20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ja, það er ágætt að hv. 2. þm. Reykv. komi út úr sínu sauðahúsi og tali tæpitungulaust og reyni að gera öðrum upp skoðanir í leiðinni. Það er ágætt að þeir sem hafa þurft að sjá um þjónustu víða um landið, m.a. einkaaðilar eins og vörubílstjórar og aðrir slíkir sem eru að vinna að nauðsynjaverkum í byggðarlögunum, heyri hvaða álit talsmenn Sjálfstfl. á Alþingi hafa á þeirra störfum og að það komi fram með þeim hætti sem það gerði hjá hv. síðasta ræðumanni, að hann telur að hinir stóru eigi ótvírætt að ganga yfir hina minni í samkeppni fjármagnsins og síðan eigi byggðarlögin að sjá um sig, væntanlega, þegar hinir stóru - ef ekki héðan af Reykjavíkursvæðinu þá helst frá útlöndum, eins og nú er verið að reyna að draga hér í landið í sambandi við framkvæmdir á stóru verkefni austur á landi, sem búið er að vera í höndum núv. ríkisstjórnar allt kjörtímabilið, þar sem verið er að reyna að draga erlenda aðila fyrst og fremst sem ábyrgðaraðila í öllum verkum. Þetta er stefna Sjálfstfl.

Við hv. 2. þm. Reykv. stóðum saman að því í tíð síðustu ríkisstjórnar að fá hér samþykkta á Alþingi till. til þál. um iðnaðarstefnu sem hefst á því að það sé hvatt til þess að dreift frumkvæði fái að njóta sín í sambandi við smærri verkefni í landinu, í sambandi við uppbyggingu iðnaðar í landinu. Svo kemur hv. þm. hér og segir: Alþb. vill færa allt undir ríkisvaldið, allt undir stóra bróður. Hvers konar rugl er þetta? Auðvitað veit hv. þm. það að þetta er ekki stefna Alþb. Stefna Alþb. er að láta heimafólkið og samtök heimamanna á hverju svæði um eins mikið af verkefnunum og hægt er og skynsamlegt er í sambandi við framkvæmdir og líka í sambandi við margháttaða þjónustustarfsemi. En það er Sjálfstfl. sem ekki fæst til að taka undir það efni, tillögur um valddreifingu og hugsanlega nýtt stjórnsýslustig í landinu til þess að færa verkefni út í héruðin frá bákninu í Reykjavík. Það eru engar undirtektir við þá stefnu hjá hv. 2. þm. Reykv. og hans flokki.

Nei, það er ekki sama hver í hlut á. Hv. þm. segir: Einkaframtakið á að fá að spreyta sig. Svo á ríkið að fylgjast með því. Ég skal taka eitt dæmi um hvernig að því er staðið af hv. þm. eða réttara sagt af hans flokki og framkvæmdarvaldi.

Ég flutti fyrir tveimur þingum síðan og reyndar á þinginu þar áður þáltill. um bætta þjónustu við farþega í innanlandsflugi og vakti athygli á því að þar væri margur pottur brotinn og eins varðandi flutning farþega að flugvöllum og þjónustu við þá. Hver er aðalrekstraraðilinn í innanlandsflugi í landinu? Fyrirtæki sem heitir Flugleiðir og fær einkaleyfi til flutnings á farþegum á ákveðna flugvelli og nokkrir aðilar spreyta sig á öðrum leiðum. Í flugrekstrarleyfum, einkaleyfum til þessa einkaframtaks, er ekki að finna eitt einasta orð um skyldur þessara aðila, um þjónustu við það fólk sem verið er að flytja, ekki orð.

Þessa tillögu mátti ekki samþykkja hér á Alþingi. Það var algert bannorð að Alþingi tæki efnislega afstöðu til hennar og það var sagt, af því að málið var auðsjáanlega skynsamlegt, að það væri nefnd í gangi sem væri að fjalla um flugmálin í landinu. Ég held að hún hafi sáralítið sinnt þessum þætti sem snýr að þjónustunni við farþega. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki verið að hugsa um þá hluti ef einkareksturinn er í réttum höndum. Það er von að hv. þm. telji sig hafa efni á að tala digurbarkalega og gera öðrum upp skoðanir. Fulltrúi einokunar, ef hún er í réttum höndum, og talsmaður flokks sem stendur að því í reynd að útiloka innlent framtak frá þátttöku í stórum verkefnum, eins og gerðist t.d. í undirbúningi að byggingu kísilmálmverksmiðju austur a landi, og flokks sem leggur fyrir frv. hér uppi í Ed. um opinber innkaup þar sem ekkert tillit er tekið til innlendrar iðnþróunar og þróunarstefnu í tengslum við opinber innkaup.

Sannleikurinn er sá að í tíð núv. ríkisstjórnar hefur ekkert verið hugsað um iðnþróun í landinu og hvernig hægt er að beita þeim verkefnum sem fyrir liggja til þess að styðja við innlendan iðnað og þróunarstefnu, þar sem menn verða að geta horft svolítið fram í tímann. Nei, þar á hagkvæmnin svokallaða ein að ríkja án tillits til heildarhagsmuna þjóðfélagsins. Þetta finnst mér rétt að liggi fyrir í sambandi við þetta hugsjónamál hv. 2. þm. Reykv.