20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði verið að undirbúa það að taka þetta mál upp með þinglegum hætti þegar ég frétti um að málið yrði tekið fyrir nú utan dagskrár. Má út af fyrir sig fagna því að tilefni gefist til þess nú að segja nokkur orð um þetta viðamikla mál.

Ég vil fyrst segja að það virðist liggja ljóst fyrir að þannig sé gengið frá reglum um fullvirðisréttinn að ekki er tekið tillit til þess ef einstök byggðarlög standa mjög höllum fæti og jafnvel þótt sýnt sé að sá fullvirðisréttur sem veittur er muni óhjákvæmilega valda því að til landauðnar komi. Ég vil í þessum efnum sérstaklega taka eina sýslu sem dæmi. Það er Norður-Þingeyjarsýsla sem kannske má segja að sé harðbýlasta hérað landsins. Það er augljóst að bændur á þeim slóðum hafa ekki tök á því að fara í aðrar búgreinar svo neinu nemi nema fiskeldi þá í Kelduhverfi og kannske í Öxarfirði. Ég hef ekki séð hvernig fullvirðisrétturinn kemur út í Öxarfirði og Núpasveit. Við vitum að það er mikið um niðurskurð í Kelduneshreppi. Aftur liggur það fyrir í Þistilfirði að viðmiðunarárin tvö, 1984 og 1985, eru langrýrustu ár sem þessi sveit hefur búið við kannske í áratug.

Ég held að það sé samdóma álit manna sem vilja skoða þessi mál með sanngirni að það sé hart að þeir bændur þar sem hafa viljað taka mark á þeim aðvörunarorðum að það eigi að draga úr framleiðslu skuli nú gjalda þess tvöföldu verði með því að það eru tekin tvö rýrustu árin eftir að þeir drógu úr framleiðslunni. Ég vil líka segja að þarna er um land að ræða þar sem úthagar eru góðir og afréttir þannig að ef tekið yrði tillit til landnýtingarstefnu mundi ekki svo hart sorfið að þessari byggð. Langanesströnd stendur einnig höllum fæti.

Síðast en ekki síst, herra forseti, vil ég taka undir orð hv. þm. Steingríms Sigfússonar sem hann sagði um Hólsfjallabyggð. Þaðan hefur okkur borist bréf sem sýnir glögglega fram á að ef haldið verður við þann fullvirðisrétt sem þangað hefur verið úthlutað muni sú sveit fara í eyði. Hjá því verður ekki komist. Þar eru nú fjögur býli. Þessi sveit er mikill öryggisstaður. S.l. ár voru útköll hjálparsveitar skáta á þessum stað fleiri en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Nú síðast fyrir tveim dögum var hjálparsveitin kölluð út til að leita manns sem síðan fannst í bíl sínum á Vopnafjarðaröræfum.

Það er auðvitað ekki um margar sauðkindur að ræða þegar við tölum um þessa fjóra bændur á Hólsfjöllum, herra forseti, en ég held að óhjákvæmilegt sé að við reynum að gaumgæfa þetta. Ég vil að síðustu segja að við þm. Norðurlandskjördæmis eystra munum ræða þetta mál sérstaklega við hæstv. landbrh., en ég sé ekki að stóryrði bæti okkur neitt eins og staðan er í þessum málum.