

Hitt vil ég segja hæstv. dómsmrh. algjörlega kalalaust til hans persónulega og ég skal ítreka það utan Alþingis ef óskað er að ég hef skömm á þeim vinnubrögðum sem tíðkast við framkvæmd dóma af hálfu dómsmrn.