20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mönnum hafa verið mislagðar hendur um stjórnun landbúnaðarmála og víst er að bændur eiga betra skilið en þá óstjórn sem þeir hafa mátt búa við.

Það má kalla með ólíkindum hvernig þeim hefur verið att út í fjárfestingar og offramleiðslu með alls kyns afskiptasemi og svo þegar á að taka á þessu og reyna að skipta framleiðslunni á milli þeirra sem enn vilja búa er það gert með þeim hætti að helst virðist sem verið sé að búa til vinnu handa mönnum í Bændahöllinni við Hagatorg en minna hugsað um bændurna sjálfa.

Úthlutun búmarks fór algerlega úr böndum, eins og sást m.a. í svari hæstv. landbrh. við fsp. minni um aukningu búmarks á 107. löggjafarþingi. Þar kom m.a. fram að frá 1. janúar 1980 til apríl '85 hefði leyft búmark aukist um 9,72%, nokkuð misjafnlega eftir landsvæðum, og þar kom einnig fram að 3295 ærgildi í mjólk voru veitt til jarða sem ekki höfðu áunnið sér rétt viðmiðunarárin. Það er von að hægt gangi með úrbætur.

Ég heyrði sögu af því þegar einn ágætur bóndi, reyndar kona, bankaði upp á hjá úthlutunarkóngunum og sagðist ekki geta framfleytt heimilinu á því búmarki sem þau hjón hefðu fengið í sinn hlut. Viðmælandi þekkti til hrossakyns á þessum bæ sem hann lofaði í löngu máli og spurði svo: Hvað þarft þú mikið í viðbót, væna? Þetta er náttúrlega mjög notaleg og manneskjuleg afgreiðsla, en á lítið skylt við þá stjórnun sem ætlunin var að koma á, hvort sem hún hefði svo orðið til góðs eða ekki ef hún hefði í raun og veru verið framkvæmd.

Hér virðist enginn endir ætla að verða á vitleysunni eins og það atriði sýnir sem fyrst og fremst er til umræðu hér í dag, þ.e. sú töf sem verður æ ofan í æ við setningu reglugerðar.

Þá er og ljóst að bændur hafa brugðist ákaflega misjafnlega við. Margir voru löngu búnir að sjá hvert stefndi og höguðu sér í samræmi við það. Auðvitað var þeim svo refsað fyrir eins og hér hefur verið bent á. Aðrir virðast ekki hafa trúað því að nokkur alvara væri á bak við þessi áform stjórnvalda og héldu áfram að auka við sig, enda dyggilega studdir af stjórnvöldum í raun. Má furðulegt heita hversu áræðnir margir hafa verið í byggingum og vélakaupum, en þá hefur heldur ekki vantað hvatninguna að ofan, sem sést á því að á síðastliðnu ári voru veitt lán út á 80 fjós, eins og ekki sé nóg til af fjósum í landinu. Hvaða vit er í slíku?

Enn vil ég nefna hér að það er að mínu viti algerlega forkastanlegt að ekki skuli vera tekið tillit til hlunninda við úthlutun búmarks eða fullvirðisréttar. Það er reyndar alveg augljóst mál, að ég held, að þessir bændur, þ.e. hlunnindabændur, hljóti að hafa algera sérstöðu á næstu árum. Þeir verða e.t.v. þeir einu sem eftir standa að þessum gjörningum afstöðnum og svo kannske þeir sem ekkert hafa fjárfest síðan verðtrygging lána tók gildi.

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir að hefja þessa umræðu og tek undir gagnrýni á þann seinagang sem verið hefur á setningu reglugerðarinnar.