20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 26 að flytja till. til þál. um athugun á útboðum opinberra rekstrarverkefna. Till. er stutt og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra í samráði við aðra ráðherra að gera athugun á því á hvaða sviðum ríkisrekstrar sé hagkvæmt að efna til útboða. Skulu niðurstöðurnar lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu þegar að athugun lokinni.“

Þessi till. varð eigi útrædd á síðasta Alþingi. Reyndar kom hún ekki til umræðu því hún kom svo seint fram á þingtímanum. Grg. er afar stutt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Um margra ára skeið hafa opinberar framkvæmdir verið boðnar út og hefur sá háttur verið hafður á í vaxandi mæli að undanförnu. Þetta hefur gefið góða raun og sparað umtalsvert fjármagn eins og dæmin sanna, t.d. í vegagerð.

Mun minna hefur verið gert af því að bjóða út einstök rekstrarverkefni til einkaaðila. Þvert á móti virðist á ýmsum sviðum sem opinberir aðilar fastráði starfsmenn til að annast þjónustu sem auðvelt væri að bjóða út. Í sumum tilvikum draga skattareglur úr áhuga opinberra aðila og stórfyrirtækja á útboðum þótt færa megi veigamikil rök að því að útboð á sérhæfðum verkefnum séu eðlilegri og hagkvæmari.“

Á undanförnum árum hefur útboðum opinberra framkvæmda fjölgað og verk sem áður voru nær einungis unnin af viðkomandi ríkisstofnunum eru nú boðin út. Margvísleg rök eru fyrir því að bjóða opinberar framkvæmdir út. Útboðsverk eru venjulega betur undirbúin. Eftirlit er með framkvæmd verktaka, en þegar ríkisstofnanir framkvæma er hönnun, framkvæmd, eftirlit og úttekt í höndum sömu stofnunar. Útboð hafa sannarlega leitt til minni kostnaðar, eins og kom fram í grg., og meira magn framkvæmda á útboðsmarkaði hefur tryggt vel rekin verktakafyrirtæki í sessi og lengt lífaldur þeirra.

Þótt lögin um opinberar framkvæmdir, sem sett voru að frumkvæði Magnúsar Jónssonar, þá fjmrh., hafi reynst ákaflega góður grundvöllur útboðs verklegra ríkisframkvæmda vantar enn á að í öllu sé farið eftir ákvæðum þeirra laga. Má í því sambandi t.d. nefna svokallað skilamat sem er mat á því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun og samanburð við hliðstæð verk sem þegar hafa verið metin. Þrátt fyrir þetta er ljóst að útboðsstefnan hefur gjörbreytt opinberum framkvæmdum til góðs.

Mér er enn fremur ljóst að í aðsigi eru nokkrar breytingar hjá Innkaupastofnun ríkisins. Nefnd sem kannaði þau mál hefur lokið störfum, skilað áliti sínu til hæstv. fjmrh. og í yfirliti um væntanleg þingmál kemur fram að slíkt frv. verður flutt á þessu þingi.

Ég vil einnig segja frá því að fyrir nokkrum árum gerði ég fsp. um skilamat sem auðvitað er bráðnauðsynlegt að verði tekið upp, einkum og sér í lagi fyrir hv. fjárveitinganefnd Alþingis. Þá var sagt að það mundi senn verða gert, en enn bólar ekki á því að verk séu tekin út með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

Meðal nágrannaþjóða hefur verið unnið að því skipulega að auka útboð opinberra rekstrarverkefna til einkafyrirtækja. Sérstaklega hafa útboð átt sér stað þegar um ný verkefni er að ræða eða verið að gera breytingar á opinberum rekstri. Þær greinar sem einkum hafa þótt heppilegar til útboðs eru m.a. þvottar, hreingerning, vaktþjónusta, útgáfa, mötuneyti, hönnun, áætlanagerð, eftirlit, viðhald og viðgerðir. Er ég þá fyrst og fremst að tala um þau rekstraratriði sem boðin eru út í nágrannalöndum. Í Bandaríkjunum þekkist hins vegar útboð á miklu fleiri sviðum. Vegna þess að hér á undan var verið að ræða um fangelsismál, þá þekkist það að fangelsisrekstur hafi verið boðinn út til einkaaðila, spítalar jafnframt. Það á sjálfsagt ekki við hér á landi en er dæmi um það að einkaaðilum er treyst fyrir verkefnum og síðan er stjórnvöldum ætlað að sjá um eftirlit.

Þau rök sem m.a. hafa verið færð fyrir útboðum opinberra rekstrarverkefna eru m.a. eftirfarandi:

1. Launamunur starfsmanna við sömu störf mundi ekki grundvallast á því að sumir séu opinberir starfsmenn en aðrir starfi í einkarekstri. Þannig mundi tortryggni og samanburður hverfa.

2. Útboð stuðla yfirleitt að lægra verði og minni kostnaði.

3. Útboð opinberra verkefna stækka útboðsmarkaðinn, styrkja þannig einkareksturinn og efla samkeppni.

4. Útboð ýta undir það að skattareglur verði samræmdar en mismuni ekki aðilum eins og nú er. Hér er ég að vísa til söluskattsinnheimtunnar, en einmitt á síðasta þingi voru þau mál til umræðu og bent á að í sumum tilvikum njóta fyrirtæki skattfríðinda ef þau eiga sjálf tæki en þurfa ekki að kaupa þjónustu að. Nefnd voru til tvö dæmi. Annars vegar var um að ræða niðurstöðu í svokölluðu Eimskipsmáli sem fjallaði um uppskipunarkrana Eimskipafélags Íslands og hins vegar það þegar ákveðið kvikmyndahús hér í bænum réð til sín bólstrara til þess að sleppa við söluskattsgreiðslur til bólstrara úti í bæ sem áður var verslað við, til þess eingöngu, eins og ég hef sagt, að losa sig undan skattgreiðslum. En þetta þýðir að menn sitja ekki við sama borð.

5. Útboð krefjast undirbúnings og áætlunar, sem auðveldar opinberum aðilum að stjórna og setja sér markmið, örva leit að hagkvæmum leiðum við lausn verkefna og fjölga úrlausnarkostum.

6. Útboð stuðla að eðlilegri verkaskiptingu þar sem framkvæmd og eftirlit eru ekki hjá sama aðila ef það tryggir betri árangur. Og í raun er þetta kannske stærsta ástæðan hjá sumum, einkum og sér í lagi hjá stjórnmálamönnum sem telja að það sé verkefni stjórnmálamanna að stjórna og taka ákvarðanir en síðan sé það annarra en ríkisvaldsins að sjá um hvernig einstök verkefni eru leyst á þeim grundvelli sem lagður hefur verið af stjórnvöldum á hverjum tíma. Útboð opinberra framkvæmda hafa sannað gildi sitt og meðal annarra þjóða hafa útboð opinberra rekstrarverkefna leitt til skilvirkari reksturs. Engin ástæða er til að ætla að slíkt eigi ekki við hér á landi.

Fjölgun opinberra starfsmanna á undanförnum árum og áratugum á m.a. rætur að rekja til þess að ríkið ræður starfsfólk til að sinna þjónustu sem hægt væri að fela öðrum án þess að þjónustustigið minnkaði. Þunglamaleg stjórnun í opinberum rekstri veldur oft seinagangi og dregur úr sveigjanleika. Launaákvarðanir eru miðstýrðar og valda oft óánægju starfsmanna sem flýja í önnur störf. Með auknum útboðum má gera ráð fyrir að margir þeirra, sem nú starfa í margvíslegum þjónustustörfum fyrir ríki og sveitarfélög, mundu stofna eigin fyrirtæki og bjóða í verkefni. Þannig gætu þeir með útsjónarsemi og á grundvelli eigin ákvarðana leitað hentugastra leiða við reksturinn og ráðið sjálfir meiru um framkvæmdina.

Á fskj. sem fylgir þessari þáltill. er lausleg þýðing á leiðbeiningum sem danska hagsýsludeildin sendi ráðuneytum sumarið 1984. Mig langar til að vekja athygli á því að í 3. tölul., sem fjallar um útboð, er bent á að hægt er að fara fleiri en eina leið til þess að bjóða út verkefni. Mér finnst vera ástæða til þess að hæstv. fjmrh. og ráðuneyti hans í samráði við aðra ráðherra kanni hvort ekki sé möguleiki á að taka upp útboð í stærri stíl en verið hefur og gera á því könnun hvort opinber þjónusta á Íslandi sé það mikið öðruvísi en sams konar þjónusta í okkar nágrannalöndum að hún þoli ekki útboð eins og þar tíðkast. Af þessu tilefni, herra forseti, er þessi þáltill. flutt í trausti þess að þingnefnd kanni þetta mál og að í framhaldi af því megi þingheimur og þjóð eiga von á að breytingar verði í opinberum rekstri að þessu leyti.

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að fá þessu máli vísað til hv. fjvn. en mér er ljóst að það kunni að vera áhöld um það til hvaða hv. nefndar slíkt mál á að fara. Sjálfur hefði ég talið eðlilegt, af því að þar er fjallað um opinberan rekstur, að hv. fjvn. fengi aðstöðu til að kynna sér þetta mál og skila áliti, en ef, herra forseti, talið er að þetta mál eigi fremur erindi til hv. allshn. mun ég ekki gera ágreining um það.